Fundur velferðarnefndar Alþingis, þar sem Bragi Guðbrandsson forstjóri Barnaverndarstofu mun mæta til að greina frá sinni aðkomu að barnarverndarmáli sem Stundin hefur fjallað um síðustu daga, verður lokaður þvert á það sem áður hafði verið gefið út. Ákvörðum um að fundurinn skuli vera lokaður var tekin í gær eftir að formanni nefndarinnar barst bréf frá lögmanni föður manns sem lá undir grun um að hafa brotið gegn dætrum sínum. Þær athugasemdir sem þar komu fram voru metnar og tekin ákvörðun um að loka fundinum.
Fundur velferðarnefndar á að hefjast nú klukkan tíu og sem fyrr segir stóð til að hann yrði opinn fjölmiðlum og öðrum gestum. Af því verður hins vegar ekki. Halldóra Mogensen sagði í samtali við Stundina nú í morgun að henni hefði borist bréf frá lögmanni föður mannsins þar sem settar voru fram athugasemdir við að fundurinn yrði opin. Halldóra hefði þá leitað ráðgjafar á nefndasviði Alþingis og það hefði orðið niðurstaðan að loka fundinum. Ástæðan væri sú að hætta væri á að hugsanlega yrði trúnaður á ákveðnum þáttum málsins rofinn í ógáti. Halldóra bætti því við að í þessu ljósi væri enn ríkari ástæða til þess að Ásmundur Einar Daðason félagsmálaráðherra hlutaðist til um að aflétta trúnaði yfir þeim gögnum málsins sem ekki innihéldu viðkvæmar persónuupplýsingar.
Tilefni fundarins er forsíðuumfjöllun Stundarinnar frá því á föstudaginn þar sem greint var frá því að Bragi hefði, í samráði við föður málsaðila í barnaverndarmáli, beitt sér fyrir því að faðir, sem barnaverndarnefnd og meðferðaraðili óttuðust að hefði brotið kynferðislega gegn dætrum sínum, fengi að umgangast þær.
Athugasemdir