Ímynd Íslendinga hefur lengi byggt á ranghugmyndum, þar sem við reynum að sannfæra okkur sjálf og aðra um að Ísland sé best í heimi. Einu sinni reyndum við að selja heiminum þá ímynd að hér væru sterkustu mennirnir og fegurstu konurnar, ferskasta vatnið og langbesta lambakjötið. Í slíku andrúmslofti var lítið rými fyrir umræður um sterana sem drógu sterka menn til dauða, gjald karlmennskunnar og kynjamisréttið. Nei, við vorum frjáls og frjálslyndið var til sölu. Flugfélag auglýsti sóðalegar helgarferðir til Íslands og hingað komu gestir sem gáfu út leiðbeiningar um hvernig ætti að virða vilja kvenna að vettugi. Við áttum sjálf svona menn sem töldu sig yfir allt og alla hafna, menn sem stækkuðu sig á kostnað annarra, uppnefndu þá sem spenntu ekki vöðvana í takt við tónlistina, berir að ofan, raulandi sömu gömlu tuggurnar, nei þýðir já, en þurftu aldrei að bera neina ábyrgð á neinu, þar til allt í einu, veröldin var önnur.
Við vorum í jafnréttisparadís, áttum fyrsta kjörna kvenkyns þjóðarleiðtoga heims, konuna sem sneri út úr svo forneskjulegum ummælum karlanna, dró þá sundur og saman með háði svo þjóðin heillaðist og heimurinn með. Við áttum Kvennaframboðið, fegurðardrottningarnar í borgarstjórn og konurnar á þingi. Í ríkisstjórn voru konurnar meira að segja jafn margar og karlarnir í fáein fjögur ár. Við áttum aktívistana sem klæddust kuflum þegar þær gengu um götur borgarinnar til að segja frá því að hér verða konur og börn fyrir kynferðisofbeldi og við áttum druslurnar sem höfðu hátt. Seinna gátum við líka farið að tala um strákana sem verða fyrir kynferðisofbeldi og karlana sem er nauðgað. Það var hér sem konur lögðu niður störf á miðjum degi til þess að mótmæla kynbundnum launamun og fjölmenntu að Arnarhóli, og það var hér sem þær gerðu það aftur löngu löngu síðar – því misréttið var enn til staðar.
Við áttum ekki bara kvenforseta, við eignuðumst líka lesbískan forsætisráðherra og stærðum okkur af því, stolt af umburðarlyndi íslensku þjóðarinnar, sem umbar reyndar líka árlega umræðu um fjölda nauðgana um verslunarmannahelgina, eins og nauðganir væru órjúfanlegur hluti af skemmtanalífinu, einhvers konar fórnarkostnaður gleðinnar, eitthvað sem bara gerist og ekkert við því að gera. Þegar umræðan varð loksins þreytt, steig lögreglustjóri fram með lausnina: Hættum bara að tala um þetta.
Lögreglan felldi niður flestar kærur vegna kynferðisbrota og lögreglumennirnir sem fengu sjálfir á sig kærur ypptu öxlum og héldu áfram, þurftu aldrei að víkja úr starfi meðan mál þeirra voru rannsökuð, heldur mættu í útkall heim til brotaþola eða kærðu þá fyrir rangar sakargiftir, því fólk ætti jú oftar að líta í eigin barm og bera ábyrgð á sjálfu sér. Lögreglan er ekki frelsandi engill, minnti yfirmaður kynferðisbrotadeildarinnar okkur á. Það dugði ekki einu sinni til að maður játaði verknaðinn ef hann viðurkenndi ekki ásetninginn, enda þyrfti þá að byggja ansi stór fangelsi ef við ætluðum að telja öll svona atvik sem nauðganir, sagði ríkissaksóknari, sem felldi niður flest kynferðisbrotamálin sem rötuðu þó inn á borð til hans, vegna þess að hann gat ekki hugsað sér að lífi þessara drengja væri lokið eftir svona djamm. Fyrir dómi höfðu frásagnir þolenda lítið vægi, framburður fjölskyldunnar var afskrifaður, átta kærur á hendur einum manni dugðu jafnvel ekki til. Í Hæstarétti situr einsleitur hópur karla, þar er ekkert rými fyrir konur, annan reynsluheim.
