Í gær var alþjóðlegur dagur fólks á flótta. Mig langar að segja svo margt. Langar að minnast á tölur en samt ekki. Við erum alltaf að tala um tölur. Þessar tölur eru fólk. Fólk sem heitir eitthvað, elskar einhvern, á sér uppáhalds lit og bæði hlær og grætur á sama tungumáli og við. Við ættum auðvitað öll að vita að aldrei hafa verið fleiri manneskjur verið á flótta. Ef ekki, þá vitið þið það núna.
Fyrir þremur árum stóð ég syndilega og óvænt á grískri strönd og hélt utan um óhuggandi konu sem ég þekkti ekki neitt. Hún var að flýja stríð en ég var enn að reyna að skilja hvert mitt hlutverk væri þarna. Skammt frá voru börn og foreldrar í búrum. Steinsnar frá drukknuðu börn, stundum fyrir framan nefið á okkur. Þarna hafði verið reistur múr á hafi úti, ósýnilegur veggur sem átti að halda fólki í hæfilegri fjarlægð. Pólitísk skipun að ofan.
Á þessum tíma var Donald Trump bara bandarískur auðkýfingur sem fæstir bjuggust við að færi nokkrum árum síðar að loka börn inni í búrum í krafti forsetavalds síns. En öflin sem styrktust þegar við þurftum síst á að halda bjuggu til rými fyrir skrímslið sem nú læsir börn inni í búrum. Hann er reyndar búin að segjast ætla að hætta því, en hvað þýða slík fyrirheit úr hans munni? Kemst nú á friður? Fellur allt í ljúfa löð hjá börnunum sem eru ófær um að tjá sig af skelfingu vegna áfallsins sem hann hefur valdið þeim? Hverfur rasisminn af yfirborði jarðar og verður hluti af sögunni, svona eins og síðast? Muniði? Þegar milljónir einstaklinga voru kerfisbundið afmanneskjuvædd og þeim svo tortímt af valdhöfum?
Ég er ekki hér í dag vegna þess að Donald Trump er illmenni. Hann kemur í mínum huga málinu sáralítið við. Ofbeldið sem hann ber ábyrgð á gagnvart litlum börnum og fjölskyldum þeirra er viðbjóðslegt. Skaðinn og áfallið sem hann hefur valdið börnunum og fjölskyldum þeirra er óverjandi með öllu. Níðingsskapur gegn börnum dulbúinn sem pólitík er glæpur gegn öllum börnum og mikil er ábyrgð Trump. En hann gerði þetta ekki einn.
Hver ber ábyrgð á Trump? Hann er bara maður sem gefur skipanir. Hættan sem okkur er búin felst í að fólk framfylgir skipunum hans. Hann hefur völd vegna þess að milljónir einstaklinga um allan heim eru framlenging á valdi hans. Vegna þess að valdhafar annarra ríkja óttast hann. Vegna þess að við ráðumst ekki að rótum vandans heima fyrir – heldur bendum út í heim á illsku sem á sér að margra mati engar hliðstæður. En er það rétt?
Ég veit ekki betur en að um alla Evrópu sé börnum refsað fyrir að vera á flótta. Þau búa mörg við óboðlegar aðstæðtur. Eru flutt úr landi í skjóli nætur af einkennisklæddu fólki sem er bara að framfylgja ákvörðunum valdsins.
Ég veit ekki betur en að um alla Evrópu séu fjölskyldur sundraðar vegna landamæra sem gefin var skipun um að verja skyldi með öllum tiltækum ráðum fyrir ágangi óviðkomandi fólks, hvort sem það leitar verndar eða nýrra tækifæra.
Ég veit ekki betur en að börn séu í höndum þrælahaldara í Lýbíu, Tyrklandi og víða um Evrópu. Sum þeirra eru gerð út af kynferðisafbrotamönnum sem selja þau öðrum slíkum. Önnur sauma ódýr föt sem við getum svo keypt á frábæru verði í Kringlunni. Sum þeirra verða líffærasölumönnum að bráð.
