Verkefnahópur samgönguráðherra leggur til að ný flugstöð við Reykjavíkurflugvöll rísi á BSÍ reit. Hún verði hluti af samgöngumiðstöð sem nýtist þrátt fyrir að flugvöllurinn fari úr Vatnsmýrinni og kosti tæpa 2,8 milljarða í framkvæmd.
Hópurinn var skipaður af Jóni Gunnarssyni, fyrrverandi samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, og skilaði hann tillögum í dag. Hópurinn nefndi tvo aðra möguleika fyrir nýja flugstöð. Annars vegar nýbyggingu við Hótel Natura og hins vegar nýbyggingu norðaustan við núverandi flugstöð. Voru báðir möguleikarnir taldir dýrari og óhentugri en samgöngumiðstöð á BSÍ reit.
Undirgöng tengi við flugvöll eða mögulega byggð í Vatnsmýri
Hópurinn taldi samlegð og hagræði nást af því að tengja flugið öllum almenningssamgöngum innan borgarinnar og við flugvöllinn í Keflavík. „Gera má ráð fyrir að tenging flugsins við almenningssamgöngur á þessum stað bjóði upp á ýmis tækifæri til að bæta rekstrargrundvöll flugrekenda,“ segir í skýrslu verkefnahópsins. „Gangi áætlanir eftir mun farþegafjöldi með flugi, almenningssamgöngum og ferðaþjónustu sem fer um samgöngumiðstöð á BSÍ reitnum verða a.m.k. 10 milljónir manns á ári.“
Í skýrslunni kemur fram að fulltrúar Reykjavíkurborgar hafi komið því á framfæri við ríkið að það geti gerst aðili að hugmyndasamkeppni um BSÍ reitinn sem fyrirhuguð er á næstunni. Tæki ríkið þátt gæti flugstöð orðið hluti af samkeppni um fyrirhugaða samgöngumiðstöð. „Þá er kostur við þessa leið að öll fjárfesting nýtist áfram þótt flugvöllurinn fari, ekki þarf að byggja með hliðsjón af mögulegum flutningi flugstöðvarinnar eins og reiknað var með í hinum kostunum tveimur sem skoðaðir voru,“ segir í skýrslunni. „Sömuleiðis nýtast undirgöng undir Miklubraut áfram við að tengja flugvallarsvæðið við samgöngumiðstöðina, Landsspítalareitinn og miðbæ Reykjavíkur.“
Athugasemdir