Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, gagnrýnir Pírata vegna þeirrar ákvörðunar þingflokksins að sniðganga hátíðarfundinn á Þingvöllum í dag. Með þessu vilja Píratar mótmæla því að Piu Kjærsgaard, þingforseta Dana og fyrrverandi formanni Danska Þjóðarflokksins, hafi verið boðið að ávarpa Alþingi á aldarafmæli fullveldis Íslendinga.
„Pírata sýna lítilsvirðingu sína á lýðræðinu og skoðunum fólks en mest er skömm þeirra við þjóðina að mæta ekki á þingfund á Þingvöllum á merkum tímamótum í sögu sjálfstæðisbaráttu Íslendinga,“ skrifar Ásmundur á Facebook.

Eins og Stundin fjallaði um í gær er Pia þekkt fyrir útlendingaandúð og baráttu sína gegn fjölmenningu og íslam. Árið 2010 kallaði hún eftir því að stjórnvöld bönnuðu innflytjendum sem ekki væru af vestrænum uppruna að setjast að í Danmörku. Auk þess hefur hún hvatt til þess að gervihnattaloftnet í hverfum innflytjenda verði bönnuð og að öllum innflytjendum sem gerst hefðu brotlegir við dönsk lög verði vísað úr landi.
„Að utanþingsmanni sem hefur unnið jafn ötullega að því að ala á sundrungu, útlendingahatri og Pia Kjærsgaard hefur gert sé boðið heiðursávarp á hátíðarfundi sem sameina ætti okkur Íslendinga, burtséð frá trú okkar og uppruna er hneyksli,“ segir í tilkynningu sem þingflokkur Píratasendi frá sér um hádegisleytið í dag.
Ásmundur telur ákvörðun Pírata fela í sér lítilsvirðingu við lýðræðið og skoðanir Piu Kjærsgaard. Sjálfur hefur Ásmundur margsinnis verið gagnrýndur fyrir fordómafull ummæli um útlendinga og múslima.
Athugasemdir