Kæra frú dómsmálaráðherra.
Mánudaginn 23. apríl sendu konur sem orðið hafa fyrir ofbeldi í nánum samböndum og/eða innan fjölskyldu frá sér #metoo-yfirlýsingu. Yfir 600 konur hafa síðustu mánuði deilt reynslu sinni í lokuðum facebook-umræðuhópi. Í yfirlýsingu hópsins er megináhersla lögð á ósk um að konum sé trúað þegar þær greina frá ofbeldi og auk þess er óskað eftir stuðningi samfélagsins við að skerpa á nokkrum veigamiklum atriðum. Þar á meðal: „Að dómsvaldið, sýslumaður og sýslumannsfulltrúar, sáttafulltrúar, sérfræðingar í málefnum barna og aðrir sem koma að ákvörðunum um forsjá og umgengni fylgi þeim áherslum sem sammælst hefur verið um í lögum.“
Tilgangur þessa bréfs er að vekja athygli dómsmálaráðherra á því að hagsmunagæslu barna sem búa við ofbeldi er verulega ábótavant í ákvörðun sýslumanns. Einnig að lýsa því hvernig óréttlátt viðhorf til þolenda ofbeldis birtist í ákvörðun sýslumanns um líf barna.
Þess er óskað að dómsmálaráðherra svari því hver staða og áætlun er varðandi innleiðingu sjónarmiða Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna í alla ákvarðanatöku sýslumanns. Einnig er þess óskað að ráðherra upplýsi um hver pólitískur vilji sé til markvissrar framkvæmdar og eftirfylgni við að tryggja að sjónarmið sáttmálans ríki í ákvörðun sýslumanns um líf barna.
Nefndar áherslur sem sammælst hefur verið um í lögum eru meðal annars breytingar á barnalögum, nr. 76/2003, sem tóku gildi í janúar 2013, þar sem vægi ofbeldis var aukið við ákvörðun forsjár og umgengni, sbr. 34. og 47. gr. laganna. Þar sem lögfest var að við ákvörðun um forsjá eða umgengni beri að líta til þess hvort hætta sé á að barnið, foreldri eða aðrir á heimili barnsins hafi verið eða muni verða beitt ofbeldi.
Í skriflegu svari þínu við fyrirspurn varðandi sömu breytingar á barnalögum segir:
„Þá ber sýslumanni að meta hættu á að barnið, foreldri eða aðrir á heimili barnsins hafi orðið eða verði beitt ofbeldi og líta sérstaklega til þess hvort ágreiningur eða samskipti foreldra séu líkleg til að koma í veg fyrir, hindra eða draga úr möguleikum barns til að alast upp við þroskavænleg skilyrði.“
Eftirfarandi samantekt er byggð á reynslu nokkurra kvenna af nýlegum umgengni-, forsjár- og dagsektarmálum sýslumanns sem eiga það öll sameiginlegt að barn og/eða fjölskylda er þolandi ofbeldis. Staðreyndir þessara mála sýna með nokkuð afgerandi hætti hvaða vægi ofbeldi hefur verið gefið í mati sýslumanns í reynd, hvaða afleiðingar það hefur þegar ekki er litið til ofbeldissögu og ef ekki er beitt faglegri nálgun við mat á vægi ofbeldis.
Gildisfelling á framburði þolenda ofbeldis í úrskurðum sýslumanns
Sýslumaður vísar frá og hafnar gögnum sem sýna fram á kynferðisofbeldi föður á barni eða sögu um heimilisofbeldi. Framburður móður og barns sem greina frá ofbeldi föður hefur ekki skýrt vægi á neinum stað í málavinnslu sýslumanns. Áhrif ofbeldis á barn eru ekki metin sérstaklega og ekki gefið vægi við könnun máls hjá sýslumanni áður en ákvörðun um umgengni er tekin.
