Forseti Alþingis harmar að heimsókn Piu Kjærsgaard, þingforseta Dana „hafi verið notuð til að varpa skugga á hátíðarhöldin“ í gær. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Steingrími J. Sigfússyni, forseta Alþingis, sem birtist á þingvefnum rétt í þessu.
Pia Kjærsgaard greindi sjálf frá því áðan í viðtali við Politiken að von væri á tilkynningu frá þingforseta Alþingis með þessum skilaboðum.
Í tilkynningunni segist Steingrímur leyfa sér að trúa því að það sé minnihlutasjónarmið að viðeigandi sé að „sýna danska þingforsetanum óvirðingu þegar hann sækir okkur heim og kemur fram fyrir hönd danska Þjóðþingsins og dönsku þjóðarinnar“.
Steingrímur bendir á að hann hafi um nokkurra mánaða skeið undirbúið þingfundinn á Þingvöllum og rætt undirbúninginn jöfnum höndum við forsætisnefnd og formenn þingflokkanna. „Sjálfsagt þótti frá byrjun, í ljósi tilefnisins, að forseti danska þingsins yrði í sérstöku hlutverki á þessum hátíðarfundi. Danska þingforsetanum var því boðið til landsins sem fulltrúa gagnaðila að fullveldissamningunum,“ skrifar hann.
Jón Þór Ólafsson, fulltrúi Pírata í forsætisnefnd Alþingis, hefur hins vegar gagnrýnt Steingrím fyrir að hafa ekki talað um komu Piu Kjærsgaard á fundum nefndarinnar fyrr en í fyrradag. „Ég hef í dag leitað í öllum fundargerðum Forsætisnefndar Alþingis frá áramótum og Steingrímur J. sem forseti Alþingis virðist ekki hafa séð ástæðu til að upplýsa fulltrúa flokkanna í forsætisnefnd fyrr en í gær, degi fyrir hátíðarþingfundinn á Þingvöllum,“ skrifar Jón Þór.
Athugasemdir