Svo komst feminískur flokkur til valda og konan sem steig nú inn í forsætisráðuneytið er ein áhrifamesta kona heims í jafnréttismálum, sú sem lýsti því sem ranglæti að láta fólk bíða eftir réttlæti en stóð síðan þögul hjá þegar þær konur sem bera líf kvenna og barna á höndum sér kröfðust launaleiðréttingar. Jafnvel þótt kröfurnar væri ekki nema brot af þeirri hækkun sem þingmennirnir þáðu andmælalaust áður en þeir kröfðu ljósmæður kinnroðalaust um skýringar á hugmyndum sínum um launaleiðréttingu. Ljósmæðurnar sem hafa aldrei upplifað eins ljót samskipti og í samningaviðræðum við ríkið, þegar fæðandi konum var flogið út á land, í fullkominni óvissu um hvað yrði.
Á meðan við vorum upptekin af því að koma konum í valdastöður gleymdust þær sem þræla sér út á lágmarkslaunum, þær sem sinna vanmetnustu störfum í samfélaginu, hálfósýnilegar við að skúra skrifstofurnar, flaka fiskinn og hlúa að fólkinu okkar, börnum, öldruðum og sjúkum, en berjast við að koma eigin börnum á legg, fastar í fátæktargildrum. Fátækrahverfin sem einu sinni voru í bröggum eða verkamannabústöðum breyttust nú í tjaldbúðir og konurnar sem voru þar með börnin sín áttu að skammast sín, í góðærinu hér á Íslandi, landinu sem hlaut athygli umheimsins fyrir það hversu vel var staðið að málum eftir efnahagshrunið, bankamennina sem fóru í fangelsi og stunduðu þaðan viðskipti, stjórnarskrána sem var jörðuð á Alþingi og góðærið sem ferðamennirnir færðu okkur um leið og þeir gengu niður náttúruna, sem smám saman færðist í hendur manna sem lokuðu landinu af, svo nú munu börnin okkar ekki upplifa þá tilfinningu að landið sé okkar, að við eigum það saman, heldur er það þeirra og ef þú vilt skoða hellana og fossana þá skaltu borga.
Við vildum trúa því að á Íslandi væri jöfnuður en elítan býr í Garðabænum eða úti á Nesi. Hér eru tvær þjóðir, þeir sem eiga peningana, ríkasta tíu prósentið sem á þrjá fjórðu alls auðs á landinu, og hinir sem oftast verða undir. Verði þeir veikir skulu þeir borga fyrir þjónustuna, almennt meira hér en annars staðar á Norðurlöndunum, nógu mikið til að þeir allra fátækustu sleppa því frekar að sækja sér nauðsynlega þjónustu. Hér var reynt að leggja legugjöld á sjúka og ná þannig inn peningum. En peningar máttu hverfa úr ríkiskassanum þegar auðlegðarskatturinn var afnuminn, á sama tíma og fjöldi heimilislausra tvöfaldaðist og gámum var komið fyrir úti á Granda.
Hvað með það að hver rannsóknin á fætur annarri sýni að niðurskurðarstefnan sem ríkisfjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar byggir á valdi meiri skaða en ávinningi? Hvað með það að það þurfi öfluga grunnþjónustu og aukinn jöfnuð til að tryggja velsæld almennings og almenna hagsæld?
