Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, hafnar því alfarið að lágtekjufólk í íslensku samfélagi eigi að sætta sig við aðeins fjögurra prósenta hækkun launa í komandi kjarasamningum. Í nýrri skýrslu hagfræðiprófessorsins Gylfa Zoega, sem hann vann fyrir forsætisráðuneytið, kemur fram að sé ætlunin að viðhalda stöðugleika við gerð kjarasamninga sé svigrúmið til launahækkana ekki nema fjögur prósent.
Sólveig Anna var gestur í Kastljósi gærkvöldsins þar sem rætt var um skýrslu Gylfa í samhengi við kjarasamningaviðræður á komandi vetri. Sólveig Anna sagðist að sumu leyti fagna því að í skýrslu Gylfa væri þó talað um að eitthvað svigrúm væri til launahækkana því málflutningur sumra í samfélaginu hefði verið á þeim nótum að ekkert svigrúm væri og fólk ætti að búa sig undir einhvers konar núprósenta samninga. „Ég lít náttúrulega svo á að lágtekjuhóparnir eigi inni miklu, miklu hærri hækkanir en það,“ sagði Sólveig.
Í skýrslu Gylfa er jafnframt nefnt að ríkisvaldinu væri unnt að gera ferkari áætlanir, í samráði við sveitarfélög, um að koma upp ódýru húsnæði fyrir lágtekjufólk og ungt fólk. Sú áhersla er að mati Sólveigar Önnu jákvæð „Það er einmitt nefnt í skýrslunni, eða eins og ég skil þetta, að það gangi ekki að við bíðum eftir því að markaðurinn leysi þetta heldur verði að grípa til markvissra aðgerða. Ef það gerist þá er það mjög góð byrjun.“
Ljóst er að slíkar hugmyndir í húsnæðismálum koma ekki til framkvæmda í einu vetfangi. Fréttamaður Kastljóss spurði Sólveigu Önnu hvort verkalýðshreyfingin væri tilbúin til að skrifa undir samninga um lágar launahækkanir, fjögur prósent eins og nefnt er í skýrslu Gylfa, án þess að hafa tryggingu fyrir að einhverjar slíkar áætlanir um húsnæðisuppbyggingu yrðu að veruleika og nefndi lagasetningu í þeim efnum. Sólveig Anna aftók slíkt með öllu. „Nei, ég held að það sé óhætt að segja að það mun ekki gerast.“
Athugasemdir