Fyrir þá sem hafa haft nasasjón af átökum um kjaramál er deila ljósmæðra og ríkisins ráðgáta. Sagt er að himinn og haf beri á á milli aðila, kostaboð ganga á milli en að lokum er rauða spjaldið alltaf dregið upp og leikmenn settir á byrjunarreit. Mikið er sagt í húfi. Velferð nýbura og mæðra og sjálfur stöðugleikinn. En sáttasemjari er sáttur við sig og boðar til funda á lögboðnum hámarksfresti. Öðru vísi mér áður brá þegar samningamenn voru skikkaðir og jafnvel sóttir óviljugir um skipsborð til að sitja sáttafundi.
Ljósmæður í starfi munu vera um 150-200 talsins. Það mun vera 3-4% af mannafla við heilbrigðisþjónustu í landinu, um 0,3% af starfsmönnum hins opinbera og um 0,1%, eitt promill, af öllum störfum í landinu. Lítil þúfa getur velt stóru hlassi en til þess þarf klaufalegan akstur.
Ágreiningur af svipuðu tilefni og nú, þegar kröfur um menntun eða aðrar forsendur starfa breytaast og raska viðmiðunum innan starfstétta eða milli þeirra, er ekki nýmæli. Má nefna þróun í starfs- og menntunarkröfum kennara, leikskólakennara, hjúkrunarfræðinga og fleiri stétta og starfshópa opinberra starfsmanna. Þær breytingar tóku á við gerð kjarasamninga en jafnan tókst að finna lausn og brúa bilið með góðum vilja og vinnu þeirra sem áttu hlut að máli. Lausnin gat verið fólgin í því að sameinast um byrjun á samræmingarferli og fela síðan starfshópi aðila e.t.v. með faglegri aðkomu vinnustaðar og/eða stéttabandalaga að vinna sig að raunhæfri lausn til lengri tíma.
Kannske hefur svona nálgun verið reynd. Kannske eru samninganefndirnar ekki jafnforpokaðar og staðnaðar í frösum eins og ætla má af fréttaflutningi. Getur það þá verið ásetningur ljósmæðra að setja allt á hausinn eða eru þær vantrúaðar á þá speki að þeirra sé mátturinn og dýrðin? Getur það verið að samningaanefnd ríkisins og fjármálaráðherra trúi því sem þeir boða eða er þeim bara í mun að hnykla vöðvana og þóknast þeim sem anda ofan í hálsmál þeirra og þykjast jafnan best fallnir til að ráða ferðinni?
Vonandi fæst svar við þessum spurningum á næstunni. Allavega heyrði ég í þessu að sáttasemjari hefði frétt af alvarlegu ástandi í málunum og hefði boðað til sáttafundar. Vonandi átta menn sig á því að lítil þúfa er ekki fjall.
Athugasemdir