Nú er sagt að það séu átök á Gaza. Fólk segir líka að nýliðnir atburðir séu sorglegir. Hvorugt er rétt.
Átök eru vissulega af ýmsu tagi, allt frá því að menn gera út um hlutina á bar með hnúana eina að vopni, yfir í að herir ríkja láta sverfa til stáls með tilheyrandi mannfalli og óhugnaði. Þarna á milli eru svo átök af ólíku tagi, t.d. þegar mótmælendur glíma við lögreglu vegna G8 funda, eða þegar vanstilltum stuðningsmönnum tveggja fótboltaliða lýstur saman. Það sem einkennir átök, hvort heldur stór eða smá, er visst jafnvægi meðal þeirra sem takast á. Þegar fullorðin manneskja kúgar eða misþyrmir barni, þá eru það ekki átök. Það er kúgun eða misþyrming. Þegar leyniþjónusta leiðir fanga inn í pyntingaklefa og gengur af honum nærri dauðum, þá eru það ekki átök þótt fanginn kunni að streitast á móti. Það er bara gróft ofbeldi, pyntingar. Þegar vopnaður maður skýtur annan á færi, kannski fyrst í fæturna, svo í búkinn og síðast í höfuðið, þá eru það ekki átök heldur morð. Leikur kattarins að músinni er ekki átök.
„Gaza er nánast eins og risastórt fangelsi þar sem fólki er haldið í trássi við alþjóðleg lög.“
Síðustu atburðir á Gaza eru ekki átök heldur líkari leik kattarins að músinni. Þessir atburðir eru dæmi um kúgun og misþyrmingar. Gaza er nánast eins og risastórt fangelsi þar sem fólki er haldið í trássi við alþjóðleg lög. Þar hefur fólk fá tækifæri til að rísa upp gegn kúgurum sínum. Og þegar fólkið mótmælir þá mætir því einn öflugasti her heims. Það er skotið á færi. Slíkt kallast ekki átök heldur morð á saklausum borgurum – saklausu fólki sem hefur unnið sér það eitt til óhelgi að sætta sig ekki við að vera fangar, rúið mannréttindum, án tækifæra eins og foreldrar þeirra og eins og börnin þeirra, og kannski barnabörnin líka. Það sem er að gerast á Gaza er ekki átök, það er þetta: Fólk fer út til að mótmæla kúgun, og kúgarinn skýtur það á færi.
Og svo er það hitt, að atburðirnir séu sorglegir. En hvað er sorglegt? Þegar við verðum fyrir ástvinamissi þá fyllumst við sorg. Það er djúpstæð geðshræring sem vaknar við að maður hefur misst eitthvað sem manni var kært, eitthvað sem gaf lífinu merkingu og fyllingu. En atburðurinn sem olli missinum er ekki endilega sorglegur, þótt hann hafi valdið sorg.
Það er sorglegt að horfa upp á börn og ungmenni verða fíkniefnum að bráð, vegna þess missis, þess sársauka, þeirrar sóunar á mannlegu ágæti sem slíkt hefur í för með sér. En hið sorglega við slíka atburðarás veltur að hluta til á því að enginn fær við neitt ráðið. Það er líka sorglegt að sjá hús brenna og með því minningar og heimili fólks. Það er sorglegt þegar snjóflóð fellur á íbúðarhús. En það er ekki sorglegt þegar ein manneskja beitir aðra grófu og skipulögðu ofbeldi. Það er ógeðslegt, fyrirlitlegt, hrottafengið, ... Það er ekki sorglegt þegar í ljós kemur að gamall karl hefur haldið fjölskyldu sinni í fangelsi í kjallaranum í húsi sínu í áraraðir, nauðgað konu og dætrum, og beitt þær hverskyns andlegu og líkamlegu ofbeldi. Það er viðurstyggilegt en ekki sorglegt.
Síðustu atburðir á Gaza – og reyndar atburðir síðustu áratuga – eru ekki sorglegir. Þeir eru viðurstyggilegir. Þjóð er haldið í gíslingu, í fangelsi, og þegar fólk reynir af veikum mætti að mótmæla þá mætir það sprengikúlum atvinnuhermanna sem skjóta það á færi. Miskunnarleysið er algert, virðingarleysið fyrir lífi og manngildi fólksins er algert, firringin er alger. Atburðirnir eru ekki sorglegir heldur viðurstyggilegir.
Í stríði eru flestir hinna föllnu almennir borgarar – saklaust fólk sem lenti í skotlínunni. Yfir þá staðreynd er breytt með því að kalla dauða þessa fólks fórnarkostnað. Þegar saklaust fólk, m.a. börn og ungmenni, eru skotin á færi á Gaza er breytt yfir þá staðreynd að um hrein og klár morð er að ræða með því að tala um átök. En það eru engin átök, það eru bara morð. Og svo segjast ráðamenn hafa áhyggjur af ástandinu. Maður getur haft áhyggjur af svifryksmengun en frammi fyrir skipulegum fjöldamorðum fyllist maður óhugnaði, maður fordæmir þá. Sumir kalla atburðina sorglega eins og ef snjóflóð hafi fallið á íbúðarhús, þegar hið rétta er að atburðirnir eru viðurstyggilegir. Grimmdarverk sem unnin eru að yfirlögðu ráði eru ekki sorgleg, þótt þau valdi sorg. Þau eru ógeðsleg.
Grein áður birt á Facebook-síðu höfundar.
Athugasemdir