Það eru skiptar skoðanir á meðal stjórnmálafólks um raunveruleika ójafnaðar á Íslandi. Í sjálfu sér hlýtur það þó að vera hálf gildislaust ef stjórnmálafólk með fasta vinnu, góðar tekjur og mikið traust hjá lánastofnunum, segir ójöfnuð ekki vera raunverulegan á Íslandi, og vísa þar á eftir í prósentutölur meðaltals sér til stuðnings. Það er villandi að benda á meðaltalstölur og fullyrða um hagsæld samfélagsins út frá þeim. Það veit fólkið sem þrælar sér út allan ársins hring án þess að eiga neitt til að sýna fyrir það, því ekki endar auður samfélagsins á þeirra bankareikningum. Staðreyndin er sú að auður samfélagsins safnast saman á hendur fárra, og Ísland er ekki undanskilið þeirri þróun frekar en önnur ríki heimsins.
Þetta má sjá í tölum frá skattstjóra, þar sem sést að ríkustu fimm prósent landsins eiga tæplega helming alls auðs sem talinn var fram á landinu árið 2016. Það má einnig sjá á launaseðlum þeirra stétta sem sinna viðkvæmustu hópum samfélagsins. Þar éta prósentutölurnar upp krónurnar sem leiðir að lokum til harkalegrar skerðingar á lífsgæðum þessara einstaklinga. Þau vinna og hafa áhyggjur, og vinna svo meira. Með heppni og útsjónarsemi tryggja þau mat á borðið og nauðsynjar fyrir börnin, en láta sig sjálf sitja á hakanum því forgangsröðunin nær ekki til eigin heilsu.
Veruleikinn er óháður meðaltölum
Nú skiptir engu hversu mikið prósentutölur éta upp af launum fyrrnefndra topp fimm prósenta, því eftir stendur að lífsgæði þeirra eru óskert samt sem áður. Þau þurfa ekki að hafa áhyggjur af þaki yfir höfuðið, matarkörfunni í Bónus, eða nýrri úlpu og kuldaskóm á börnin. Ef heilsan er ekki sem best þá er því kippt í liðinn, enda ætti ekkert að vera sjálfsagðara heldur en að hugsa vel um líkama sinn og huga. Þetta er veruleikinn, óháður öllum meðaltölum, því á Íslandi viðgengst félagslegur og efnahagslegur ójöfnuður, sem hefur þau áhrif að jaðarsetja fólk þegar kemur að því að vera virkur borgari í samfélaginu.
„Á Íslandi viðgengst félagslegur og efnahagslegur ójöfnuður, sem hefur þau áhrif að jaðarsetja fólk þegar kemur að því að vera virkur borgari í samfélaginu“
Joseph E. Stiglitz, Nóbelsverðlaunahafi í hagfræði, hefur skrifað um hættuna sem ójöfnuður skapar fyrir lýðræði. Í fyrsta lagi má benda á mikilvægi trausts í samfélaginu og hversu stórt hlutverk traust spilar í samfélagssátt. En fyrir meirihluta almennings á Íslandi hefur traustið verið brotið og það hefur verið brotið undanfarinn áratug og sama sem ekkert hefur verið gert til að vinna í að auka traust almennings á yfirvöldum. Stiglitz talar um hvernig hvati fólks til borgaralegrar þátttöku byggist að vissu leyti á traustinu á sanngjörnu samfélagi, og bendir á hvernig vantraust almennings á opinberum stofnunum grefur undan lýðræðinu.
Við vitum betur
Vantraustið má rekja til þess að meirihluti almennings sér að stofnanir sem sýsla með fjárhag þeirra eru ekki með hagsmuni þeirra efnaminni að leiðarljósi, ásamt því að sjá tengsl þessara stofnana við stjórnmálin. Þegar traustið er brotið þarna á milli hverfur smám saman hvati þessa meirihluta til að iðka lýðræðið. Þannig getur það gerst að fólk hættir að kjósa, sem skilur völdin eftir í höndum fárra og lýðræðislega kjörnir fulltrúar hafa einsleita hagsmuni að leiðarljósi.
Lýðræði þarf að fela í sér svo mikið meira heldur en einungis kosningar á nokkurra ára fresti til þess að vera virkt og lifandi lýðræði. Vissulega eru uppi raddir sem líta svo einfaldlega á að lýðræði verði afgreitt með einu atkvæði annað slagið. Við sem krefjumst þess að búa í öflugu og virku borgarasamfélagi vitum betur. Við vitum sem er að fulltrúar okkar í stjórnmálum þurfa að taka ákvarðanir byggðar á eigin hyggjuviti og persónulegum gildum, og kjósum við því fólk sem við treystum til að standa fyrir okkar eigin gildum. En þegar loforð sem eru gefin fyrir kosningar eru endurtekið svikin af kjörnum fulltrúum er ekki furða að almenningur hætti að treysta orðum um breytta hagi til batnaðar, því ætti það að vera forgangsverk stjórnmála að endurbyggja traustið. Það verður gert með því að setja hagsmuni þeirra tekjulægstu í samfélaginu fram fyrir aðra og vinna gegn raunverulegum ójöfnuði í samfélaginu, lýðræðisins vegna.
Höfundur er starfskraftur Öldu, félags um sjálfbærni og lýðræði.
Athugasemdir