Sem dæmi í umgengnimáli er gögnum frá Barnahúsi, barnalækni, tilkynningum til barnaverndar frá leikskóla, barnageðlækni, skólahjúkrunarfræðingi, barnasálfræðingi og lögregluskýrslur úr Barnahúsi sem upplýsa um kynferðisofbeldi föður á barni, vísað frá. Sýslumaður veitti ekki nægjanlegan frest til framlagningar nýrrar lokaskýrslu úr Barnahúsi sem barnavernd hafði þá þegar kallað formlega eftir og málinu var flýtt í úrskurð. Skýrslan leiddi í ljós kynferðisofbeldi föður á tveimur börnum sínum. Málið er nú rekið sem dagsektarmál hjá sýslumanni. Sýslumaður hafnar framlögn lokaskýrslu úr Barnahúsi í dagsektarmáli.
Í öðru umgengnimáli þar sem móðir leggur fram beiðni um örugga umgengni við föður undir eftirliti er barnaverndarsaga um ofbeldi á systkini barns, lögregluskýrslur um útköll vegna heimilisofbeldis, tilkynningar frá lögreglu til barnaverndar, mat frá sálfræðingi á tilfinningavanda barns og tilkynningar skóla til barnaverndar vegna vanlíðan barns, hundsaðar og því hvergi hugað að öryggisjónarmiðum barns í umgengni við föður. Málið var rekið sem dagsektarmál í aðdraganda úrskurðar um umgengni. Á þeim tíma hafði lögregla sent fjórar tilkynningar til barnaverndar vegna áhalda um öryggi barnsins og ofbeldi föður. Ef sýslumaður neitar að taka við gögnum, tekur ekki tillit til gagna eða neitar um frest eftir gögnum sem fallin eru til þess að varpa ljósi á málavexti og upplýsa málið betur er það í andstöðu við 10. gr. stjórnsýslulaga.
„Börn sem eru þolendur heimilisofbeldis og kynferðisofbeldis föður eru þvinguð í samskipti við ofbeldismann“
Móðir sem þvinguð er af sýslumanni í slíkar aðstæður hefur ekki önnur úrræði til að vernda barnið en að fylgja ekki úrskurði sýslumanns á meðan hann hefur réttaráhrif. Þá er hún beitt dagsektum eftir gerðarbeiðni föður. Ef umgengni síðan fer fram er það föður í sjálfsvald sett hvort og hvernig hann virðir úrskurð, rækir skyldur sínar við barn eða brýtur gegn barni í umgengni. Það hefur engin áhrif á málavinnslu sýslumanns.
Börn sem eru þolendur heimilisofbeldis og kynferðisofbeldis föður eru þvinguð í samskipti við ofbeldismann. Þegar ekki er tekið á geranda ofbeldis með viðeigandi hætti dregur það stórlega úr líkum á því að viðkomandi láti af ofbeldinu. Þetta stuðlar hvorki að velferð né þjónar hagsmunum barna. Þetta er í raun aðför að velferð og réttindum barns.
Falsvísindakenningar og fordæming mæðra
Lögfræðingur sýslumanns hefur sem slíkur ekki sérþekkingu til að greina afleiðingar eða meta líkur á ofbeldi gagnvart barni án þess að líta til þess faglega mats og gagna sem tiltækt er um ofbeldi. Sýslumaður hefur ekki sérþekkingu til að greina sálfræðilegar ástæður fyrir háttsemi móður, en gerir það. Í úrskurðum sínum um dagsektir og umgengni styðst sýslumaður við þær hugmyndir að tálmun (hömlun) á umgengni sé foreldrafirringarheilkenni móður (e. Parental alienation syndrome, PAS/ Parental alienation, PA).
Kenningin gerir ráð fyrir að mæður í forsjár- og umgengnimálum beiti ofbeldi og brjóti á mannréttindum barna og feðra með því að tálma umgengni viljandi. Frásögn móður um ofbeldi á henni og/eða barni er túlkuð sem vitfirrt andúð á föður. Sem dæmi er frásögn móður af ofbeldi nefnd í úrskurðum sýslumanns „tilhæfulausar ásakanir móður í garð föður“. Móður barna sem sýnt er að hafa verið misnotuð kynferðislega af föður er sagt í úrskurði um umgengni að hún eigi að vera jákvæðari í garð föður. Frásögn barns af ofbeldi föður hefur ekkert vægi og er túlkað sem innræting ranghugmynda vitfirrtrar móður. Á grunni meintrar tálmunarfirringar móður vísar sýslumaður gögnum frá í úrskurðarferlinu sem sýna fram á ofbeldi föður á barni og/eða fjölskyldu barns.
