Vantraust íslensks almennings á stjórnkerfinu er meira en á Norðurlöndum og stjórnvöld eru vanbúin að bregðast við, taka og læra af gagnrýni. Móta þarf heildarstefnu um heilindi í stjórnmálum og stjórnsýslu og fylgja henni eftir með aðgerðaáætlun. Þetta er niðurstaða starfshóps um eflingu trausts á stjórnmálum og stjórnsýslu.
„Íslendingar hafa farið sér hægar en nágrannaþjóðirnar í aðgerðum til að tryggja heilindi í opinberum störfum og hér á landi hefur minna tillit verið tekið til tilmæla og leiðbeininga alþjóðlegra stofnana um varnir gegn spillingu en æskilegt hefði verið,“ segir í skýrslu starfshópsins. „Takist stjórnvöldum ekki að gefa almenningi til kynna að starfsemi stjórnkerfisins sé í höndum hæfs fólks, jafnt kjörinna fulltrúa sem starfsfólks stjórnsýslu, getur traust ekki skapast. Á sama hátt grefur það undan góðum stjórnarháttum að ekki sé nægilega hugað að ásýnd stjórnmála og stjórnsýslu. Vantraust – verðskuldað eða ekki – dregur sjálft úr möguleikum stjórnvalda til að ná árangri. Þannig má sjá hvernig vítahringur vantrausts getur orðið til.“
Starfshópurinn sem skipaður var 5. janúar sl. hefur nú skilað skýrslu til forsætisráðherra. Skýrslan var kynnt í ríkisstjórn 4. september sl. og hyggst forsætisráðherra einnig kynna hana á Alþingi sem sett verður í næstu viku.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir að nú taki við umræða á pólitískum vettvangi og í samfélaginu. „Mér finnst gagnlegt að sjá þetta allt sett í samhengi og áþreifanlegar tillögur sem hægt er að setja í ferli. Og hafin er vinna við suma þætti, til dæmis endurskoðun reglna um hagsmunaskráningu og frumvarp til laga um vernd uppljóstrara. Þessi mál verða áfram í forgangi í forsætisráðuneytinu,“ segir Katrín.
Starfshópinn skipuðu Jón Ólafsson, prófessor við Háskóla Íslands, sem jafnframt var formaður hópsins, Ólöf Embla Eyjólfsdóttir, MSt í heimspeki, Páll Þórhallsson, skrifstofustjóri í forsætisráðuneyti, Ragna Árnadóttir, lögfræðingur og Sigurður Kristinsson, prófessor við Háskólann á Akureyri. Með hópnum starfaði Oddur Þorri Viðarsson, lögfræðingur í forsætisráðuneyti.
Tillögur starfshópsins
1. Markmið um heilindi
a. Ríkisstjórnin setji fram stefnuskjal sem lýsir markmiðum um heilindi – heilindaramma (e. Integrity Framework). Innihald hans mótist af þeim atriðum sem hér koma á eftir.
2. Siðareglur og siðferðileg viðmið
a. Hefja nú þegar nauðsynlega vinnu við endurskoðun siðareglna ráðherra, starfsfólks stjórnsýslu og ríkisstarfsmanna.
b. Tryggja reglulega umræðu um siðareglur og endurskoðun þeirra á vettvangi Stjórnarráðsins.
c. Setja siðareglur fyrir aðstoðarmenn ráðherra og mögulega fleiri hópa innan stjórnsýslunnar.
d. Tryggja heildarsýn og samræmi í þeim siðareglum sem gilda fyrir kjörna fulltrúa, ráðherra og starfsmenn stjórnsýslu.
3. Gagnsæi, miðlun upplýsinga og upplýsingaréttur almennings
a. Ráðast í heildarstefnumótun um upplýsingagjöf til almennings, þ.m.t. upplýsingagjöf handhafa dómsvalds og löggjafarvalds.
b. Stytta afgreiðslutíma úrskurðarnefndar um upplýsingamál.
c. Samræma og einfalda upplýsingagjöf ráðuneyta og skýra betur hlutverk þeirra starfsmanna sem sinna upplýsingagjöf og almannatengslum.
