Halldór Guðmundsson, fyrrverandi forstjóri Hörpu, fékk 18,8 milljónir króna í laun og launatengd gjöld á árinu 2016, eða um 1.566.666 kr. að meðaltali á mánuði. Svanhildur Konráðsdóttir, núverandi forstjóri, fékk 1.775.000 kr. á mánuði í laun og launatengd gjöld, þrátt fyrir að hafa fengið lægri laun samkvæmt úrskurði kjararáðs fyrstu tvo mánuðina í starfi. Hún hefur nú óskað eftir að laun sín verði lækkuð í 1,3 milljónir króna í kjölfar gagnrýni, en við það bætast launatengd gjöld.
Þetta kemur fram í ársreikningi Hörpu fyrir árið 2016. Berglind Ólafsdóttir, fjármálastjóri Hörpu, staðfestir að upphæðin hafi öll verið vegna launa og launatengdra gjalda Halldórs. Halldór lét af störfum 1. mars 2017. Skömmu áður úrskurðaði kjararáð að laun næsta forstjóra skyldu vera 1.308.736 kr. á mánuði, en þá hafði stjórn Hörpu þegar samið við Svanhildi um 1,5 milljónir króna.
Svanhildur tók á sig „tímabundna lækkun“ að sögn Þórðar Sverrissonar, stjórnarformanns Hörpu, þar til ný lög um kjararáð tóku gildi 1. júlí 2017 sem færðu ákvörðunarvald um laun forstjóra undir stjórn Hörpu. Eru laun hennar nú 1.567.500 kr. eftir kjarasamningsbundna launahækkun. Tuttugu þjónustufulltrúar Hörpu hafa sagt upp til að mótmæla launum forstjóra á sama tíma og þeim var gert að taka á sig launalækkanir. Svanhildur hefur nú óskað eftir að laun sín verði lækkuð afturvirk til að skapa frið um starfsemi Hörpu.
Ríkið og Reykjavíkurborg lögðu til tæpan hálfan milljarð
Rekstur Hörpu hefur verið erfiður frá stofnun og drógust tekjur saman um 120 milljónir króna, eða 9%, á milli áranna 2016 og 2017. Eigendur Hörpu, þ.e. ríkið og Reykjavíkurborg, lögðu fram 450 milljónir króna til rekstursins í fyrra. Í tilkynningu sinni vegna uppsagna þjónustufulltrúa sagði Svanhildur að aðgerðir til hagræðingar í rekstri Hörpu séu farnar að skila árangri, en rekstur án framlaga eigenda hafi batnað um 30 milljónir króna á milli ára.
„Þrátt fyrir að rekstur Hörpu hafi batnað á milli áranna 2016 og 2017 og framlög eigenda aukist um rúmar 250 m.kr. er eigið fé samt orðið neikvætt í árslok vegna hárra afskrifta, árlegrar verðbreytingafærslu og fjármagnskostnaðar,“ sagði Svanhildur í skýrslu forstjóra með ársreikningi. „Fyrirsjáanlegt er að sá mínus muni stöðugt stækka á næstu árum – og það þrátt fyrir að sjóðstreymi og EBITDA verði áfram jákvæð. Þetta er óásættanleg staða en unnið er að því að tryggja Hörpu eðlilegan efnahagsreikning í samstarfi við eigendur félagsins.“
Athugasemdir