Hugmyndafræði PA(S)-kenningarinnar hefur engan vísindalegan grunn og henni hefur verið réttilega hafnað í nær öllum samfélögum af nánast öllum fræðimönnum sem fást við að greina mannlega háttsemi, nær alls staðar í heiminum. Litið er á hana sem falskenningu sem beri að forðast að ljá nokkurt vægi í ákvörðun um forsjá og umgengni.
Í þeim úrskurðum sem hér um ræðir er farið með PA(S)-kenninguna sem staðreyndir og háttsemi mæðra (meint vitfirring og hömlun á umgengni) greind af lögfræðingi sem beinn valdur að vanlíðan barns, en ekki þau áföll sem barn hefur orðið fyrir í samskiptum við föður. Afgerandi framburður geðlæknis og sálfræðings um alvarlega áfallastreitu barns og kynferðisofbeldi föður er gerður ótrúverðugur með þeim röksemdum að sérfræðingar séu ekki hlutlausir í máli ef móðir hefur leitað eftir aðstoð. Sýslumaður telur sem sagt að meint vitfirrt andúð og reiði móður í garð föður sé líklegri skýring á afstöðu móður til umgengni en vanlíðan, kvíði og áfallastreita barns. Sýslumaður gerir þar með verndandi móður eina ábyrga fyrir ofbeldi og áhyggjum af ofbeldi sem hún og/eða barnið hafa orðið fyrir.
Sýslumaður hafnar framburði sem sýnir heilbrigða afstöðu móður til hagsmuna barna hennar á grunni þess að gagnafrestur sé útrunnin en nýtir önnur gögn sem berast eftir þann tíma til að gera afstöðu móður í málinu tortryggilega. Þessi vinnubrögð samræmast ekki stjórnsýslulögum um könnun máls.
Þegar uppruni kenningasmíða PA(S) er skoðaður kemur í ljós að þær voru beinlínis spunnar upp af sjálftitluðum fræðimanni í þeim tilgangi að réttlæta kynferðislegt samneyti fullorðinna karla við börn en að sama skapi fordæma mæður barnanna. Þessar hugmyndir eru ekki bara í hreinni mótsögn við markmið barnalaga um aukið vægi ofbeldis í ákvarðanatöku sýslumanns, heldur er varað sérstaklega við notkun slíkra hugmynda við ákvörðun um forsjá og umgengni í greinargerð 5.1.6 með frumvarpi um breytingu á barnalögum (nr. 76/2003).
Þegar veigamiklar ákvarðanir eru teknar um líf fólks út frá hugmyndum sem byggja á fordómum og eiga sér ekki stoð í raunveruleikanum eru afleiðingar þess mannvonska. Sýslumaður verður að svara því hvers vegna embættið styðst, í ákvörðun um forsjá og umgengni, við hugmyndir sem réttlæta kynferðisofbeldi og annað ofbeldi á börnum. Sýslumaður fer með opinbert vald í skjóli ríkisins og misbeiting þess valds gegn þegnum þessa lands er ólíðandi.
Áróður og hagsmunasamtök feðra
Reynslan sýnir að í heimilisofbeldismálum ágerast árásir og gerræðisleg stjórnun oft gagnvart fyrrverandi maka eftir skilnað. Ofbeldismaðurinn upplifir að hann sé að missa þá stjórn sem hann taldi sig hafa áður og finnur nýjar leiðir til að réttlæta hegðun sína. Hagsmunasamtök feðra og háværar raddir um óréttlæti mæðra gagnvart feðrum í íslensku samfélagi, hafa undanfarin ár hrópað um umfangsmikla útbreiðslu og alvarleika tálmunarvanda. Í allri þeirri orðræðu er stuðst við sömu PA(S) hugmyndir um vitfirringu mæðra en foreldrafirringar hugtakinu sjálfu hefur að mestu verið skipt út fyrir „foreldraútilokun“, „tálmunarofbeldi“ eða „ofbeldismóður“ í þeim tilgangi að reyna að endurskilgreina tálmun (hömlun) á umgengni sem ofbeldi vitfirrtrar móður á föður og barni. Haldnar hafa verið ráðstefnur um yfirlýstan tálmunarvanda, fyrirlestrar, fundir, erindi, greinar skrifaðar um efnið og fjölmiðlaviðtöl tekin. Þá verður falskenning ekki staðreynd þó henni sé ítrekað haldið fram.
