Lilja Alfreðsdóttir settur ráðherra ætlar að skipa Bergþóru Þorkelsdóttur, menntaðan dýralækni með víðtæka stjórnendareynslu úr atvinnulífinu, í embætti forstjóra Vegagerðarinnar frá og með 1. ágúst næstkomandi samkvæmt heimildum Stundarinnar. Tilkynnt verður um skipunina á næstu dögum.

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, sagði sig frá málinu vegna tengsla við umsækjanda og var veitingarvaldið fært til Lilju, mennta- og menningarmálaráðherra og flokkssystur Sigurðar.
Lilja tók ákvörðun um skipunina að undangengnu ráðningarferli þar sem ráðgefandi nefnd mat hæfni umsækjenda, en á meðal annarra sem sóttu um voru verkfræðingar með langa starfsreynslu frá Vegagerðinni. Ferlið gekk ekki áfallalaust fyrir sig, en í upphafi gleymdist að auglýsa starfið í Lögbirtingarblaðinu og var því umsóknarfresturinn framlengdur um tvær vikur. Jókst þá fjöldi umsækjenda úr 15 í 25.
Bergþóra stundaði nám í markaðsfræðum við Chartered Institute of Marketing í Bretlandi og nam rekstrar- og viðskiptafræði við Háskóla Íslands. Áður lauk hún kandídatsprófi í dýralækningum, en hún fékk lækningaleyfi árið 1991, tveimur árum á eftir Sigurði Inga Jóhannssyni ráðherra sem einnig er dýralæknir og var við nám í Kaupmannahöfn á sama tíma og Bergþóra og maðurinn hennar.
Bergþóra hefur starfað sem forstjóri ÍSAM ehf, framkvæmdastjóri Líflands og Kornax og hjá Fastus. Hún hefur setið í stjórn Samtaka iðnaðarins og fulltrúaráði Samtaka atvinnulífsins og nýlega tók hún sæti í stjórn Viðskiptaráðs Íslands.
Athugasemdir