Fór á Mamma mia 2 í Ísafjarðarbíói fyrir skömmu. Ísafjarðarbíó er mitt gamla uppeldisbíó þar sem ég sá margar af bestu myndum kvikmyndasögunnar. Þar á meðal Abba – the Movie árið 1978. Ég varð yfir mig ástfanginn af Fridu og dreymdi mikinn ástardraum þá nóttina. Hann fjallaði um að Abba kæmu til Ísafjarðar og spiluðu tónleika á bílastæðinu fyrir utan Kaupfélagið. Eftir tónleikana kom Frida til mín og ástir kviknuðu á milli okkar. Ég var 10 ára gamall – en Fridu var alveg sama.
En þessum tilfinningum mínum í garð Abba – og Fridu – passaði ég mig á að halda leyndum fyrir öllum sem mig þekktu. Alltílagi að fara og sjá myndina, flestir vinir mínir gerðu það líka, enda ekki svo margar bíómyndir í boði á Ísafirði og farið var á flestar myndir sem ekki voru bannaðar börnum. En að viðurkenna að maður fílaði Abba þótti ekkert sérstaklega töff. Ári seinna sendi stóri bróðir minn mig í plötubúðina Eplið til að kaupa nýju Abba-plötuna, Voulez-Vous. Hann var orðinn táningur og gerði sér fulla grein fyrir því að það var púkó að kaupa Abba-plötu og þess vegna setti hann 11 ára gamlan bróður sinn í það skítadjobb. Lét mig hafa pening og sagði mér að skottast niður í Epli.
Ég fór í þessa sendiför eins og þjálfaður njósnari, beið eftir að allir viðskiptavinir færu úr búðinni og hvíslaði þá að búðarmanninum að lauma nýju Abba-plötunni í poka og segja ekki nokkrum manni frá. Feillinn var samt sá að hann átti ekkert annað en glæran poka. Þannig voru pokarnir hjá Eplinu – glærir en með smá hönnun sem á stóð Eplið. Ég lét mig hafa það og reyndi að ganga eins hratt neðan úr bænum og upp á Seljalandsveg og ég gat – en var þá stoppaður af mömmu vinar míns á Kaupfélagshorninu. „Sæll, Sigurjón. Er verið að kaupa Abba?“ Ég reyndi að snúa mér út úr þessu með kerskni, ranghvolfdi augunum og sagði eins og satt var: „Ég var að kaupa hana fyrir bróður minn“ og hristi hausinn til að gefa til kynna hversu vangefinn sá náungi var. En mamma vinar míns var ánægð með valið, enda sjálf einlægur Abba-aðdáandi.
„Samtök kótelettukalla og -kellinga sameinast um að elska Abba. Mamma mía-partí eru haldin í hjólhýsum úti um allt land. Ég læt ekki sjá mig.“
En síðar á ævinni átti ég eftir að éta þetta allt ofan í mig. Það leið reyndar ekki nema svona rétt tæpur áratugur þangað til ég var farinn að gera mig breiðan og segja öllum sem heyra vildu að Abba væri mín uppáhalds hljómsveit. Þetta þótti spes, þar sem ég var þá orðinn meðlimur í drungalegri rokkhljómsveit.
Og enn þann dag í dag held ég mikið upp á Abba. Ég hef farið í gegnum alls konar tímabil í tónlistarneyslu. Tekið Rolling Stones, Beach Boys, David Bowie, Bob Dylan, Hip hop, þungarokk, klórað mér í hökuskegginu yfir jazzi, keypt plötur með Steely Dan að ónefndum aragrúa af bandarísku og evrópsku pönki og annarri neðanjarðartónlist. En alltaf standa Abba þarna eins og klettur.
Og af hverju? Abba er alveg laus við að vera kúl. Það er ennþá beinlínis hallærislegt að fíla þessa hljómsveit – og hefur í raun orðið hallærislegra eftir því sem vinsældir Mamma mía verða meiri. Fyrst kom Mamma mía eitt og svo þessi blessaði söngleikur sem 70 prósent þjóðarinnar sá – ég var reyndar ekki einn af þeim, enda er ég kúl. Svo þessi mynd númer tvö. Algjör karaókí, Auto tune ópera þar sem engum dettur í hug að taka sig alvarlega. Biðröð úti á götu í öllum bíóum landsins. Samtök kótelettukalla og -kellinga sameinast um að elska Abba. Mamma mía-partí eru haldin í hjólhýsum úti um allt land. Ég læt ekki sjá mig.
En samt get ég ekki haldið öðru fram en þetta sé guðdómlegasta dægurtónlist sem samin hefur verið. Og kannski er það einmitt vegna þess að þeim Birni og Benny – mönnunum sem sömdu öll þessi Abba lög – var svo nákvæmlega sama hvort einhverjum fyndist þeir kúl eða ekki. Þeir vissu sjálfir að þeir voru ekki kúl og þá langaði bara hreint ekkert að verða kúl. Það eina sem komst að hjá þeim var að eyða sem mestum tíma í stúdíói eða í sumarbústaðnum sínum og semja öll þessi himnesku lög á meðan þeir horfðu yfir sænska skerjagarðinn.
Á meðan rokkspekingar hafa eytt gríðarlegu púðri í að fjalla um Dylan, Bowie, Stones og Bítlana hefur nánast engum dottið í hug að fjalla um Abba. Á meðan þúsundir bóka hafa verið skrifaðar um Bítlana hafa kannski fimm verið skrifaðar um Abba.
Það er kannski vegna þess að með Bítlunum fylgdi ákveðin menningarbylting sem fólk af ákveðinni kynslóð samsamaði sig með. Það varð til Bítlakynslóð. Aldrei hef ég hins vegar heyrt um unglinga sem fluttu að heiman og gáfu skít í foreldra sína vegna þess að þau fengu ekki að hlusta á Abba. Enga dulspekinga veit ég um sem reynt hafa að rýna í texta Abba í von um að finna spádóma um heimsendi eða eitthvað slíkt. Það var ekkert rugl á Abba. Agneta fór ekkert í dópið eða neitt svoleiðis. Benny var ekkert á sýru eða í heróíni. Björn átti ekki við geðræn vandamál að stríða. Þau voru bara mjög venjulegir Svíar sem giftust hvert öðru og eignuðust börn. Ef þau hefðu verið Íslendingar hefðu þau byggt sér hvort sitt húsið í Árbænum. Dimmasta tímabil Abba var þegar þau síðan skildu. Þá fóru þeirra tvær síðustu plötur í að gera það aðeins upp með lögum eins og The Winner Takes it all og When all is said and done.
Svo hættu þau bara. Ekkert vesen. Þetta var bara komið. Skildu eftir sig ótrúlegt magn af gæðastöffi sem hefur síðan verið notað til að búa til Mamma mía-söngleiki. Abba fylgir engum tíðaranda. Abba snýst um tilfinningaskalann allan. Abba er næsti bær við tilfinningafyllerí. Það getur nánast verið hættulegt að taka Abba í of stórum skömmtum ef menn vilja ekki enda uppi með tilfinninga-timburmenn.
Og þess vegna mun Abba lifa Bítlana. Það verður hlustað á Abba eftir mörg hundruð ár þegar allir verða búnir að steingleyma Bítlunum. Nostalgía deyr út. En ekki tifinningar.
Athugasemdir