„Í erindum sínum hjá feðrahreyfingunum fjallar sýslumannsfulltrúi um kenningarnar sem staðreyndir“
Ofbeldismenn hafa stokkið á þennan vagn samfélagsumræðunnar og fundið málstað sínum farveg í hagsmunasamtökum feðra. Það verður að teljast verulega brotið að einn helsti talsmaður þess að tálmun á umgengni sé skilgreind sem ofbeldi og foreldrafirring mæðra og helsti álitsgjafi hagsmunasamtaka feðra um þessi efni, er starfandi lögfræðingur hjá sýslumanni á höfuðborgarsvæðinu sem úrskurðar eftir þessum sömu falstálmunarkenningum. Í erindum sínum hjá feðrahreyfingunum fjallar sýslumannsfulltrúi um kenningarnar sem staðreyndir og rökstyður með efni lokaritgerðar í lögfræði sem ber titilinn: „Foreldrafirring sem ein tegund tálmunar á umgengni“. Áróður og fordómar hagsmunasamtaka eiga ekki heima í ákvarðanatöku um líf barna og ekki verður framhjá því litið að sýslumaður ber ábyrgð á vinnulagi og framkvæmd í allri ákvörðun embættisins. Sýslumaður fer með opinbert vald og misbeiting þess valds í þágu hagsmunasamtaka er með öllu ólíðandi.
Ef það er móðir sem beitir föður og/eða barn ofbeldi verður mat sýslumanns að hafa hlutlæga sérþekkingu til að gefa því vægi þegar tekin er ákvörðun um forsjá eða umgengni. Falskenningar og fordæming foreldris á grunni kyns þjónar ekki hagsmunum barna og er árás á líf þeirra.
Sáttameðferð í ofbeldismálum
Heimilisofbeldismál eru í eðli sínu ólík skilnaðardeilum foreldra þó að við fyrstu sýn geti þau litið út eins og deila. Hefðbundin sáttameðferð í umgengni- og/eða forsjármálum eftir skilnað er ekki líkleg til árangurs þegar ofbeldi hefur átt sér stað, þar sem tilgangur með aðskilnaði er viðleitni annars foreldris til að binda enda á heimilisofbeldi eða forða börnum frá ofbeldi.
Kona sem er þolandi ofbeldis af hálfu barnsföður er skikkuð í sáttameðferð með árásarmanni sínum og kúgara þrátt fyrir að hún óski eftir því að tekið sé tillit til heilsu hennar og barnanna. Sýslumaður túlkar slíkar óskir sem lélegan sáttavilja móður. Þegar móðir treystir sér ekki til að mæta á sáttafund á tilsettum degi, vegna nýlegra áfalla í samskiptum við föður, er það túlkað skriflega í dagsektarúrskurði sýslumanns sem „móðir vill tálma umgengni“. Það virðist í engum tilvikum hafa sérstök áhrif á málavinnslu eða túlkun sýslumanns þó að faðir sem hóf málaferlið, mæti ekki til sáttafunda. Stundum er foreldrum boðið að mæta hvort í sínu lagi til fyrsta sáttafundar en það er mistækt.
Niðurbrotið og streitan sem fylgir því að mæta ofbeldismanni sínum eða barna sinna og gerræðislegum kröfum hans og upplifa stuðning sýslumanns við sjónarmið geranda, getur framkallað sýndarsátt og skaðlega undirgefni við ofbeldi. Þetta vinnulag verður seint talið heilnæmt í ákvarðanatöku fyrir börnin og heimili þeirra.
