Framleiðendur og innflytjendur á rafrettum og áfyllingum fyrir þær verða að tilkynna Neytendastofu um allar þær vörur sem þeir hyggjast selja sex mánuðum áður en varan fer í sölu. Neytendastofa skoðar vöruna og ákvarðar hvort hún uppfylli öryggisstaðla og fari í sölu. Fyrir hverja tilkynningu þarf að greiða Neytendastofu 75.000 krónur.
Tilkynningarskyldan kemur til vegna reglugerðar sem Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra setti í byrjun mánaðar. Félag atvinnurekenda fer fram á ógildingu reglugerðarinnar í bréfi til Velferðarráðuneytisins, þar sem aukakostnaður fyrir venjulega sérverslun með rafrettur gæti numið 60-100 milljónum króna. Félagið sér ekki annað en að um sé að ræða tilraun til að kæfa atvinnugreinina í fæðingu.
Flestar innfluttar rafrettur og vörur þeim tengdar hafa hingað til verið merktar CE staðli, en það þýðir að framleiðandi, innflytjandi eða dreifingaraðili vörunnar ábyrgist að hún uppfylli þær grunnkröfur um öryggi og almennt heilbrigði samkvæmt tilskipunum Evrópusambandsins.
Tilkynningarskylda er á hefðbundnum tóbaksvörum, t.d. sígarettum, en ekki er rukkað gjald fyrir þær eins og fyrir rafrettur. Félagið telur minna framboð á rafrettum og dýrari notkun á þeim styrkja stöðu sígarettunnar sem ódýrari kost.
Í bréfinu segist félagið reiðubúið til þess að vinna með Velferðarráðuneyti að setningu nýrrar reglugerðar „sem þjónar því markmiði að tryggja öryggi neytenda, jafnframt því að taka mið af raunverulegum aðstæðum á markaði og heilbrigðri skynsemi.“
Athugasemdir