Hver var að hugsa um slík leiðindi, þegar við erum mesta bókmenntaþjóð í heimi? Við sem eigum handritin og göngum með þá hugmynd í maganum að í okkur öllum leynist örlítill listamaður. Sjáið bara verkfræðinginn sem sló í gegn sem glæpasagnahöfundur og lögfræðinginn hjá Gamma. Við sem eigum Björk og Kaleo. Gísla Örn og Nínu Dögg. Baltasar Kormák og Elísabetu, okkar fulltrúa í Óskarsakademíunni. Þessi örlitla þjóð, sem allt getur, nema kannski að hlúa að þeim sem þurfa mest á því að halda.
Við erum ekki bara bókmenntaþjóð – við erum líka fótboltaþjóð, sigruðum England á EM, komumst á HM og á meðan hjartað slær, á meðan við hrópum bara nógu hátt, köllum HÚ! á hverju horni og berjum á trommurnar, þá munu atvinnumennirnir spretta fram, sjáið bara til. Hinir áttu erfiðara uppdráttar, þeir sem ólust upp við fátækt og höfðu ekki efni á æfingagjöldunum eða takkaskóm, þá sem hefðu þurft stuðning í skólanum, jafnvel bara skilning á aðstæðum sínum, en voru deyfðir með lyfjum og komu síðan að geðdeild lokaðri þegar allt var í óefni komið, allir komnir í sumarfrí, engir peningar í kassanum. En það þarf geðveiki til að sjá ekki hvað það er gott að búa á Íslandi. Einhvern veginn virðist það stjórnmálamönnum mikilvægara að tala hærra, meira og yfir aðra, en að staldra aðeins við og hlusta, setja sig inn í aðstæður þeirra sem búa ekki við sömu forréttindi og þeir, reyna að skilja veruleika þeirra. Hvernig gætu þeir annars þegið hækkanir kjararáðs án þess að skammast sín þegar þeir vara við óstöðugleika og reyna að sannfæra almenna launþega um að hér sé ekkert svigrúm til launahækkana?
Ísland er okkar draumaland. Við teiknum upp alls konar myndir af samfélaginu sem við vildum vera, en eigum erfiðara með að standa gegn ranglæti. Það var ekki fyrr en forsætisráðherra hafði gert sig að athlægi heimsins sem við kröfðumst breytinga. En þegar við loksins mótmælum, þegar það er loksins hlustað og við sjáum fram á breytingar, kjósum við aftur yfir okkur óbreytt ástand. Af því að við leyfum þeim að komast upp með hræðsluáróður og selja okkur hugmyndir sem byggja ekki á staðreyndum. Við leyfum þeim að endurtaka sömu rangfærslur nógu oft þar til þær hljóma eins og sannleikur. Við sættum okkur við samfélag þar sem fjölmiðlar eru veikir og lögbann á umfjöllun um viðskipti þáverandi forsætisráðherra hefur varað í bráðum að verða ár, án þess að nokkuð hafi verið gert til þess að koma í veg fyrir að sýslumaður valsi inn á fleiri ritstjórnarskrifstofur fjölmiðla og þaggi líka niður í þeim. Við látum viðgangast að valdhafar velji sér fjölmiðla til tala við og hunsi fyrirspurnir þeirra sem þykja óþægilegir.
Eins og meðvirk fjölskylda látum við selja okkur hugmyndina að þeir séu valdið, af því að þeir eru við völd, eins og það séum ekki við sem höfum valið. Að það sé hættulegt að hleypa öðrum að, rangt að veita valdinu aðhald, að gagnrýni sé byggð á misskilningi, afbrýðisemi eða almennum leiðindum. Að við þurfum bara að sýna samstöðu og vera jákvæð, hætta þessari neikvæðni. Við horfum fram hjá því þegar þeir gera grín að þeim sem spyrja spurninga og lítið úr þeim sem hafa hátt. Enda eru til verri brot en þetta.
En þannig verður Ísland ekki betra, heldur með því að hætta að afneita því sem er að, byrja að taka gagnrýni alvarlega og bregðast við.
Athugasemdir