Bragi Guðbrandsson, frambjóðandi Íslands til Barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna, segist hafa orðið fyrir „ærumeiðandi ávirðingum á opinberum vettvangi“ undanfarna daga og ekki vera í stöðu til að „leiðrétta rangfærslur og ósannindi sem fjölmiðlar og stjórnmálamenn hafa borið á borð fyrir þjóðina“. Þar vísar hann væntanlega til forsíðufréttar Stundarinnar um afskipti sín af störfum barnaverndar Hafnarfjarðar og harðra viðbragða stjórnmálamanna.
Lögmaður föðurfjölskyldunnar í barnaverndarmálinu sem Stundin fjallaði um sagði í tölvupósti til fjölmiðla um helgina að umfjöllun Stundarinnar byggði á „trúnaðargögnum sem lekið hefur verið úr samhengi og ásamt ósönnum fullyrðingum“.
Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins í velferðarnefnd Alþingis hefur sagst ekki vilja lesa umfjöllunina og spurt hvort nokkur taki mark á fréttinni. Þá hefur Bragi Guðbrandsson boðað að hann geti lagt fram gögn sem „kollvarpi þeirri mynd“ sem hafi verið dregin upp í umfjöllun Stundarinnar.
Í ljósi alls þessa verður hér á eftir varpað ljósi á þátt Braga Guðbrandssonar í málinu með birtingu frumgagna þar sem persónugreinanlegar upplýsingar hafa verið afmáðar með öruggum hætti.
Fleiri atriði, sem talin eru of persónuleg eða viðkvæm til að rata fyrir sjónir almennings og varða ekki meginefni málsins með beinum hætti, eru einnig afmáð.
Um er að ræða brot af þeim upplýsingum sem Stundin hafði undir höndum við vinnslu fréttanna. Um forsögu málsins og heildarsamhengi þess má lesa hér, en í þessari fréttaskýringu verður einblínt á aðkomu Braga Guðbrandssonar.
Meint kynferðisbrot tilkynnt til lögreglu og Barnahúss
Afskipti Braga af störfum barnaverndarnefndar Hafnarfjarðar í umræddu máli áttu sér stað í desember 2016.
Í byrjun mánaðarins, þann 5. desember 2016, sendi barnaverndarnefnd tilkynningu til lögreglu og tilvísunarbréf í Barnahús þar sem greint var frá alvarlegum vísbendingum um meint kynferðisbrot sem rakin voru til föður.
Bréfinu fylgdu skýrslur listmeðferðarfræðingsins og upplýsingar um hvers vegna meðferðaraðili og barnaverndarnefndin óttuðust að kynferðisbrot hefðu verið framin. Lögregla greindi barnaverndarnefndinni frá því þremur dögum síðar að beðið yrði eftir könnunarviðtali Barnahúss áður en aðhafst yrði málinu. Var þá vísað til þess að gögn málsins bæru með sér að nefndin hefði „þegar óskað eftir könnunarviðtali af barninu í Barnahúsi“.
Tilvísunarbréfið er dagsett 5. desember 2016 en Barnahús veitti því ekki viðtöku fyrr en um mánuði seinna. Samkvæmt þeim upplýsingum sem fram hafa komið, bæði í gögnum málsins og í viðtali Stundarinnar við Braga Guðbrandsson, gleymdist tilvísunarbréfið í pósthólfi Barnahúss auk þess sem tölvukerfi Barnahúss bilaði á sama tíma.
Það er þá, undir lok desember 2016 og í kringum áramótin, sem Bragi Guðbrandsson og föðurafinn – þ.e. faðir málsaðilans í barnaverndarmálinu – eiga í talsverðum samskiptum, bæði símleiðis og í tölvupósti.
Hér má sjá fyrsta tölvupóst föðurafans til Braga en skömmu áður höfðu þeir rætt saman í síma:
Daginn eftir sendir hann annað bréf og biðst afsökunar á því hvað Bragi fái „lítinn frið“ fyrir honum:
Lýsir hann uppákomu sem hafði átt sér stað daginn áður þegar móðirin hætti við, með skömmum fyrirvara, að senda dætur sínar á samverustund með dauðvona ömmu þeirra þar sem lá fyrir að faðirinn yrði viðstaddur.
Setti móðirin þau skilyrði að aðeins afinn og amman myndu hitta stúlkurnar og vísaði til ráðlegginga frá starfsmanni barnaverndarnefndar Hafnarfjarðar sem hún hafði fengið í ljósi nýrra vísbendinga um kynferðisbrot.
Þessu eru gerð ítarleg skil í greinargerð sem afinn ritaði til varnar Braga í fyrra eftir að barnaverndarnefndir kvörtuðu undan vinnubrögðum Barnaverndarstofu.
Svona endar annað bréfið sem föðurafinn sendi Braga:
Af bréfinu má ráða að Bragi Guðbrandsson hafi sjálfur verið búinn að bjóðast til að koma á einhvers konar sáttum. Afinn gekk á eftir því tilboði.
Óumdeilt er samkvæmt gögnum málsins að á þessum tíma bauðst ömmunni og afanum að hitta stúlkurnar ef faðirinn væri ekki viðstaddur, en eins og föðurafinn staðfesti í samtali við Stundina í síðustu viku vildu afinn og amman hins vegar hitta barnabörnin með pabba þeirra.