4. Hagsmunaárekstrar og hagsmunaskráning a. Setja nú þegar skýrar og samræmdar reglur um hagsmunaskráningu ráðherra sem ná til fleiri þátta – t.d. skulda – en núverandi reglur gera og taka einnig til maka og ólögráða barna.
5. Samskipti við hagsmunaaðila, hagsmunavarsla (e. lobbyism) og starfsval eftir opinber störf
a. Þeim aðilum sem hafa atvinnu af því að tala máli hagsmunaaðila gagnvart stjórnmála- og embættismönnum verði gert að skrá sig sem hagsmunaverði (e. lobbyist).
b. Hefja vinnu að reglum um samskipti við hagsmunaaðila. Slíkar reglur þurfa að tryggja fullt gagnsæi um samskiptin.
c. Setja reglur um starfsval eftir opinber störf sem koma í veg fyrir að starfsfólk stjórnsýslu eða kjörnir fulltrúar gangi inn í störf hjá einkaaðilum vegna aðgangs að upplýsingum úr opinberu starfi. Slíkar reglur varða einkum tíma sem nauðsynlegt er að líði frá starfslokum og þar til starf fyrir einkaaðila hefst.
6. Vernd uppljóstrara
a. Vinnu við heildstæða löggjöf um uppljóstraravernd fyrir opinbera starfsmenn og einkageirann verði hraðað og frumvarp lagt fram sem allra fyrst. Mið verði tekið af nýlegri löggjöf í nágrannalöndum, t.d. í Noregi.
7. Lýðræðislegt samráð við almenning
a. Stjórnvöld setji sér skýr markmið um aukið samráð um stefnumótun, undirbúning löggjafar og aðrar mikilvægar ákvarðanir.
b. Samráðsgátt stjórnvalda verði efld og hugað að víðtækri kynningu á henni sem heppilegri leið hins almenna borgara til að hafa áhrif á mótun lagasetningar og stefnumála.
c. Stjórnvöld leggi sig fram um að nýta hugbúnað og veflausnir til að auka þátttöku almennings og stefni að því að Ísland verði í hópi þeirra landa sem fremst standa í nýsköpun á sviði lýðræðis.
d. Sótt verði um aðild að Open Government Partnership í samvinnu við félagasamtök.
e. Unnið verði að því að styrkja borgaralegan vettvang t.d. með föstum styrkjum til félagasamtaka sem uppfylla tiltekin skilyrði um starfsemi og skipulag.
8. Símenntun starfsfólks, fræðsla og gagnrýnin umræða
a. Stjórnarráðsskólinn verði efldur þannig að starfsemi hans nái utan um reglubundna þjálfun allra starfsmanna á sviði opinberra heilinda.
b. Þróað verði sértækt námsefni fyrir opinbera starfsmenn um siðferðileg álitamál og heilindi í opinberu starfi, þ. á m. dæmasöfn.
c. Stuðlað verði að því að umræða innan stjórnsýslunnar um heilindi, siðferði í opinberu starfi og fagmennsku sé fastur liður í starfi hennar.
d. Stefnt verði að því að efla gagnrýna umræðu innan stjórnsýslunnar, en slík umræða er forsenda þess að ráðuneyti og einstakar starfseiningar beri kennsl á brotalamir í starfseminni til að hægt sé að breyta stofnanamenningu þegar nauðsyn krefur.
9. Stofnanaumgjörð
a. Siðfræðistofnun verði falið það verkefni (tímabundið, til að byrja með) að veita stjórnvöldum ráðgjöf um siðferðileg álitamál og fjárveiting til þeirrar starfsemi tryggð.
b. Siðfræðistofnun verði falið að annast eftirfylgni með þessari skýrslu.
c. Sett verði á fót nefnd eða eining innan stjórnsýslunnar með það sérhæfða hlutverk að veita einstökum starfsmönnum, þ.m.t. ráðherrum, ráðgjöf í trúnaði um siðferðileg álitamál.
Athugasemdir