Hvorki Vinstri græn né Flokkur fólksins hefðu náð kjöri í borgarstjórn ef tala borgarfulltrúa hefði verið óbreytt frá því sem var á síðasta kjörtímabili. Borgarfulltrúum fjölgaði sem kunnugt er úr 15 í 23 við kosningarnar á laugardag.
Líf Magneudóttir, oddviti Vinstri grænna, varð sextándi borgarfulltrúinn í kosningunum og hefði því ekki náð kjöri hefði fulltrúatalan verið óbreytt. Lengra er í Kolbrúnu Baldursdóttur, oddvita Flokks fólksins, en hún varð nítjánda inn í borgarstjórn.
Hefði borgarfulltrúm ekki fjölgað hefðu úrslit verið þau að Sjálfstæðisflokkurinn hefði fengið kjörna sex fulltrúa, Samfylkingin fimm og Viðreisn, Píratar, Sósíalistaflokkur Íslands og Miðflokkur einn fulltrúa hver. Rétt eins og nú hefði aðeins ein tveggja flokka stjórn verið möguleg, samstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar. Sú stjórn er út af borðinu þar eð Dagur B. Eggertsson hefur hafnað samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn.
Sjálfstæðisflokkur hefði miðað við óbreyttan fulltrúafjölda getað myndað þriggja flokka stjórn með tveimur af hverjum hinna flokkanna fjögurra en eins og nú er getur flokkurinn aðeins myndað þriggja flokka stjórn með Viðreisn og Pírötum. Sú stjórn er þó ekki í boði, þar eð Píratar hafa hafnað samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn. Nái flokkurinn að mynda stjórn er því hægt að slá því föstu að hún muni alltaf verða að lágmarki fjögurra flokka. Líf Magneudóttir, oddviti Vinstri grænna, hafnaði samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn og Miðflokkinn í viðtali við Stundina fyrir kosningar. Því má gera ráð fyrir að eina leið Eyþórs Arnalds og samstarfsfólks hans í borgarstjórnarflokki Sjálfstæðisflokksins til að ná meirihluta sé að ná samkomulagi þar um við Viðreisn, Miðflokkinn og Flokk fólksins.
Samfylkingin hefði hins vegar þurft að fá til liðs við sig þrjá aðra flokka hefði fulltrúum ekki verið fjölgað. Raunar þarf flokkurinn, hyggist hann halda meirihlutanum í borgarstjórn, eftir sem áður að fá til liðs við sig að lágmarki þrjá flokka eins og staðan er. Píratar og Vinstri græn lýstu bæði yfir vilja til að halda meirihlutasamstarfinu áfram fyrir kosningar. Séu flokkarnir báðir ennþá viljugir til þess nægir að fá Viðreisn til liðs við meirihlutann en einnig væri hægt að semja um samstarf við Sósíalistaflokkinn og Flokk fólksins. Þá er hent á lofti þeim möguleika að Vinstri græn verði utan meirihlutans en engar fregnir hafa borist af ákvörðunum í þá veru.
Athugasemdir