Fjármálaráðuneytið staðfesti í fréttatilkynningu á föstudag að ríkið ætli, með fyrirvara um heimild í fjáraukalögum, að lána Íslandspósti 500 milljónir króna til allt að 12 mánaða vegna lausafjárvanda fyrirtækisins. Stundin greindi frá fyrirhugaðri lántöku á miðvikudag.
Í fréttatilkynningu ráðuneytisins er rekstrarvandi Íslandspósts rakinn sérstaklega til fækkunar bréfa og lántakan sögð þjóna þeim tilgangi að tryggja möguleika fyrirtækisins til að standa undir svokallaðri alþjónustuskyldu.
Fyrr á þessu ári gerði Póst- og fjarskiptastofnun sérstaka athugasemd við ummæli í tilkynningu frá Íslandspósti þar sem rekstrarvandi fyrirtækisins var rakinn til alþjónustuskyldunnar.
Bent var á að Íslandspósti hefði verið bætt upp, í gegnum gjaldskrá félagsins innan einkaréttar, allur sá viðbótarkostnaður sem alþjónustuskyldan hefði í för með sér. „Að mati PFS eru því möguleg vandamál í tengslum við afkomu fyrirtækisins ekki tilkomin vegna þeirra skyldna sem hvílt hafa á fyrirtækinu vegna alþjónustu á undanförnum árum,“ segir í ákvörðuninni sem var birt 18. janúar 2018, skömmu eftir að stjórnendur Íslandspósts tilkynntu um fækkun dreifingardaga bréfa.
Í nýlegu hálfsársuppgjöri Íslandspósts kom fram að fyrirtækið hefði tapað 161,2 milljónum á fyrri helmingi ársins og áætlað væri að tekjur fyrirtækisins drægjust saman um hátt í 400 milljónir árið 2018 vegna fækkunar bréfsendinga. Var fullyrt að ófjármagnaður kostnaður vegna alþjónustu Íslandspósts yrði 700 milljónir á þessu ári. „Íslandspóstur þarf á fjármagni að halda til að viðhalda rekstrarfjármunum sem og til að styrkja lausafjárstöðu félagsins. Þrátt fyrir aukna lántöku undanfarin ár er þörf á meira lausafé, allt að 500 m.kr., til að standa undir skuldbindingum næstu mánuðina og fyrirsjáanlegum taprekstri á yfirstandandi ári, m.a. vegna mikillar fækkunar bréfa, og hefur félagið leitað til ríkisins um fyrirgreiðslu vegna þess,“ segir í tilkynningunni sem fjármálaráðuneytið birti í gær.
Samkeppnisrekstur Íslandspósts borinn
uppi af tekjum frá einkaréttarstarfsemi
Íslandspóstur, sem er að fullu í eigu ríkisins, hefur sætt harðri gagnrýni undanfarin ár vegna umsvifa fyrirtækisins á samkeppnismörkuðum. Hefur til að mynda Félag atvinnurekenda gagnrýnt að Íslandspóstur nýti fjármagn sem stafar frá einkaréttarvarinni starfsemi til niðurgreiðslu samkeppnisrekstrar.
„Tap Íslandspósts er að okkar mati að langmestu leyti tilkomið vegna misráðinna fjárfestinga í samkeppnisrekstri, sem hefur ekkert með grunnhlutverk fyrirtækisins að gera að tryggja almenningi póstþjónustu,“ segir Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, í samtali við Stundina.
Í greiningu sem Fjárstoð ehf. vann á fyrirliggjandi gögnum um rekstur Íslandspósts árið 2016 kom fram að að samkeppnisrekstri Íslandspósts væri haldið á floti með aðgangi að fjármagni og eigin fé sem rekja mætti til rekstrar sem félli undir einkarétt.
„Afkoma og reikningar dótturfélaga bera það með sér að rekstur þeirra hefur verið fjármagnaður af móðurfélaginu á sama tíma og samkeppnisrekstur innan móðurfélagsins er rekinn með umtalsverðu tapi,“ segir í minnisblaði Fjárstoðar, en greiningin var unnin fyrir Póstmarkaðinn ehf., samkeppnisaðila Íslandspósts, og Félag atvinnurekenda. „Það er því ljóst að fjármögnun samkeppnisrekstrar, hvort heldur er innan eða utan móðurfélagsins, kemur í raun frá starfsemi í einkarétti eða verið er að ganga á eigið fé ÍSP, sem byggt hefur verið upp af þeirri starfsemi í gegnum tíðina. Draga má í efa að það samræmist 16. gr. laga 19/2002 um póstþjónustu.“
„Það er því ljóst að fjármögnun samkeppnisrekstrar, hvort heldur er innan eða utan móðurfélagsins, kemur í raun frá starfsemi í einkarétti“
Ólafur Stephensen bendir á að lántakan sé háð heimild í fjáraukalögum. Nú gefist fjárlaganefnd gott tækifæri til að fá ýmsar upplýsingar um rekstur fyrirtækisins upp á yfirborðið.
Ísland er eina landið á Evrópska efnahagssvæðinu þar sem einkaréttur á póstþjónustu hefur ekki verið felldur niður. Í fyrirliggjandi frumvarpsdrögum Sigurðar Inga Jóhannssonar, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, er lagt til að einkaréttur ríkisins verði afnuminn og alpóstþjónusta veitt á markaðslegum forsendum í samræmi við þriðju pósttilskipun Evrópusambandsins.
Neituðu að svara spurningum um meðferð fjármuna
Félag atvinnurekenda sendi stjórn Íslandspósts ítarlegt erindi í nóvember 2017 og gerði athugasemdir við viðskiptahætti fyrirtækisins. Þá óskaði félagið eftir gögnum um reksturinn, svo sem yfirliti yfir raunafkomu mismunandi rekstrarþátta. Stjórn Íslandspósts varð ekki við upplýsingabeiðninni en svaraði erindinu með stuttu bréfi þar sem fram kom að farið hefði verið yfir málið með lögmanni fyrirtækisins, stjórnin teldi ekkert hæft í „ávirðingunum“ og lýsti yfir „fullum stuðningi við forstjóra og framkvæmdastjórn Íslandspósts“.
„Okkur finnst með nokkrum ólíkindum að pólitískt skipuð stjórn fyrirtækis í eigu skattgreiðenda, sem meðal annars er skipuð aðstoðarmanni fjármálaráðherra, neiti að svara málefnalegum spurningum um meðferð fjármuna almennings og samkeppnishætti fyrirtækisins,“ segir Ólafur Stephensen.
Athugasemdir