Ríkið er ráðandi aðili á kaupmarkaði lyfja á Íslandi en setur á sama tíma allt regluverk sem markaðurinn þarf að fara eftir, þar með talið lyfjaverð. Rekstrarafkoma þjónustufyrirtækja á lyfjamarkaði er langt frá því að vera eðlileg þegar horft er til lyfseðilskyldra lyfja og svokallaðra sömerktra lyfja, sem einkum eru sérhæfð lyf sem notuð eru á sjúkrahúsum. „Ef svo fer fram sem horfir gæti það leitt til þess að rekstrargrundvöllur þeirra sé ekki lengur til staðar,“ segir í nýrri skýrslu.
Skýrslan er unnin af ráðgjafarfyrirtækinu Intellecon fyrir Frumtak, samtök frumlyfjaframleiðenda á Íslandi. Í skýrslunni kemur fram að á Íslandi sé markaður með lyf svokallaður einkeypismarkaður, markaður þar sem einn kaupandi er ráðandi, og er það íslenska ríkið sem um ræðir. Á einkeppnismarkaði getur kaupandinn ákvarðað verð þannig að hagfræðilegur ábati seljanda verði lítill sem enginn.
„Ef svo fer fram sem horfir gæti það leitt til þess að rekstrargrundvöllur þeirra sé ekki lengur til staðar“
Í umræddri skýrslu kemur fram að slík staða sé að verða uppi þegar horft er til lyfseðilskyldra lyfja og s-merktra lyfja. Þar segir að vísbendingar séu um að rekstrarafkoma vegna þjónustu með umrædd lyf hafi farið mjög versnandi upp á síðkastið, sé langt undir því sem eðlilegt geti talist og sé komin að þolmörkum. Fari svo fram sem horfir gæti það leitt til þess að rekstrargrundvöllur fyrirtækjanna verði ekki lengur til staðar, með þeim afleiðingum að hið opinbera yrði sjálft að taka yfir hlutverk þeirra. Slíkt gæti orðið bæði flókið og kostnaðarsamt.
Í skýrslunni er því velt upp hvort tímabært sé að endurskoða fyrirkomulag ákvarðana um hámarksverð leyfisskyldra lyfja í heildsölu og hætta að miða almennt við lægsta verð á Norðurlöndum. „Íslenski markaðurinn er örsmár í þeim samanburði og kostnaður við innflutning og þjónustu að stórum hluta óháður stærð markaðarins sem gerir slíkan samanburð að mörgu leyti ójafnan.“ Aðrar leiðir séu færar til að tryggja lágt lyfjaverð á sama tíma og uppfyllt séu skilyrði laga um nægilegt framboð nauðsynlegra lyfja.“
Athugasemdir