Meirihluti atvinnuveganefndar, sem samanstendur af þingmönnum stjórnarmeirihlutans og þingmanni Miðflokksins, lagði fram frumvarp um endurreikning veiðigjalds í gær sem felur í sér að gjaldið mun skila ríkissjóði um tveimur milljörðum minni tekjum í ár en áður var gert ráð fyrir.
Með frumvarpinu eru annars vegar gerðar breytingar á krónutölum á hvert kílógramm óslægðs afla sem álagning veiðigjalda miðar við og hins vegar kveðið á um að gjaldskyldir aðilar sem greitt hafa minna en 30 milljónir í veiðigjald njóti rýmri persónuafsláttar en áður.
Í greinargerð frumvarpsins er bent á að rekstrarafkoma sjávarútvegsfyrirtækja hafi þyngst umtalsvert á undanförnum árum samhliða mikilli hækkun veiðigjalds sem miði við 2 til 3 ára gamlar upplýsingar um afkomu í sjávarútvegi.
„Óeðlilega hátt veiðigjald getur dregið úr starfshæfni fyrirtækja og samkeppnishæfni greinarinnar á alþjóðlegum markaði. Slík þróun getur haft umtalsverð neikvæð áhrif á m.a. þjónustufyrirtæki í sjávarútvegi og sveitarfélög sem byggja afkomu sína að stórum hluta á tekjum af sjávarútvegi. Þá getur hátt veiðigjald ýtt undir frekari fækkun sjálfstæðra atvinnurekenda í sjávarútvegi en aflahlutdeildarhöfum hefur fækkað ört á síðustu árum eða um tæp 60% á 12 árum,“ segir í greinargerðinni.
Þá er lækkunin réttlætt með því að vísa til þess að sjávarútvegurinn skili ríkissjóði nú þegar talsverðum fjármunum. „Svonefnt skattaspor íslensks sjávarútvegs, þ.e. heildargreiðslur skatta og gjalda, er umtalsvert en samkvæmt embætti ríkisskattstjóra nam tekjuskattur sjávarútvegsfyrirtækja um 6,3–7,6 milljörðum kr. og tryggingargjald um 5,4–5,9 milljörðum kr. á ári á árunum 2013–2017.“
Flutningsmenn frumvarpsins, þau Lilja Rafney Magnúsdóttir, Kolbeinn Óttarsson Proppé, Ásmundur Friðriksson, Njáll Trausti Friðbertsson, Halla Signý Kristjánsdóttir og Sigurður Páll Jónsson, telja að óbreytt veiðigjald kunni að hafa skaðleg áhrif á íslenskan sjávarútveg. Því sé áríðandi að endurákvarða álagningu gjaldsins til lækkunar.
Að óbreyttu var gert ráð fyrir að álagt veiðigjald fiskveiðiársins 2017/2018 yrði um 10,8 milljarðar króna. Samkvæmt fjárlögum ársins 2018 átti veiðigjaldið að skila ríkissjóði 10 milljörðum í ár, en verði frumvarpið að lögum er áætlað að veiðigjald fyrir almanaksárið 2018, að teknu tilliti til breytts persónuafsláttar, nemi um 8,3 milljörðum.
Svandís gagnrýndi „gjafir til útgerðarinnar“ á lokadögum þings
Stjórnarandstaðan gagnrýndi áform stjórnarmeirihlutans um lækkun veiðigjalda harðlega í umræðum um fundarstjórn forseta í morgun.
Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar vitnaði í stöðuuppfærslu sem Svandís Svavarsdóttir, núverandi heilbrigðisráðherra, birti á Facebook þegar hún var þingmaður í stjórnarandstöðu árið 2013 og sambærileg tillaga um lækkun veiðigjalds hafði komið fram frá meirihluta atvinnuveganefndar. Svandís skrifaði:
„Áhugaverður dagur í þinginu. Á lokasprettinum er samkomulag um þinglok sett í uppnám með tilhögun meiri hluta atvinnuveganefndar um að gefa enn í varðandi gjafir til útgerðarinnar. Á einum degi, án röksemda, án útreikninga, án skýringa á að fella niður veiðigjald á kolmunna sem nemur 459 millj. kr. Stjórnarmeirihlutinn sendir sprengju inn í viðkvæma stöðu. — Enn er málið óleyst.“
„Þetta er færsla frá Svandísi Svavarsdóttur, hæstvirtum ráðherra, frá 4. júlí 2013,“ sagði Logi í morgun og kallaði fram hlátur í þingsal. „Ég tek hjartanlega undir með ráðherra. Hér erum við að horfa upp á að það á lauma á síðustu metrunum í gegn afturvirkri lækkun, um 2,7 milljarða kr., sem myndi nægja til að hækka barnabætur um 30%. Þeir gætu líka notast til að bæta kjör öryrkja eða veitt betri húsnæðisstuðning fyrir barnafjölskyldur í landinu.“
Fleiri komnir að þolmörkum en útgerðin
Helga Vala Helgadóttir, þingkona Samfylkingarinnar, tók í sama streng og sagði pólitískri sprengju hent inn í þingið á lokadögum þess.
„Við formann atvinnuveganefndar vil ég segja, vegna þess að hún útskýrir þetta með því að útgerðin sé komin að þolmörkum, að fleiri eru komnir að þolmörkum. Öryrkjar eru komnir að þolmörkum. Heilbrigðiskerfið er komið að þolmörkum. Vegirnir okkar eru komnir að þolmörkum. Lögreglan og fleiri og fleiri,“ sagði hún. „Af hverju er hugsa háttvirtir þingmenn Vinstri grænna ekki um það? Hvernig stendur á því að háttvirtir þingmenn hugsa fyrst um útgerðina en ætla enn einu sinni að gleyma barnafjölskyldum og öryrkjum?“
Þá sagði Ólafur Ísleifsson, þingmaður Flokks fólksins, að vinnubrögðin væru óboðleg og ekki sæmandi. „Mál sem samið hafði verið um sitja föst í nefndum og nú á að setja fram fyrir þau þessa sprengju, sem hér hefur verið kölluð svo, þar sem rétta á tilteknum aðilum upp undir 3 milljarða kr.“
„Ég get alveg tekið undir að þetta
mál er komið allt of seint fram“
Lilja Rafney Magnúsdóttir, formaður atvinnuveganefndar Alþingis, viðurkenndi að málið væri of seint á ferðinni. „Ég get alveg tekið undir að þetta mál er komið allt of seint fram,“ sagði hún og bætti því við að umfjöllun um veiðigjald og stöðu lítilla og meðalstórra sjávarútvegsfyrirtækja hefði farið af stað í febrúar.
Athugasemdir