Ég veit ekki betur en að börn víða um heim séu læst inni í búrum á vegum stjórnvalda. Mig minnir líka að ungur drengur, sem vafi lék á um hvort væri barn eða ekki, hafi verið læstur inni í búri á Litla-Hrauni fyrir ekki svo löngu síðan. Þar var hann barinn til óbóta af fullorðnum karlmönnum sem áttu raunverulegt erindi bak við lás og slá. Hann var bara að leita skjóls.
Og svo eru það elsku börnin í bandarísku búrunum. Nístandi sársaukaveinin eru óbærileg. Tilhugsunin um að heilt þjóðþing hafi lagt blessun sína yfir þessa meðferð á börnum er óbærileg.
Öll þessi dæmi og fleiri til eiga sér sömu rætur. Afmanneskjuvæðing fólks á flótta minnir á annað tímabil í sögunni sem mörg okkar geta varla nefnt á nafn. Við kennum Hitler um hvernig þá fór, en rétt eins og Trump nú, þá var hann ekki einn að verki. Hann naut stuðnings allra þeirra sem framfylgdu ákvörðunum hans. Án þeirra hefði engin helför orðið. Án þeirra væru engin börn í búrum.
Trump er ekki sjálft meinið heldur svæsið einkenni þess. Okkur mun fyrst takast að vinna bug á meininu þegar hugmyndir hans hafa verið teknar úr umferð. Til þesss þarf öflugan sýklalyfjakúr fyrir valdakerfi heimsins.
Langtímalausnin er breyting á valdakerfunum. Að við umboðinu taki fólk sem skilur og veit hvað er rétt að gera. Sem ber virðingu fyrir mannkyninu öllu og jörðinni sem við búum á. Slíka breytingu þurfum við að knýja fram, því hver á annars að gera það? Það má aldrei gleymast að ástæður þess að fólk er á flótta eru í nær öllum tilfellum ákvarðanir fólks með völd. Pólitík. Valdhafar sem ákveða að ráðast á önnur lönd í formi hernaðar og umhverfisspjalla.
Valdhafar sem sem flokka mennsku fólks eftir húðlit, kynvitund, trúarbrögðum, fötlun, uppruna, kynhneigð. Fólk sem telur sig æðra mannkyninu öllu. Sem arðræna og þverbrjóta réttindi alls og allra sem á vegi þeirra verða.
Valdhafar sem telja okkur trú um að fólk á flótta sé annars flokks fólk sem á skilið illa meðferð og skert réttindi. Sem á skilið að vera í búrum og getur sjálfu sér um kennt að hafa þvlæst inn á „okkar svæði“.
Valdhafar sem bregðast seint, illa eða ekki við afleiðingum ofantaldra ákvarðana. Líta undan og skella í lás. Þvinga þannig börn um borð í gúmmíbáta og setja þau í búr.
Það er í okkar höndum að halda slíkum öflum frá valdataumunum. Taka þá frekar sjálf og vanda okkur sem mest við megum við að græða sárin sem þau hafa valdið. Ef við setjum ekki önnur viðmið, göngum lengra en nokkur trúði að væri hægt – hver á þá að gera það? Fólkið sem gengur lengra í illvirkjum en við héldum að væri hægt?
Það er ekkert til sem heitir of mikil mannúð. Það er ekkert til sem heitir of mikill skilningur. Það er ekkert til sem heitir of mikil samkennd. En bara snefill af illsku er of stór skammtur. Að setja eitt barn í búr eru öfgar sem ræna mannkynið allt æskunni.
Við erum lítil þjóð en búum í risastóru landi. Hér er pláss – bæði í hjörtum okkar og heimkynnum. Við þurfum vissulega að fordæma illa meðferð á börnum, en fyrst og fremst þurfum við að grípa til aðgerða. Sýna heiminum hvernig á að koma fram við börn sem leita öryggis, í stað þess að mótmæla þegar allt er komið í óefni.
Ef ekki við, hver þá?
Athugasemdir