Lögbundið viðtal við barn um óskir þess og vilja
Félags- eða fjölskylduráðgjafi sýslumanns sem í lögbundnu samtali á að hlusta eftir vilja og afstöðu barna til umgengni hefur hvorki tilefni né svigrúm til að meta hvort ofbeldi hefur eða er líklegt til að hafa áhrif á hagsmuni barns. Dæmi eru um að dregið sé úr og skipt um umræðuefni í greinagerð um viðtal þegar börnin lýsa vanlíðan eða streitu í samskiptum við föður.
Einnig eru dæmi um að viðtalsaðili hafi mótandi áhrif á afstöðu barns í samtali og reyni að laga hana að fyrirframgefinni niðurstöðu um jafnan rétt foreldra til umgengni. Staðreyndavillur í greinagerð sem börn gætu ekki hafa gert og umkvörtun barna um leiðandi spurningar og viðmót eru helst til marks um þetta. Barn er eitt með starfsmanni sýslumanns í viðtalinu. Börnin upplifa að ekki sé tekið mark á vilja þeirra og skoðun.
Ótakmarkaður fjöldi mála
Engin skynsamleg takmörk virðast vera sett fyrir því hvað foreldri getur lagt mörg mál á borð sýslumanns eða hversu oft, óháð fyrri niðurstöðu.
Alla jafna er yfirlýstur tilgangur með framlögn umgengni-, forsjár- eða dagsektarmáls að stuðla að rétti barna til að þekkja báða foreldra sína og virða rétt til umgengni. Þegar faðir beitir móður/barn/fjölskyldu barns ofbeldi er ekki hægt að tala um að hann hafi hagsmuni barns í fyrrirúmi. Raunverulegt markmið með málarekstri getur verið að losna undan auka meðlagsgreiðslum, áreita heimili mæðra og barna með hjálp sýslumanns eða tilraun til að halda skynjaðri stjórn á fyrrverandi maka og fjölskyldu. Dæmi eru um að feður hafi lagt inn fimm virk mál hjá sýslumanni og ekki mætt í eina sáttameðferð vegna þeirra. Mæður sem koma úr heimilisofbeldi lýsa því gjarnan þannig þegar málum er lokið hjá sýslumanni eða úrskurður kominn í kæruferli hjá dómsmálaráðuneyti, að nú sé árásarhlé og biðin hefst eftir næstu árás eða eftir því að næsta mál verði lagt á borð sýslumanns. Ef vilji er til þá er dómsmálaráðherra velkomið að sjá gögn sem styðja allt ofangreint. Málavinnsla á málum sem augljóslega eru lögð fram í annarlegum tilgangi og án allra sáttaumleitana er hvorki barnafjölskyldum né sýslumannsembættinu til framdráttar.
Þolendur heimilisofbeldis telja það mikilvægt að ræða opinskátt um ofbeldi í samfélaginu með áherslu á viðeigandi úrlausnir bæði fyrir þolendur og gerendur. Ofbeldi kostar miklar þjáningar, heilsutap og getur kostað líf. Starfsfólk í stjórnsýslu þarf augljóslega fræðslu um ofbeldi og hegðun ofbeldismanna. Þegar vikið er frá grundvallarsjónarmiðum barnalaga í ákvörðun sýslumanns vegna ríkjandi viðhorfs starfsmanna embættisins hlýtur það að kalla á einhverskonar eftirlit. Það eru samfélagslegir hagsmunir til lengri tíma litið að staðið sé rétt að ákvörðun um líf barna. Misbeiting opinbers valds gegn þegnum er aldrei ásættanleg. Með ósk um að dómsvaldið, sýslumaður og sýslumannsfulltrúar, sáttafulltrúar, sérfræðingar í málefnum barna og aðrir sem koma að ákvörðunum um forsjá og umgengni finni þær leiðir sem þarf svo sannarlega megi fylgja þeim áherslum sem sammælst hefur verið um í lögum.
Virðingarfyllst,
Sigrún Sif Jóelsdóttir
Athugasemdir