Í kjölfar tilvistarkreppunnar sem fylgir því að klára háskólanám í listum hef ég velt því mikið fyrir mér hversu stórt hlutverk egó spilar í mínu lífi. Og þar sem ég get bara séð heiminn út frá sjálfri mér, þá geri ég ráð fyrir því að aðrir hugsi eins og ég í þessum vangaveltum. Ég er komin með kenningu. Kenningin mín er sú að drifkrafturinn á bak við allar ákvarðanir og gjörðir í lífinu sé þegar öllu er á botninn hvolft: egó. Álit annarra er það sem lætur okkur reyna að breyta rétt. Að minnsta kosti í dag þegar hugmyndin um Guð er á undanhaldi. Tökum dæmi:
List er egó: Ég hef undanfarið ítrekað spurt sjálfa mig af hverju ég sækist svona mikið eftir því að vinna ógeðslega mikið fyrir lítinn pening, opinbera sjálfa mig og lifa í stöðugum sjálfsefa án nokkurs fjárhagslegs öryggis? Ég kemst alltaf aftur og aftur að þeirri vandræðalegu niðurstöðu að ég þrífist á viðurkenningu annarra. Önnur hver heimildarmynd um frægt fólk fjallar um erfiða æsku þeirra, eineltið í grunnskólanum, pabbann sem yfirgaf það og svo framvegis. Líklega hefur öll þessi höfnun orðið til þess að þetta fólk leggur sérstaklega hart að sér til þess að sanna fyrir heiminum að það sé einhvers virði - það nærist á aðdáun ókunnugra. Því hvað er listsköpun annað en leit að viðurkenningu? Hvað væri leikhús án lófataks?
Ást er egó: Að vera ástfanginn snýst í rauninni bara um að vera mjög upp með sér yfir því að einhver, sem manni finnst mikið til koma, endurgjaldi aðdáunina. Að fá fiðrildi í magann því þessi fallegi maður brosti til mín! Sjáiði allir! Hann er að dansa við mig! Hann elskar mig! Og svo framvegis. Að sækjast eftir ást annarrar manneskju snýst að miklu leyti um að sækjast eftir viðurkenningu hennar. Ef einhver hafnar okkur þá særir það egóið okkar og þörfin til þess að sanna okkur gagnvart viðkomandi verður ennþá sterkari og þess vegna festumst við gjarnan í vítahring við að eltast við þá sem hafna okkur.
Að eignast barn er egó. Að búa til ósjálfbjarga einstakling gerir þig að lífsnauðsyn. Einstaklingur af þínu holdi og blóði sem þú getur séð sjálfan þig í og mótað eftir eigin höfði. Það er ástæða fyrir því að við gefum börnum okkar eigin nöfn sem eftirnöfn, þeim er ætlað að vera framlenging af foreldrinu, eitthvað til þess að stæra sig af og eitthvað til að halda arfleifð þeirra á lofti. Fólk fær ekki nóg af því að setja myndir af afkvæmum sínum á samfélagsmiðla og baða sig í lækum og hrósum, stæra sig af sköpunarverki sínu.
Að hjálpa öðrum er egó. Fátt lætur manni líða eins mikið eins og maður hafi tilgang eins og að hjálpa öðrum. Þegar vinir manns opna sig og trúa manni fyrir erfiðleikum verður maður upp með sér yfir því að þeir skuli treysta manni. Manni finnst maður hafa mikilvægi og maður klappar sjálfum sér á bakið fyrir að vera góð manneskja. Sama ef maður hjálpar ókunnugum og ég tala nú ekki um ef maður tekur þátt í góðgerðarstarfsemi! Því meira sem þú gerir fyrir aðra, því meira mikilvægi finnst þér þú hafa.
Vinir eru egó. Vinir eru fólk sem manni finnst maður sjálfur vera skemmtilegur í kringum. Þess vegna nennir maður að hanga með þeim. Þeir hlæja að bröndurum manns og láta manni líða vel. Og manni sjálfum líður vel að geta endurgoldið þessa hegðun.
Í frægu atriði úr myndinni Masculin Féminin eftir Godard er eftirfarandi samtal (sem er svo stælt í myndinni I’m Not There):
Madeleine: Hver er miðja alheimsins fyrir þér?
Paul: Miðja alheimsins? Fyrsta alvöru samtalið okkar og þú spyrð mig svona ótrúlegrar spurningar?
Madeleine: Þetta er frekar venjuleg spurning. Hvert er svarið þitt?
Paul: Ást, geri ég ráð fyrir.
Madeleine: Skrítið. Ég hefði sagt: Ég. Finnst þér það skrítið? Finnst þér þú ekki vera miðja alheimsins?
Paul: Jú, auðvitað, að vissu leyti.
Madeleine: Að hvaða leyti?
Paul: Að lifa, að vera, að sjá með sínum eigin augum ... tala með sínum eigin munni, hugsa með sínum eigin haus ...
Við getum bara upplifað heiminn út frá okkur sjálfum og það er þá kannski ekki svo skrítið að við stjórnumst af egóinu (eða sjálfinu). Það hljómar kannski ekki vel að segja að maður stjórnist af egói, en það þarf samt ekki að vera slæmt. Allt ofantalið; listsköpun, ást, börn, vinir og að hjálpa öðrum - allt þetta lætur okkur líða vel með okkur sjálf og þegar okkur líður vel með okkur sjálf þá getum við gefið meira af okkur og verið örlátari og betri við aðra. Að næra egóið getur þannig hjálpað manni að hjálpa öðrum.
Auðvitað mun mér göfugra fólk benda á að egóið getur verið fylgifiskur þessara gjörða, ekki endilega drifkrafturinn, og ég er kannski að gefa of mikið upp um eigin sjálfhverfu með því að setja fram þessa kenningu. Eflaust er til fullt af fólki sem hefur lært að elska ástarinnar vegna og skapa listarinnar vegna, en þar sem ég er (ennþá að minnsta kosti) á lægra plani, þá læt ég nægja að varpa fram þessari hlið á peningnum.
P.S. Ef ykkur finnst þetta áhugaverð lesning megið þið endilega læka, deila, eða kommenta. Plís, nærið egóið mitt, takk!
Athugasemdir