Orðatiltækið eitthvað verður einhverjum að fótakefli lætur lítið yfir sér en geymir djúpa merkingu. Samfélagið og tíðarandinn hengir reglulega fótakefli á fólk til að beina því í tiltekna átt svo það hlaupi ekki með sjálft sig í gönur. Spyrja má um fótakefli þjóða, hvað er það sem hindrar þær helst á leið sinni til farsældar? Er það ef til vill græðgi, ótti eða kannski bara leti?
Fótur er orð, heiti eða kannski bara hugtak, það er ekki aðeins heiti yfir líkamshluta margvíslegra lífvera heldur birtist það á ýmsan hátt í orðatiltækjum og málsháttum í íslensku. Oft steytir einhver fót sinn við steini eða verður jafnvel fótaskortur í lífinu. Sumir eru reyndar alltaf á faraldsfæti en aðrir setjast í helgan stein, oft komnir að fótum fram.
Ævigangan getur verið greið en hún getur einnig verið þyrnum stráð, þvinguð og auðvelt er að fara villur vega. Fótakefli? Fóturinn er ganglimur en keflið er sívalningur sem slæst í hann og meiðir ef of hratt er farið og kallar á hvíld og tafir.
Fetað í fótspor annarra
Fólk fetar gjarnan í fótspor annarra. Sagt var fyrr á öldum að synir ættu að feta í fótspor feðra sinna og dætur í fótspor mæðra sinna. Fótsporið er þá tákn um fyrirmynd og fyrir suma: þvingandi eftirmynd. Hver einstaklingur þurfti að stíga í fótspor annars aðila, vera sporgöngumaður. Það er vissulega þægilegt fyrir suma, en óbærilegt fyrir aðra. Verst er að ganga í fótspor annarra án umhugsunar, án þess að vita hvert för er heitið, kannski bara af vana og eða blindri aðdáun.
Slæmt var talið að kunna ekki fótum sínum forráð í merkingunni að fara út fyrir valdastöðu sína í samfélaginu. „Haltu þér á mottunni, væni minn,“ sagði kannski sá sem var þrepi ofar í virðingarstiganum – og brá fyrir hann fæti.
Orðatiltækið eitthvað verður einhverjum að fótakefli lætur lítið yfir sér en felur í sér djúpa merkingu. Líkingin vísar til þess að trébútur í bandi er hengdur um háls á stórgrip eins og nauti. Tilgangurinn er að hindra að dýrið geti hlaupið. Trébúturinn eða hnyðjan slæst í fætur og kemur í veg fyrir að ferðin verði greiðfær. Þetta verður dýrinu að fótakefli.
Hugtakið fótakefli getur táknað ytri aðstæður, það getur orsakast af slysum og tilviljunum. Það getur einnig verið að aðrir leggi viljandi stein í götu einstaklings eða dæmi hann ranglega úr leik. Samfélagið og tíðarandinn hengir reglulega fótakefli á fólk til að beina því tilteknar leiðir og svo það hlaupi ekki með sig sjálft í gönur.
Líkingin, sem orðatiltækið felur í sér, er ljóslifandi. Eitthvað dregur úr snerpu, eitthvað letur, hamlar og hindrar för. Manneskja með metnað og hæfileika er bundin við jörðu og tekst ekki á flug vegna þess að eitthvað verður henni að fótakefli.
Torleiði ferðarinnar
Góðu fréttirnar eru þær að í sumum tilvikum getur einstaklingurinn sjálfur losað bandið og kastað af sér fótakeflinu – af eigin rammleik óháð því hvernig það er tilkomið.
Skortur á hugrekki til að segja skoðun sína getur orðið einhverjum að fótakefli í félagsskap. Viðkomandi hefur myndað sér skoðun, lesið sér til, íhugað og komist að ígrundaðri niðurstöðu en þorir ekki að leggja hana fram þegar á hólminn er komið. Það verður honum að fótakefli og verkefnið fram undan er þá að efla með sér áræðni til að segja skoðun sína.
Það þarf athyglisgáfu til að taka eftir ósýnilegu fótakefli sem hangir og hamlar hæfileikaríkri manneskju og það er fallegt að hjálpa henni að losa það, svo það verði henni ekki áfram til trafala. Það þarf svo næstum því náðargáfu að koma auga á fótakeflið sem slæst í eigin kálfa og dregur úr líkum á því að eigin persóna verði fullnuma.
Einhver eða eitthvað leggur fótakeflið fyrir einhvern eða einhverja. Ef það eru aðstæður, uppeldi, félagsskapur, staða eða jafnvel erfðir, þá er hægt að vinna í málinu. Torleiði ferðalangs sem þarf að burðast með fótakefli verður léttfært um leið og snærið er losað og rekaviðarbúturinn hefur verið skilinn eftir á veginum.
