Velferðarráðuneytið brást ekki rétt við kvörtunum barnaverndarnefnda á höfuðborgarsvæðinu og upplýsti ekki um málsatvik með fullnægjandi hætti.
Í þessu fólst meðal annars að ráðuneytið sýndi ekki fram á að rétt væri að veita Braga Guðbrandssyni forstjóra Barnaverndarstofu tilmæli fyrir að hafa farið út fyrir verksvið sitt með afskiptum af barnaverndarmáli.
Þetta kom fram í máli Kjartans Bjarna Björgvinssonar héraðsdómara sem kynnti úttekt þeirra Kristínar Benediktsdóttur á málsmeðferð ráðuneytisins á kvörtunum barnaverndarnefnda á blaðamannafundi rétt í þessu. Hér má lesa úttektina í heild, en Stundin mun fjalla ítarlega um málið um helgina.
„Samkvæmt niðurstöðum þessarar úttektar voru þær ávirðingar sem settar voru fram og beindust að störfum forstjórans þess eðlis að ráðuneytinu bar að afla frekari upplýsinga um þær til þess að það gæti tekið afstöðu til þess hvort tilefni væri að hefja frekari athugun á störfum forstjórans hjá Barnaverndarstofu og þá eftir atvikum hvort leggja ætti málið í formlegan farveg samkvæmt lögum nr. 70/1996, um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna, eða taka ákvörðun um að aðhafast ekki frekar,“ segir meðal annars í niðurstöðukafla skýrslunnar.
Athugasemdir