Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu heimilar ekki foreldrum að hafa lögmenn viðstadda í lögbundinni sáttameðferð hjá embættinu nema báðir aðilar samþykki slíkt. Dæmi eru um að sýslumannsfulltrúi vísi lögmanni á dyr ef slíkt samþykki fæst ekki hjá hinu foreldrinu.
Lögmannafélag Íslands ákvað nýlega að óska eftir skýringum frá sýslumannsembættinu á þessu verklagi. Tilefnið er erindi sem barst frá lögmanni þann 16. maí síðastliðinn, en þar er greint frá því hvernig lögmaðurinn hefur í störfum sínum orðið vitni að því að verklagið leiði til alvarlegs réttindamissis fyrir skjólstæðinga sína; þeir hafi hreinlega samið frá sér mikilvæg réttindi á sáttafundum hjá sýslumanni án þess að átta sig á því og án þess að þeim væri gerð skýr grein fyrir því.
Öryrki án lögmanns samdi frá sér réttindi
Hún tekur dæmi af starfsmanni í banka sem er sagður hafa fengið sínu framgengt gagnvart barnsmóður í veikri stöðu. Konan hafi undirgengist samning um lögheimilisbreytingu á sérkennilegum forsendum á fundi með manninum og sýslumannsfulltrúa. Atburðarásinni er lýst með eftirfarandi hætti í erindinu til Lögmannafélagsins:
Nýlegt dæmi um þetta var sáttafundur milli foreldra sem lauk með því að skjólstæðingur minn, í þessu tilviki móðir, undirritaði samning um breytingu á lögheimili barns þar sem lögheimili var fært til föður. Á sama tíma stóðu aðilar í umgengnisdeilu þar sem skjólstæðingur minn hafði ekki fengið að hitta dóttur sína svo mánuðum skipti, en hún hafði flutt til föður. Sýslumannsfulltrúinn ásamt föður beitti móður þrýstingi til að samþykkja lögheimilisbreytingu, með þeim fortölum að það myndi auka líkurnar á að móðir fengi að hitta dóttur sína á ný.
Í samningnum kemur fram sú meginforsenda móður fyrir samningagerðinni að faðir myndi ekki innheimta meðlag á hendur móður. Með miklum semingi og eingöngu í þeim tilgangi að auka líkur á að fá að hitta dóttur sína undirritaði umbj. minn samninginn. Skemmst er frá því að segja að á þessum tíma var móðir öryrki með u.þ.b. 200.000 kr. mánaðartekjur á meðan faður var í góðri stöðu hjá banka með 1.200.000 kr. mánaðarlaun.
Viku eftir að samningur þessi var gerður hjá sýslumanni fór faðir til Tryggingastofnunar og innheimti meðlag úr hendi móður. Enda eru greiðslur meðlags lögbundnar og ekki hægt að semja sig frá slíku. Móðir, sem áður hafði notið réttar til tvöfalds meðlags með dóttur sinni úr hendi föður, missti meðlagið, missti barnabætur og önnur réttindi sem eru bundin við lögheimilisforeldri. Þá hafði samningurinn engin áhrif á þær umgengnistálmanir sem voru fyrir hendi.
Þarna var skjólstæðingur minn beittur órétti og gerður samningur sem var ólögmætur að efni til. Að hugsuðu máli tel ég mér skylt að gera lögmannafélaginu viðvart því þetta virðist ekki vera einstakur atburður.
Sýslumaður telur sig óbundinn
af stjórnsýslulögum í sáttameðferð
Eins og Stundin greindi frá þann 12. júní síðastliðinn telur sýslumaður sig ekki bundinn af stjórnsýslulögum við framkvæmd sáttameðferðar í fjölskyldumálum. Þetta er afstaða embættisins þrátt fyrir að slík sáttameðferð sé lögbundið ferli og skyldubundið hlutverk sýslumanns samkvæmt barnalögum.
Í 71. gr. barnalaga, í kafla um meðferð og úrlausn stjórnvalda á málum samkvæmt lögunum, segir orðrétt: Að því leyti sem ekki er kveðið á um annað í lögum þessum fer um meðferð máls samkvæmt stjórnsýslulögum. Þótt ekki sé tekið fram í 33. gr. um sáttameðferð að slík mál séu undanþegin gildissviði stjórnsýslulaga telur sýslumaður að svo sé.
Umboðsmaður Alþingis sendi dómsmálaráðherra nýlega fyrirspurnarbréf vegna málsins og spurði hvort ráðuneytið ætlaði að „grípa til einhverra viðbragða gagnvart sýslumanni“. Var Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra beðin um að svara bréfinu eigi síðar en 20. júní en hún óskaði eftir fresti til 16. ágúst.
Vísaði lögmanni á dyr með vísan til óskráðra reglna
Í áðurnefndu erindi lögmanns til Lögmannafélagsins er einnig vísað til annars máls en því sem nefnt var í upphafi. Fram kemur að þann 16. maí síðastliðinn hafi lögmaðurinn mætt á sáttafund ásamt skjólstæðingi sem var haldinn vegna beiðni um breytingu á forsjá.
Þegar gagnaðili samþykkti ekki að undirrituð væri viðstödd reyndi fulltrúi sýslumanns að vísa mér út af fundinum. Vegna fyrri reynslu neitaði ég að víkja af fundinum og óskaði eftir rökstuðningi sýslumanns fyrir því, að hann teldi sér heimilt að svipta umbj. minn rétti til að njóta liðsinnis lögmanns við umræddar samningaviðræður.
Svör sýslumannsins, eftir að yfirmaður fjölskyldudeildar var kallaður til, voru þau að um ,,vinnureglur“ væri að ræða hjá embættinu. Þegar undirrituð óskaði eftir því að fá afrit af umræddum ,,vinnureglum“ og rökstuðning fyrir því á hvaða lagagrundvelli slíkar reglur væru settar, var því svarað með hroka og skætingi. Reglur um þetta eru hvorki að finna í lögum né í reglum innanríkisráðuneytisins um ráðgjöf og sáttameðferð skv. 33. gr. a., frá 14. febrúar 2013. Afleiðing þessa varð sú að enginn sáttafundur fór fram.
Lögmaðurinn kallar eftir því að Lögmannafélagið beiti sér og tryggi að réttarspjöll af þessu tagi eigi sér ekki stað og fólk fái að njóta lögmannsaðstoðar í sáttameðferð hjá sýslumanni. Hún telur ótækt að opinbert embætti, sem fer með opinbert vald til að taka ákvarðanir sem varða réttindi og skyldur manna, leyfi sér að svipta aðila máls rétti til að njóta aðstoðar lögmanns. „Kemur slíkt hreinlega í veg fyrir að lögmenn fái að rækta lagalegar, siðferðislegar og faglegar skyldur sínar gagnvart skjólstæðingum, sbr. 1. og 8. gr. siðareglna lögmanna.“ Erindið var tekið fyrir á stjórnarfundi Lögmannafélagsins sem ákvað að óska eftir skýringum frá sýslumanni.
Athugasemdir