Föðurafinn ýtti á eftir Braga þann 4. janúar 2017:
Sama dag brást Bragi við og hringdi í þann barnaverndarstarfsmann í Hafnarfirði sem fór með málið. Síðar átti barnaverndarnefnd Hafnarfjarðar eftir að kvarta undan símtalinu til velferðarráðuneytisins. „Starfsmönnum þóttu afskipti forstjórans bæði óeðlileg og ekki síður mjög óþægileg,“ segir í tölvupósti sem Þórdís Bjarnadóttir, formaður barnaverndarnefndarinnar sendi velferðarráðuneytinu 16. nóvember 2017.
„Starfsmönnum þóttu afskipti forstjórans bæði óeðlileg og ekki síður mjög óþægileg“
Bragi hefur lýst símtalinu með eftirfarandi hætti í samtali við Stundina:
„Málið var þannig vaxið að aðili mjög náinn barni sem deilt var um umgengni við hafði óskað eftir því að fá að umgangast barnið um jólin 2016. Aðilinn var dauðvona og var kvartað undan því að barnaverndarnefnd Hafnarfjarðar hefði beitt sér gegn því að hann fengi að hitta barnið. Það er náttúrlega andstætt lögum ef barnaverndarnefnd eða starfsmenn gera það. Við hjá Barnaverndarstofu höfum auðvitað eftirlitsskyldu með barnaverndarnefndum og þá er viðtekin venja að taka upp tólið til að kynna sér hvort ráðstafanir eru réttmætar. Í því samtali sem ég átti við barnaverndarstarfsmann var varpað ljósi á málið og þær upplýsingar sem ég fékk voru þess efnis að barnaverndarnefndin hafði ekki hlutast neitt til um að hindra þessi samskipti.“
Þær upplýsingar sem skráðar voru niður hjá Barnaverndarnefnd Hafnarfjarðar á sínum tíma stangast á við þessa lýsingu.
Samkvæmt símtalslýsingu, sem Stundin hefur undir höndum og er hluti af gögnum málsins, voru skilaboð Braga til barnaverndarstarfsmannsins í samræmi við óskirnar sem fram koma í tölvupóstum föðurafans og tilvitnað boð Braga sjálfs um að reyna að koma því til leiðar að föðurfjölskyldan fengi að hitta stúlkurnar. Eins og áður segir vildu afinn og amman hitta þær með föðurnum og endurspeglar símtalslýsingin það.
Útdrátturinn úr símtalinu hefur legið fyrir hjá Ásmundi Einari Daðasyni félagsmálaráðherra í velferðarráðuneytinu frá 31. janúar 2018.
Hann taldi ekki ástæðu til að greina velferðarnefnd Alþingis frá þeim upplýsingum þar koma fram þegar hann mætti á fund nefndarinnar um kvartanir vegna Barnaverndarstofu þann 28. febrúar síðastliðinn. Þá var öðrum ráðherrum ríkisstjórnarinnar ekki kunnugt um eðli afskipta Braga þegar ákveðið var þann 23. febrúar að tilnefna hann til Barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna fyrir Íslands hönd.
Eftir símtalið við barnaverndarstarfsmanninn sendi Bragi föðurafanum eftirfarandi tölvupóst:
Síðar átti Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu eftir að vitna í tölvupóst Braga í dagsektarúrskurði gegn móðurinni.
Móðirin kærði úrskurð sýslumanns til dómsmálaráðuneytisins þann 23. júní 2017 og gagnrýndi sérstaklega að sýslumaður hefði tekið orð Braga trúanleg án þess að hafa samband við barnaverndarnefnd Hafnarfjarðar sem hafði, ólíkt því sem Bragi hélt fram, ráðlagt móðurinni að halda stúlkunum í öruggu skjóli.
Dómsmálaráðuneytið felldi úrskurð sýslumanns úr gildi þann 17. nóvember 2017, meðal annars á þeim grundvelli að mál barnanna væru enn til skoðunar vegna meintrar misnotkunar föður.
Sjálfur sagði Bragi í samtali við Stundina á fimmtudaginn að aðkoma hans að umræddu barnaverndarmáli hefði grundvallast á eftirlitsskyldu hans sem forstjóra Barnaverndarstofu með störfum barnaverndarnefndarinnar.
Samt viðurkenndi hann að þegar hann skipti sér af málinu hefði hann ekki vitað né viljað vita hvort faðirinn hefði hugsanlega brotið gegn dætrum sínum og ekki búið yfir upplýsingum til að meta slíkt.
Orðrétt sagði hann, samkvæmt upptöku af símtalinu:
„Ég hefði aldrei nokkurn tímann lagt til eitthvað sem fæli í sér lögbrot eða aðhafst nokkuð sem væri andstætt mínum skyldum. Ég vissi ekkert hvort pabbinn í þessu tilviki hefði gert eitthvað á hlut þessa barns eða ekki. Ég var ekki dómbær á það og hafði ekki aðgang að neinum gögnum og hafði engan raunverulega áhuga á að vita það. Ég taldi að þetta samtal við barnaverndarstarfsmann hefði bara verið samtal við kollega og ég er mjög hissa á því samhengi sem menn eru nú að setja þetta mál í. Ég á ekki orð yfir þetta, ég er svo dolfallinn yfir því að einhver hafi áhuga á að setja þetta í svoleiðis búning, því það held ég að hafi ekki vafist fyrir þessum barnaverndarstarfsmanni né nokkrum öðrum að mér gekk ekkert annað til, í þessu símtali sem ég átti við nefndina, en að leggja gott til málanna og leiðrétta misskilning.“
Athugasemdir