Fótakefli Íslendinga
Hvert er fótakefli Íslendinga eða þjóðarinnar? Gæti það verið óbilandi bjartsýni, sérhlífni, minnimáttarkennd, þrjóska og leti eða kannski skortur á virðingu, sjálfsaga og samkennd? Það er vandasamt að segja til um það með afgerandi hætti en þó er ágætt að koma með tilgátur.
Hugtakið þjóð er ef til vill loðið en þó skynja flestir eitthvað slíkt innra með sér því hver persóna er meira en hún sjálf og tilheyrir oftast einhverju landi, sögu og samferðamönnum. Flestar persónur bera arf kynslóðanna með sér, uppeldi og umhverfi og tíðaranda.
Markmiðið eftir stríðin miklu á 20. öld var að efla og kenna hvers konar mannréttindi og hvetja til samvinnu, umhyggju, réttlætis og heiðarleika í samskiptum. Það kemur því miður reglulega bakslag í þetta viðamikla verkefni í flestöllum löndum.
Andgildin sem erfitt er að kveða niður breytast í fótakefli þjóða, stundum í taumleysi, agaleysi, græðgi og hroka og stundum í kænsku og yfirburðaþrá svo dæmi séu nefnd. Þau eiga oft að vera driffjöður til glæstrar framtíðar en reynast oft verða þeim að falli.
Vinnusemi hefur löngum verið talin til íslenskra höfuðdygða. Fátt hefur verið talið til meiri vegsemdar en hrós fyrir dugnað og atorkusemi. Dugleg manneskja hefur orku og úthald, hún er viljug og drífandi – en hvert stefnir hún? Er hún hlýðin eða gagnrýnin? Nemur hún staðar og efast?
Dugnaður getur vissulega verið kostur en hann er verri en enginn ef markmiðið er magn en ekki gæði. Efnahagsástandið á Íslandi fyrir 2008 var hvínandi vitnisburður um dugnað, kapp án forsjár og einbeittan vilja til að fanga gróðann.
Það hljómar sennilega sem mótsögn að fullyrða í þessu sögulega ljósi að fótakefli Íslendinga á veginum til betra lífs sé leti. En „afrek“ leti af þessu tagi er að koma í veg fyrir að fólk geti öðlast það sem skiptir máli í lífinu. Einkenni slíkrar leti eru tómlæti og viljaleysi gagnvart því sem skiptir máli eins og til dæmis að læra samkennd með öðrum. Eitt afrek þessarar leti er að koma í veg fyrir víðsýni, yfirvegun og stöðugleika.
Hvað hvetur dugnaðurinn og hvað letur letin?
Andleg leti felst m.a. í því að verða trúgirni að bráð og að tileinka sér gagnrýnislaust skoðanir annarra og stefnur. Sá sem getur gleypt við upplýsingum án þess að efast um þær getur ekki haft áhrif á samfélagið út frá mannúðlegum hugsjónum. Þjóð verður ekki sjálfstæð í raun og sann nema hún búi yfir kröftugum, gagnrýnum borgurum sem mótmæla kúgun og óréttlæti og sem vilja knýja fram réttlæti og jöfnuð í samfélaginu. Borgurum sem beita ekki klækjum og kænsku.
Þjóð sem vill gera samkennd og samábyrgð að þjóðgildum þarf að leggja ýmislegt á sig. Hún þarf að sýna dugnað en má ekki vera sérhlífin gagnvart þeim mannkostum sem of auðvelt er að vanrækja og of sjaldan er hrósað fyrir eins og nægjusemi, ráðdeild, sjálfsaga og gagnrýna hugsun.
Að horfast í augu við gallana
Það er fremur auðvelt að láta stjórnast af græðgi en það getur verið torvelt að temja sér nægjusemi. Það er auðvelt að láta vanann ráða og að hlýða umhugsunarlaust en það er vandasamt að fara eigin leið. Það er auðvelt að falla fyrir freistingum en það getur tekið á að standast þær. Það er auðvelt að vera hlutlaus en þarf að leggja hart að sér til að hverfast ekki eftir gylliboðum og mjúkmælum kænna mótstöðumanna.
„Það er auðvelt að trúa tunguskæðum en það er verkefni að komast að sannleikanum af eigin rammleik.“
Það er auðvelt að taka sinn skerf en það getur þurft að hafa fyrir því að deila kjörum með öðrum. Það er auðvelt að elska sjálfan sig en það er oftast fyrirhöfn að sýna öðrum samkennd og rétta hjálparhönd. Það er auðvelt að trúa tunguskæðum en það er verkefni að komast að sannleikanum af eigin rammleik.
Hvert er fótakeflið sem slæst í fætur og dregur úr viljanum til að halda veginn til betra lífs og þroska? Að losna við fótakeflið er eins og að losna úr álögum, öðlast frelsi og hlaupa óhindrað og sársaukalaust.
Næsta verkefni er að viðurkenna gallana og takast á við þá, losa fótakeflið sem þeir skapa. Þjóð sem ætlar í raun og sann að ráða öllum sínum málum þarf að gera það.
Athugasemdir