„Við eigum að fagna þeirri mikilvægu fjölbreytni sem gerir þjóðina ríkari og tryggja að við öll sem hér búum saman höfum hvert um sig sterka rödd í samfélagi okkar, óháð uppruna, óháð trúarbrögðum. Við eigum aldrei að leyfa hatursorðræðu að verða lögmæt í okkar samfélagi.“
Þetta sagði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra í hátíðarræðu sinni á Þingvöllum í dag. Hátíðardagskráin fór fram í skugga harðvítugra deilna um ræðuhöld og veru Piu Kjærsgaard á fundinum, þingforseta Dana sem er þekkt fyrir útlendingaandúð og boðun harðrar innflytjendastefnu. Kusu Píratar að sniðganga fundinn og sögðu þjóðina eiga „betra skilið en að gælt sé við öfgaþjóðernishyggju í hennar nafni“. Helga Vala Helgadóttir, þingkona Samfylkingarinnar, gekk út meðan Pia Kjærsgaard flutti ræðu sína.
Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, setti fundinn og þakkaði Piu Kjærsgaard sérstaklega fyrir að heiðra þingheim með nærveru sinni. „Það er [...] Alþingi mikill heiður að hafa hér með okkur í dag forseta danska þjóðþingsins. Það er okkur líka mikil ánægja að þingforsetar fjölmargra annarra vinalanda og aðrir erlendir gestir heiðra okkur með nærveru sinni á þessum hátíðisdegi. Fyrir þann virðingar- og vináttuvott færi ég þeim þakkir Alþingis,“ sagði Steingrímur.
Katrín sagði í hátíðarræðu sinni að gildin sem Íslendingar höfðu að leiðarljósi fyrir 100 árum væru enn í dag þungvæg þótt samfélagið hefði breyst. „Um leið og við tökumst saman á við þá áskorun að efla íslenska tungu í gjörbreyttum heimi fögnum við því að á Íslandi eru núna töluð svo miklu fleiri tungumál en fyrir 100 árum,“ sagði hún.
„Landið hefur einnig tekið miklum breytingum, ekki síst fyrir gjörðir okkar mannanna. Þar stöndum við á tímamótum, þar hvílir sú skylda á okkur að vernda þá ósnortnu náttúru og víðerni sem við eigum og eru orðin sjaldgæf verðmæti í heimi sem er orðinn mun manngerðari en fyrir 100 árum.“
Katrín sagði að samfélög ættu ekki síst að vera mæld eftir því hvernig þau koma fram við börn og hvernig þau tryggja að öll börn fái tækifæri til að þroska hæfileika sína þannig að þau nái að dafna og fylgja draumum sínum eftir. „Þannig tryggjum við gott samfélag, þannig tryggjum við jafnaðarsamfélag,“ sagði hún.
Athugasemdir