Tvær greinar sem birtar eru í Morgunblaðinu í dag sýna hvernig stórum útgerðarfyrirtækjum er hyglað í umfjöllunum blaðsins. Stærstu hluthafar Morgunblaðsins eru nokkrar af stærstu útgerðum Íslands: Ísfélag Vestmanneyja, FISK Seafood, Hraðfrystihúsið Gunnvör og þar til nýlega, Samherji, en það félag seldi hlutabréf sín í Mogganum til Eyþórs Arnalds, kaupsýslumanns og borgarstjóraefnis Sjálfstæðisflokksins, í fyrra. Þegar Morgunblaðið var keypt af Íslandsbanka fyrir að verða tíu árum síðan sagði útgefandi blaðsins, Óskar Magnússon, að eigendur nýju hefðu markmið með kaupunum: Að berjast gegn inngöngu Íslands í Evrópusambandið - slíkt þjónar hagsmunum útgerðarfyrirtækja - og að berjast gegn breytingum á kvótakerfinu. Blaðið hefur æ síðan beitt sér í umræðunni gegn veiðigjöldum og birt margar fréttir þar sem slæm áhrif veiðigjalda á útgerðir eru dregin fram.
Litla útgerðarfélagið býr við annan veruleika en stórútgerðin
Í leiðara í Morgunblaðinu í dag er fjallað um veiðigjöldin en fyrir Alþingi lá frumvarp þess efnis um að lækka þessi gjöld, meðal annars vegna hás gengis íslensku krónunnar, en ekki náðist að afgreiða frumvarpið á þinginu fyrir þinglok.
Í fréttinni er sögð sagan af litlu útgerðarfyrirtæki á Suðureyri, Íslandssögu, sem þurfti að segja upp 10 starfsmönnum um síðustu mánaðamót út af því að veiðigjöldin eru að sliga fyrirtækið, samkvæmt blaðinu. Þetta er svona „eftir að þessi ofurháu veiðigjöld komu til sögunnar“ er haft eftir framkvæmdastjóra fyrirtækisins. Þannig er tekið eitt dæmi af smáútgerð á Vestfjörðum og það notað til að sýna hvernig veiðigjöldin eru að sliga íslenska útgerð sem slíka. „Þetta er aðeins eitt dæmi af mörgum um afleiðingar allt of hárra og hækkandi veiðigjalda,“ segir í leiðaranum sem gera má ráð fyrir að annað hvort Davíð Oddsson eða Haraldur Johannessen hafi skrifað.
Aukning á eigin fé: 300 milljarðar
Veiðigjöld geta, eðlilega, komið sérstaklega illa við litlar útgerðir sem er ekki eins fjársterkar og stærri útgerðir sem hafa notið þess góðæris sem verið hefur í íslenskum sjávarútvegi síðastliðin ár. Litlar útgerðir eiga grynnri fjárhirslur en þær stóru, meðal annars hluthafar Morgunblaðsins. Hluthafar Morgunblaðsins vilja hins vegar ekki heldur greiða veiðigjöld, eða að minnsta vilja þeir greiða eins lág veiðigjöld og þeir geta.
Eins og Stundin fjallaði um í október í fyrra námu heildarveiðigjöld allra íslenskra útgerðarfyrirtækja 6,9 milljörðum króna fiskveiðiárið 2015/2015.
Árið 2017 greiddu 20 stærstu útgerðir Íslands út arð og juku eiginfjárstöðu sína um nærri tífalda þá upphæð eða um rúmlega 60 milljarða króna. Margar af þessum útgerðum voru og eða eru eigendur Morgunblaðsins. HB Grandi greiddi meðal annars út rúmlega 2,6 milljarða króna arð, Samherji 1,1 milljarða og Ísfélag Vestmannaeyja 1,6 milljarða. Hækkun eiginfjárstöðu Samherja jókst um rúmlega 12 milljarða á milli ára. Samanlagður hagnaður þessara útgerða nama rúmlega 42 milljörðum króna árið 2016, arðgreiðslurnar út úr fyrirtækjunum námu 9,8 milljörðum og hækkun eiginfjárstöðu þeirra nam 50 milljörðum. Frá hruninu 2008 hefur eiginfjárstaða íslenskra útgerða styrkst um cirka 300 milljarða króna.
Veruleiki þessara útgerða, þrátt fyrir hátt gengi íslensku krónunnar, er því allt annar en veruleiki smærri fyrirtækja eins og Íslandssögu. Í leiðara Morgunblaðsins er Íslandssaga hins vegar tekið sem lýsandi dæmi um slæm áhrif veiðigjalda á sjávarútveginn almennt séð, líka fyrir stóru útgerðirnar. Þannig er handvalið dæmi af litlu og veikbyggðu sjávarútvegsfyrirtæki til að fordæma gjaldtökuna í sjávarútvegi sem slíka.
