Illugi Gunnarsson, fyrrverandi mennta- og menningarmálaráðherra, hefur fengið tæpar 23 milljónir króna frá því hann lauk þingmennsku í fyrra fyrir störf sem hann hefur verið skipaður í af ráðherrum, auk biðlauna. Illugi fékk 8,3 milljónir króna fyrir setu í nefnd um endurskoðun ramma peningastefnu, samkvæmt svari forsætisráðuneytisins við fyrirspurn Stundarinnar.
Þar að auki hafði Illugi fengið 3.564.000 fyrir stjórnarformennsku í Byggðastofnun frá apríl 2017 til júníloka 2018. Illugi hefur því fengið minnst 11,8 milljónir króna fyrir störf sem hann hefur verið skipaður í af ráðherrum eftir að hann lauk þingmennsku 11. janúar 2017.
Átti hann einnig rétt á biðlaunum til sex mánaða, bæði sem þingmaður og ráðherra, alls 10.957.638 kr. Fjármálaskrifstofa Alþingis staðfestir að Illugi hafi fengið biðlaunin greidd að fullu, þrátt fyrir að hann hafi þegið greiðslur frá Byggðastofnun á meðan tímabilinu stóð. „Taki þingmaður, sem fær biðlaun, við starfi meðan þeirra nýtur falla þau niður ef launin er starfinu fylgja eru jafnhá en ella skerðast biðlaunin sem laununum nemur,“ segir á vef Alþingis um biðlaun þingmanna.
„Ef þingmenn fara í vinnu hjá hinu opinbera á biðlaunatímabilinu hefur Fjársýsla ríkisins séð um að draga af biðlaunum sem nemur öðrum opinberum launagreiðslum,“ segir Eggert Jónsson, forstöðumaður fjármálaskrifstofu Alþingis. „Að öðru er treyst á að þingmenn láti vita ef um önnur launuð störf er að ræða á biðlaunatímabilinu.“
Starfsmaður Samtaka atvinnulífsins fékk 8,8 milljónir
Stundin hefur áður greint frá því að Ásgeir Jónsson hagfræðingur hafi fengið rúmar 13 milljónir króna á árunum 2017 og 2018 fyrir formennsku í nefndinni. Afurð nefndarinnar var skýrsla um framtíð íslenskrar peningastefnu.
Athugasemdir