Fullyrðir ranglega að Stundin kalli sig „kunningja“ Braga
Prestur og faðir málsaðila segir umræðuna um afskipti Braga Guðbrandssonar drifna áfram af heift: „Hættið að nota saklaus börn sem skotfæri í ljótum leik“
Prestur og faðir málsaðila í barnaverndarmáli sem Stundin fjallaði um með ítarlegum hætti í gær vísar því alfarið á bug að hann sé „kunningi“ Braga Guðbrandssonar.
Sakar hann Stundina um að hafa kallað sig kunningja Braga en í umfjöllun Stundarinnar kemur hvergi fram að þeir Bragi séu kunningjar.
Hins vegar er haft eftir prestinum sjálfum að það sé „enginn kunningsskapur“ milli þeirra en hann sé „málkunnugur“ Braga. Yfirlýsingin er send undir yfirskriftinni „Yfirlýsing ‚kunningja‘ Braga Guðbrandssonar“ og er sendandi titlaður sem prestur og fyrrverandi formaður barnaverndarnefndar.
Maðurinn segir barnaverndaryfirvöld aldrei hafa tálmað eða takmarkað umgengni sonar síns við dætur sínar.
Líkt og Stundin greindi frá í gær ráðlagði hins vegar barnaverndarnefnd Hafnarfjarðar móðurinni að tryggja að stúlkurnar væru í „öruggu skjóli“ meðan málið væri kannað. Síðar átti Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu eftir að kveða upp dagsektarúrskurð gegn móðurinni þar sem vitnað var í tölvupóstssamskipti Braga Guðbrandssonar og prestsins, en dómsmálaráðuneytið felldi úrskurðinn úr gildi, meðal annars á þeim grundvelli að meint misnotkun föður væri enn til skoðunar.
„Vegna ásakanna sem stafa frá barnsmóður sonar míns og fjölskyldu hennar hefur barnaverndarnefnd óskað eftir rannsókn lögreglu og Barnahúss. Slík rannsókn fór fram og bendir ekkert til að sonur minn hafi brotið gegn dætrum sínum eða nokkrum öðrum,“ segir í yfirlýsingu afans.
Eins og fram kom í frétt Stundarinnar bíður lögreglan þess að Barnahús skili skýrslu um könnunarviðtöl við stúlkurnar. Barnahús bíður hins vegar eftir því að meðferð stúlknanna hjá listmeðferðarfræðingi ljúki, en faðirinn og afinn telja að listmeðferðarfræðingurinn hafi ekki unnið faglega í málinu.
Barnahús er á öðru máli og hefur stofnunin greint barnaverndarnefnd Hafnarfjarðar frá því að upplýsingar úr listmeðferðarviðtölunum séu metnar trúverðugar.
„Stúlkurnar eru því áfram í listmeðferð og sendi listmeðferðarfræðingur nýja skýrslu í apríl sl. þar sem fram koma sterkar vísbendingar um kynferðislega misnotkun föður,“ segir í einu af þeim skjölum sem Stundin hefur undir höndum.
Afinn segir í yfirlýsingu sinni að ef „talið væru einhverjar líkur á því að börnum stæði hætta af honum [hefðu] barnaverndaryfirvöld allar valdheimildir til að takmarka umgengni hans við dætur sínar eða láta það fara fram undir eftirliti. Það hafa þau ekki gert, enda ítarlegar rannsóknir aldrei gefið tilefni til þess.“
Hann skorar á fjölmiðla, þingmenn og almenning að leyfa ekki heift og óbilgirni að særa fleiri.
„Hættið að nota saklaus börn sem skotfæri í ljótum leik stjórnmála- og embættismanna,“ segir hann og bætir því við að „sá sem lekur trúnaðargögnum velur hverju er lekið úr samhengi og hvaða ósannindum er hvíslað með“.
Fréttaflutningur Stundarinnar byggir að mestu á gögnum sem hafa átt viðkomu hjá Barnaverndarnefnd Hafnarfjarðar, Barnaverndarstofu, Sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu, dómsmálaráðuneytinu og velferðar-ráðuneytinu auk þess sem rætt hefur verið við málsaðila, föðurinn og Braga Guðbrandsson.
Almenningur hefur viðhaldið Stundinni og Kjarnanum með áskriftum og styrkjum síðan 2013. Með því að kaupa áskrift að Heimildinni styrkir þú sjálfstæða rannsóknarblaðamennsku.
Athugasemdir