Stefnuvottur Sýslumannsins á Suðurnesjum afhenti í gær sjö ára gömlum dreng stefnu á hendur móður hans í Reykjanesbæ. Slíkt er með öllu óheimilt en ekki má afhenda neinum stefnu nema viðkomandi hafi náð fimmtán ára aldri hið minnsta. Umboðsmaður barna hyggst senda áréttingu til allra sýslumannsembætta vegna þessa.
Í gærkvöldi, 28. maí, brá Sigrún Dóra Jónsdóttir sér út á bílaplan við heimili sitt í Reykjanesbæ með fjögurra ára gömlum syni sínum, þar sem drengurinn var að æfa sig að hjóla. Á meðan að Sigrún var úti við bankaði stefnuvottur Sýslumannsins á Suðurnesjum upp á og fór annar sonur Sigrúnar, sjö ára gamall, til dyra. Þegar drengurinn hafði upplýst stefnuvottinn um að móðir sín væri ekki heima rétti stefnuvottur honum stefnuna og sagði honum að afhenda móður sinni skjalið.
Sigrún segir í samtali við Stundina að henni sé algjörlega misboðið vegna vinnubragðanna. „Það varð svo sem enginn skaði af þessu í gærkvöldi, sonur minn er aðeins sjö ára og áttaði sig ekki á hvað var um að ræða. Ef eldri sonur minn, þrettán ára sem líka var heima, hefði farið til dyra og tekið á móti þessu er ég hins vegar hrædd um að hann hefði tekið þetta nærri sér.“
„Þú réttir ekki barni svona póst“
Sigrún hafði samband við Lögregluna á Suðurnesjum í gær og tilkynnti um málið enda segist hún telja að um lögbrot sé að ræða. Þá sendi hún erindi á Sýslumanninn á Suðurnesjum, Umboðsmann barna, Sviðsstjóra Velferðarsviðs Reykjanesbæjar, dómsmálaráðherra og velferðarnefnd Alþingis þar sem hún vekur athygli á málinu.
Sigrún segist ekki ætla að opna stefnuna enda líti hún svo á að henni hafi ekki borist með réttmætum hætti. Þar í ofanálag hafi ekki verið kvittað fyrir móttöku hennar enda ekki við því að búast að sjö ára barn kvitti fyrir slíkt. „Þetta er bara rangt og menn hljóta að átta sig á því, sama hvern er um að ræða og sama hvað lögin segja, þú réttir ekki barni svona póst.“
Guðríður Bolladóttir, lögfræðingur hjá embætti Umboðsmanns barna, segir þessi vinnubrögð með öllu óheimil. „Það er ekki heimilt að birta stefnu fyrir barni sem er yngra en fimmtán ára. Það kemur bara fram í lögum um meðferð einkamála. Að afhenda barni stefnu með þessum hætti er brot á réttindum barnsins. Embætti umboðsmanns barna lítur svo á að þetta sé ekki eingöngu brot á lögum um meðferð einkamála heldur jafnframt í ósamræmi við eina af meginreglum Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, um að það sem sé barninu fyrir bestu eigi alltaf að vera í forgangi. Við erum í þessum töluðu orðum að leggja lokahönd á erindi til allra sýslumannsembætta landsins þar sem við áréttum þessi sjónarmið og brýnum fyrir sýslumönnum að þeir sem sjái um stefnubirtingu sé kunnugt um þessar reglur og þeir fari að þeim. Þarna hefur orðið einhver misbrestur á því.“
Guðríður segir að sér sé ekki kunnugt um að viðlíka hafi áður komið fyrir, þó hún vilji ekki fullyrða það. Umboðsmaður barna muni svara erindi Sigrúnar og fylgjast áfram með málinu.
Athugasemdir