Vinstrihreyfingin - grænt framboð missti fylgi alls staðar þar sem flokkurinn bauð einn fram í sveitarstjórnarkosningum, nema í Borgarbyggð og Skagafirði. Flokkurinn þurrkaðist út í bæjarstjórnum Kópavogs og Hafnarfjarðar. Í Reykjavík fengu Vinstri græn minna fylgi en ný framboð Sósíalistaflokks Íslands, Miðflokksins og Viðreisnar.
Fylgi við Vinstri græn á landsvísu hefur dregist saman frá Alþingiskosningum. Flokkurinn fékk þá 16,9% atkvæða á landsvísu og næst flest þingsæti á eftir Sjálfstæðisflokki. Í Reykjavíkurkjördæmi norður fékk flokkurinn 21,5%, stuðning en 18,9% í Reykjavík suður. Í kjölfarið mynduðu Vinstri græn ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki með Katrínu Jakobsdóttur sem forsætisráðherra.
Í nýjustu könnun MMR frá 22. maí sögðust 12% kjósa Vinstri græn til Alþingis. Í sömu könnun sögðust í fyrsta sinn færri en helmingur aðspurðra styðja ríkisstjórnina, eða 49,8%.
Sjöundi stærsti flokkurinn í Reykjavík
Í Reykjavík hlutu Vinstri græn 4,58% atkvæða og misstu 3,75% frá síðustu kosningum. Líf Magneudóttir verður áfram eini borgarfulltrúi flokksins, en þar sem borgarfulltrúum var fjölgað upp í 23 talsins fyrir þessar kosningar hefðu Vinstri græn fengið tvo fulltrúa kjörna með sama atkvæðafjölda og árið 2014. Flokkurinn er nú sjöundi stærsti flokkurinn í borginni og hlaut Sósíalistaflokkur Íslands, nýtt framboð vinstra megin við Vinstri græn, meira fylgi, eða 6,37%.
Sveitarfélag | Fylgi VG 2018 | Fylgi VG 2014 |
Reykjavík | 4,6% | 8,3% |
Kópavogur | 5,7% | 9,6% |
Hafnarfjörður | 6,7% | 11,7% |
Akureyri | 9,4% | 10,5% |
Reykjanesbær | 1,9% | buðu ekki fram |
Mosfellsbær | 9,6% | 11,9% |
Árborg | 7,0% | 4,3% |
Skagafjörður | 24,4% | 15,1% |
Borgarbyggð | 23,3% | 15,6% |
Norðurþing | 15,0% | 26,7% |
Í Hafnarfirði misstu Vinstri græn eina bæjarfulltrúa sinn. Flokkurinn hlaut 6,7% atkvæða, en var með 11,7% í kosningunum 2014. Í Kópavogi misstu Vinstri græn sömuleiðis eina bæjarfulltrúa sinn, með 5,7% akvæða. Lækkaði fylgið úr 9,6% frá því fyrir fjórum árum. Flokkurinn missti einnig fylgi á Akureyri, í Mosfellsbæ og í Norðurþingi.
Í sveitarfélögunum Skagafirði og Borgarbyggði bættu Vinstri græn hins vegar verulega við sig. Í Skagafirði fékk flokkurinn fjórðung allra atkvæða og þar með tvo af nýju fulltrúum. Í Borgarbyggð fengu Vinstri græn 23,3% fylgi og bættu við sig einum fulltrúa frá síðustu kosningum.
Athugasemdir