Óli Björn Kárason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis, segir að þingmenn og ráðherrar keppist við að leggja fram sem flest þingmál, enda séu stjórnmálamenn „vegnir og metnir út frá fjölda þeirra mála sem lögð eru fram“. Hann fullyrðir að ráðherrar kynni frumvörp og leggi fram tillögur sem þeir hafi „lítinn eða engan áhuga á að nái fram að ganga“. Þá keppist þingmenn við að „styrkja sig í sessi meðal sérhagsmuna“ en sérhagsmunahópar styðji ekki hugmyndir um að draga úr umsvifum ríkisins og lækka skatta.
Þessi sjónarmið Óla Björns, þungavigtarmanns í núverandi stjórnarmeirihluta, birtast í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag. Óli Björn beinir spjótum meðal annars að fjölmiðlum; hann telur fjölmiðla vinstrisinnaða og ósanngjarna við stjórnmálamenn sem vilja lækka skatta.
„Stjórnmálamaður sem lofar auknum útgjöldum, stórbættri opinberri þjónustu, fær yfirleitt hljóðnema fjölmiðlanna og frið til að flytja boðskapinn. Sá er berst fyrir lækkun skatta er hins vegar krafinn svara við því hvernig hann ætli að „fjármagna“ lækkun skatta,“ skrifar Óli Björn og bætir við: „Og það er eins gott fyrir þingmann sem vill draga úr umsvifum ríkisins – minnka báknið – að vera tilbúinn til að svara hvernig í ósköpunum honum komi slíkt til hugar.“
Hann segir „hugmyndafræði gamalla vinstrimanna“ hafa náð yfirhöndinni, bæði í fjölmiðlum og stjórnmálunum þar sem þorri manna sé sannfærður um að ríkið sé upphaf og endir lífsgæða almennings. Hann og aðrir sem vilji draga úr samneyslu og „baka stærri þjóðarköku“ séu í minnihluta. „Við getum ekki reiknað með að fjölmiðlar eða sterkir sérhagsmunahópar veiti okkur stuðning. Að þessu leyti er við ramman reip að draga.“
Það sem er þó kannski athyglisverðast við grein Óla Björns eru fullyrðingar hans, þingmanns til margra ára og áhrifamanns í Sjálfstæðisflokknum, um hvatana sem liggja að baki framlagningu þingmála frá ráðherrum og þingmönnum.
Samkvæmt frásögn Óla Björns einblína stjórnmálamenn á fjölda mála, magn frekar en gæði. „Löggjafinn fer sínu fram og styðst við hættulegan mælikvarða magns. Ráðherrar, nauðugir viljugir, leggja fram hvert frumvarpið á fætur öðru til að vera ekki fundnir sekir um dugleysi – vera verklitlir í embætti. Þingmenn leggja fram fjölda þingmála til að vekja athygli á sjálfum sér og styrkja sig í sessi meðal sérhagsmuna.“
Athugasemdir