Sigríður Andersen dómsmálaráðherra segir að haturorðræða áhrifamanna gegn einstökum hópum fólks þekkist ekki á Íslandi. Hún leyfir sér að vona að það sé „vegna þess að Íslendingar eru almennt vel upp aldir í góðum siðum og náungakærleik, vel upplýstir og umburðarlyndir“.
Þetta kemur fram í pistli eftir ráðherra sem birtist í Fréttablaðinu í morgun. Þar gerir hún að umtalsefni að nýlega hafi „ímam (klerkur múslima) nokkur í Danmörku“ verið ákærður fyrir að hvetja til morða á gyðingum í predikun. Ráðherra fagnar því að sambærileg mál hafi ekki komið upp á Íslandi og lýsir áhyggjum af vaxandi gyðingahatri í Evrópu.
„Hatur á einstökum hópum manna, sem endurspeglast í máli áhrifavalds eins og því sem nú verður ákært fyrir í Danmörku, þekkjum við ekki hér á landi og skulum aldrei kynnast,“ skrifar Sigríður Andersen sem telur að ástæðan sé gott uppeldi Íslendinga og gildi sem þjóðin standi vörð um. Þó sé þjóðin oft stóryrt í netheimum.
Athugasemdir