Í janúar á þessu ári skundaði ég í Hörpu á viðburð sem hét „Life Masterclass“. Alda Karen Hjaltalín var fyrirlesari á þeim viðburði og ég hafði ekki hugmynd um hvað ég var að fara að hlusta á eða hver hún væri. Ég bjóst örlítið við að þetta væri enn eitt sjálfshjálparnámskeiðið sem segði mér bara að lifa í núinu og gærdagurinn væri í gær. Allt gott og gilt auðvitað, en það felast ekkert margar lausnir í þeim orðum ef ég er þegar með hugann úti um allt og næ engri fótfestu – hvað þá að forma þetta blessaða „nú“. Flest þurfum við einhver verkfæri til að breyta hugsunarhætti og komast upp úr hjólförum sem við höfum kannski spólað í til fjölda ára.
Ég skal viðurkenna það að þegar þessi 24 ára stelpa kom hlaupandi inn á sviðið hugsaði ég „hvað er ég að gera hérna?“ – svo þurfti ekki nema tvær mínútur til þess að ég áttaði mig á því hversu mögnuð manneskja hún er. Hvað það er öfundsvert að vera 24 ára og hafa þessi óteljandi „lifehacks“ uppi í erminni og átta sig á að lífið er svolítið eins og þú ákveður að bregðast við því. Í raun hvernig þú ákveður að hugur þinn bregðist við því. Við veljum oftast ekki þá hluti sem við lendum í – lífið bara gerist – en við veljum hvernig við bregðumst við þeim.
Það var eitt frábært „lifehack“ sem sat í mér og það er: ,,Þú nákvæmlega hér og nú ert nóg!“ Þá á hún við að þú, nákvæmlega á þessari sekúndu þegar þú lest þetta, ert nóg.
Ég hugsaði þetta fram og til baka og fannst þetta svo mögnuð ábending. Því í þeim hraða og allsnægtum sem mörg okkar búa við í dag þá finnst okkur við sjálf samt aldrei nóg. Við framkvæmum ekki og lifum ekki drauma okkar því við erum svo oft að bíða eftir einhverju. Réttri kílóatölu – réttum tíma – réttu ári – kjarki – þori til að skipta um vinnu – réttum maka og svo má lengi telja. Við sitjum alltof oft og bíðum í staðinn fyrir að finna leið til að taka af skarið – af því við upplifum að við séum ekki nóg. Við förum inn í ár eftir ár og ætlum alltaf að gera betur. Þrátt fyrir að hafa gert okkar besta hverju sinni.
Á meðan þessar hugsanir hringsnerust í höfðinu á mér áttaði ég mig á því að ég er alltaf að bíða eftir því að sigra heiminn í staðinn fyrir að læra kannski bara að sigra sjálfa mig og þá aðallega hausinn á mér.
„Þú hins vegar brýtur þig niður reglulega og heldur að þú sért aldrei nóg“
Ég fór því mikið að pæla hvað það er sem dregur mig niður og gerir það að verkum að ég upplifi þetta. Ég hugsaði til orða fyrrverandi sambýlismanns míns. Hann sagði einu sinni við mig: Þú sérð þig allt öðruvísi en við hin gerum. Ég áttaði mig ekki alveg á því hvað hann átti við og spurði vinkonu mína hvort hún væri sammála honum. Hún sagði strax já. „Ég sé þig sem sterka, orkumikla konu sem finnur næstum alltaf lausnir á málunum. Þú hins vegar brýtur þig niður reglulega og heldur að þú sért aldrei nóg.“
Það var svo margt til í þessu. Sjálf er ég stundum minn versti óvinur – eða þar til að ég heyrði þessi orð sem ég vitna í hér ofar. Þá tók ég meðvitaða ákvörðun og fór að hugsa hvernig ég vildi auðga lífið, hverjir draumar mínir eru og hvernig ég næ því markmiði að sigra sjálfa mig.
Ég setti þrjú atriði niður á blað sem mig langaði að gera eða upplifa. Tvö þeirra snúast um hreyfingu og eitt um ástina. Ég ætla nefnilega að hætta að hræðast hana og bjóða hana velkomna. Það er partur af uppbyggingunni. Hvort sem það er sjálfsást eða ást til einhvers annars þá er gott að læra að hræðast hvorugt. Ég ætla að hætta að láta óttann stjórna mér í þeim málum.
Hin markmiðin eru að hlaupa 21 kílómetra í útlöndum og hjóla El Tide-fjallið á Tenerife. Samkvæmt öllum þolprófum og öðru sem ég hef tekið er ég í feiknaformi. Líkamlega get ég þetta alveg – en andlega – þar þarf ég að sigra sjálfa mig. Hugsanir eru nefnilega svo máttugar. Hugurinn á það til að segja að við séum ekki nóg, séum ekki tilbúin í stórar áskoranir, hendir inn ótta og metur aðstæður jafnvel hættulegar, þó að þær séu það ekki.
Við þurfum því kannski að læra að sortera hugsanir okkar, kannski prófa að breyta til og kannski bara treysta á okkur sjálf! Því eins og ég þá eruð þið öll líka nóg!
Svo núna ætla ég að kaupa mér flugmiða, skrá mig í hlaup, opna hugann fyrir ástinni og sigra sjálfa mig – því ég er nóg!
Athugasemdir