Ekkert talað um Samherja
Í frétt í blaðinu í dag er sömuleiðis fjallað um dóm yfir manni sem starfaði sem sjómaður hjá Sjólaskipum og dótturfélagi Samherja, Kötlu Seafood, í Máritaníu í Afríku á árunum 2006 til 2010 sem dæmdur var fyrir skattsvik út af því hvernig hann hagaði skattskilum sínum á umræddum árum. Þess er ekki látið getið í fréttinni að maðurinn, Arnar Berg Grétarsson, vann hjá Samherjafélaginu og launagreiðendur hans voru félög í skattaskjólum. Sjómennirnir virðast hafa talið að Sjólaskip og Samherji ættu að standa skil á skattgreiðslunum fyrir þá en þetta var ekki gert, hvorki Máritaníu né á Íslandi. Fjölmargir sjómenn lentu í sambærilegum málum út af störfum sínum fyrir Sjólaskip og Samherja og hefur margoft verið fjallað um þetta í íslenskum fjölmiðlum í gegnum árin.
Opinberar upplýsingar
Meðal annars er fjallað um umrædd skattaskjólsfélög sem notuð voru í Panamaskjölunum svokölluðu og fjallaði Fréttatíminn um þessi viðskipti á sínum tíma.
Þá er í dómi Hæstaréttar Íslands í máli umrædds sjómanns sagt ítarlega frá því hvernig það gerðist að ekki voru greiddir skattar af launum mannsins og hvaða félög það voru sem voru vinnuveitendur hans. Orðrétt segir í dómi Hæstaréttar Íslands: „Erlendu félögin, sem greiddu stefnanda laun, Kenora Shipping Company Ltd., Fishing Company Beta Ltd. og Wave Operaions Ltd, hafi ekki verið skráð í Máritaníu heldur í Belize, á Kýpur og Bresku Jómfrúareyjum. Launin hafi verið greidd inn á reikninga stefnanda í Lúxemborg og á Íslandi. Stefnandi eigi enga bankareikninga í Máritaníu. Debetkort stefnanda hafi verið tengd reikningum hans á Íslandi og kreditkort hans verið skuldfært af þeim sömu reikningum. […] Í skýrslum, sem teknar voru annars vegar af stjórnendum og eigendum Úthafsskipa ehf. (áður Sjólaskip hf.), sem önnuðust ráðningu stefnanda á skipið Janus, og hins vegar framkvæmdastjóra Axels ehf. (áður Katla Seafood ehf.), komi fram að engin krafa hafi verið gerð um tiltekna búsetu sjómanna af hálfu íslensku félaganna. Einnig hafi komið fram að sjómenn hafi verið verktakar fyrir erlend fyrirtæki og því ekki höfð milliganga um greiðslu skatta þeirra né þeim veitt slík aðstoð í samskiptum við máritanísk yfirvöld. Í tölvupósti, sem stefnandi hafi sent framkvæmdastjóra Sjólaskipa í maí 2007, komi ótvírætt fram að stefnandi hafi gert verktakasamning um störf sín. Í skýrslu hjá skattrannsóknarstjóra hafi stefnandi aftur á móti fullyrt að vinnuveitandi hans greiddi skatt af launum hans og hann ætti kvittanir fyrir þeim greiðslum. Sú fullyrðing fái vart staðist skoðun. „Vottorðiðˮ á dskj. nr. 8 um að staðið hafi verið skil á sköttum stefnanda til máritaníska ríkisins árin 2006 til og með 2010 stangist augljóslega á við gögn málsins og feli því ekki í sér neina sönnun þess að raunverulega hafi verið staðin skil á sköttum fyrir stefnanda. Stefndi mótmælir „vottorðinu“ sem efnislega röngu.“
Sala Sjólaskipa á þessari Afríkuútgerð til Samherja árið 2007 var auk þess ein þekktasta salan í íslenskum sjávarútvegi á árunum fyrir hrun og fjallaði Morgunblaðið meðal annars um hana á sínum tíma. Nú liggur fyrir, meðal annars út af Panamaskjölunum, að félög í skattaskjólum voru notuð í viðskiptum þessara útgerða.
„Maðurinn starfaði á árunum 2006 til 2010 á skipi sem gert var út frá Máritaníu.“
Vinnuveitandi mannsins spilaði lykilhlutverk
Vinnuveitendur umræddra sjómanna áttu því að minnsta kosti þátt í að koma þeim í erfiða stöðu þar sem þeir hafa verið dæmdir fyrir skattalagabrot og gert að greiða háar fjárhæðir í álag og sektir. Ekkert af þessari sögu er sögð í frétt Morgunblaðsins þar sem Samherji hefur verið einn stærsti hluthafinn síðastliðin ár. Einungis er sagt: „Maðurinn starfaði á árunum 2006 til 2010 á skipi sem gert var út frá Máritaníu.“
Miðað við frétt Morgunblaðsins er eins og ábyrgðin því hvernig skattskilum hans var hagað þegar hann vann í Afríku hafi alfarið verið honum sjálfum að kenna en ekki að maðurinn hafi fullyrt að „vinnuveitandi hans greiddi skatt af launum hans“.
Þannig er ekkert fjallað um ábyrgð Sjólaskipa og Samherja í frétt Morgunblaðsins á því að koma sjómanninum, og einum 50 öðrum í sambærilegum málum, í þessa vondu stöðu gagnvart skattayfirvöldum.
Athugasemdir