Líf Magneudóttir og Elín Oddný Sigurðardóttir, frambjóðendur í 1. og 2. sæti á framboðslista Vinstri grænna í Reykjavík, vilja ekki tjá sig um ríkisstjórnarsamstarf flokksins við Sjálfstæðisflokkinn og Framsóknarflokkinn né um þá framtíðarsýn sem birtist í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar. Þær bregðast ekki við fyrirspurn Stundarinnar um málið og hafa ekki svarað spurningum um afstöðu þeirra til stjórnarsamstarfsins á samfélagsmiðlum.
Umræður sköpuðust um málið á Facebook-síðu Davíðs Stefánssonar, fyrrverandi varaþingmanns, í síðustu viku. Þar beindi hann eftirfarandi spurningum til efstu frambjóðenda og „taggaði“ þá svo þeim yrði gert viðvart um erindið: „Situr þú í flokksráði sem samþykkti núverandi ríkisstjórnarsamstarf? (Ef já) Kaustu með eða á móti? Styður þú núverandi ríkisstjórnarsamstarf?“
Einungis Þorsteinn V. Einarsson, þriðji maður á framboðslistanum, svaraði spurningum Davíðs. „Ég er ekki í flokksráði og þurfti því ekki að taka afstöðu á sínum tíma. Ég styð Kötu og Svandísi og Rósu og Andrés Inga. Ég styð þátttöku í ríkisstjórn og fyllist oft stolti af því sem ráðherrar VG eru að gera. Hins vegar viðurkenni ég fúslega að ég væri svo mjög til í að þurfa ekki að vinna með Sjálfstæðisflokknum,“ skrifaði hann. „Hvað varðar svo borgina þá er enginn flokkur með öll þau gildi sem samræmast betur minni pólitísku sannfæringu en Vinstri græn. Svo ekki sé talað um fólkið. Og það er af þeim ástæðum, gildunum og fólkinu, sem ég vil starfa innan VG og vonast til að fá tækifæri til þess í borgarstjórn eftir kosningar.“
Stundin sendi hinum frambjóðendunum fyrirspurn um málið á mánudag og ítrekaði í gær. Líf og Elín brugðust ekki við erindinu.
Í kosningabaráttunni fyrir síðustu þingkosningar hvatti Líf til þess að Sjálfstæðisflokknum yrði haldið frá völdum. „Gefum íhaldinu frí, langt frí,“ skrifaði hún á Facebook. Eftir að VG myndaði ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum viðurkenndi Líf að hafa verið full yfirlýsingaglöð. „Ég hefði viljað að hér hefði verið mynduð vinstristjórn, og í ljósi alls sem á undan var gengið hvarflaði ekki að mér annað en að vinstriflokkarnir myndu fá afgerandi umboð kjósenda til að mynda slíka stjórn. Það fékkst ekki og niðurstöður kosninganna urðu aðrar en ég og aðrir félagar VG hefðum viljað,“ skrifaði hún í aðdraganda flokksráðsfundar VG þar sem stjórnarsáttmáli ríkisstjórnarinnar var samþykktur. „Þó sú ríkisstjórn sem er í burðarliðnum sé ekki sú ríkisstjórn sem ég hefði kosið þá er hún niðurstaða kosninganna og það er ekki útilokað að hún geti komið góðum verkum til leiðar. Ég vona það að minnsta kosti.“
Athugasemdir