Hildur Knútsdóttir, rithöfundur og fyrrverandi varaþingkona Vinstri grænna sem skipaði áttunda sæti á framboðslista flokksins í Reykjavíkurkjördæmi norður fyrir síðustu þingkosningar, er hætt í flokknum.
„Ég get ekki verið í flokki sem situr í ríkisstjórn sem semur ekki við ljósmæður og býður alræmdum rasista á hátíðlegustu athafnirnar,“ skrifar Hildur á Facebook. „Það er fullt af frábæru fólki í VG með hjartað á réttum stað, en ég vil ekki vera þar lengur.“
VG hefur sætt harðri gagnrýni vegna stjórnarsamstarfsins við Sjálfstæðisflokkinn og Framsóknarflokkinn undanfarna mánuði.
Loka þurfti meðgöngu- og sængurlegudeild Landspítalans nú í vikunni vegna ljósmæðradeilunnar auk þess sem fljúga hefur þurft þunguðum konum norður á land vegna álags á spítalanum í Reykjavík.
Undanfarna daga hefur mikið mætt á Steingrími J. Sigfússon, þingforseta og fyrrverandi formanni Vinstri grænna vegna þeirrar ákvörðunar forsætisnefndar Alþingis að bjóða Piu Kjærsgaard, þingforseta Dana sem er þekkt fyrir útlendingaandúð og harða innflytjendastefnu, að halda hátíðarræðu á afmælishátíð fullveldis Íslendinga.
Ísland hafi varðveitt „upphaflega sjálfsmynd norrænna manna“
Í ræðu sinni á Þingvöllum talaði Pia Kjærsgaard um Ísland sem „vöggu norrænnar menningar“ og sagði Dani hafa litið svo á að Ísland væri „það land þar sem hin upphaflega sjálfsmynd norrænna manna var varðveitt.“ Þá vék hún að því hvernig sjálfstæðisbarátta Íslendinga á 19. öld hefði átt þátt í að „kynda undir danskri þjóðerniskennd sem þá var í blóma“.
Steingrímur J. Sigfússon hefur harmað þá ákvörðun Pírata að sniðganga hátíðarfundinn og varið af hörku þá ákvörðun að bjóða Piu að halda hátíðarræðu á Þingvöllum. Nokkrir Íslendingar af erlendum uppruna hafa lýst því hvernig valið fór fyrir brjóstið á sér.
„Þið megið skammast ykkar margfalt. Þetta er ekki bara móðgun við alla krakkana af erlendum uppruna sem munu ekki kjósa ykkur aftur heldur móðgun við íslensku þjóðina í heild sinni,“ skrifaði Unnsteinn Manuel Stefánsson tónlistarmaður á Facebook. Sanna Magdalena Mörtudóttir, borgarfulltrúi Sósíalistaflokksins, er sama sinnis. „Það er dónaskapur og hreint út sagt óvirðing við alla þá fjölbreyttu einstaklinga, sem hér búa á þessu landi, að fagna undirritun sambandslagasáttmálans sem síðar leiddi til fullveldis Íslands, með því að gefa öfgaþjóðernissinna orðið, rými og auka vægi,“ skrifar hún.
Athugasemdir