Stundin í dag fjallar um mál sem hefur marga svívirðilega fleti. Fátt er andstyggilegra en að stefna öryggi barna í hættu, eins og ljóst er í tilfelli Braga Guðbrandssonar, meðan hann gegndi starfi forstjóra Barnaverndarstofu. Það gerði hann t.a.m. með því að beita sér fyrir því að maður, sem var sterklega grunaður um kynferðislegt ofbeldi gegn dætrum sínum, fengi þær í sína forsjá. Þetta gerði hann án þess að hafa minnstu hugmynd um hvort maðurinn hefði brotið gegn börnunum. Eða eins og hann, æðsta yfirvaldið í barnaverndarmálum á Íslandi, segir sjálfur: „Ég vissi ekkert hvort pabbinn í þessu tilviki hefði gert eitthvað á hlut þessa barns eða ekki. Ég var ekki dómbær á það og hafði ekki aðgang að neinum gögnum og hafði í raun og veru engan áhuga á að vita það.“
Fram kemur í Stundinni að Ásmundi Einari Daðasyni, félagsmálaráðherra sem fer með málefni barnaverndar, hafi verið kynnt málið á fundi þar sem hann fékk afhent öll málsskjöl áður en ríkisstjórn Íslands útnefndi Braga sem frambjóðanda til Barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna. Þessu hefur ekki verið mótmælt. Fulltrúar í velferðarnefnd Alþingis segja Ásmund ekki aðeins hafa leynt velferðarnefnd upplýsingum um málefni Braga heldur beinlínis logið að nefndinni.
Hver eru viðbrögð ráðherra þegar upp um hann kemst? Í hinum klassíska veruleika hefur Ásmundur gerst sekur um stórkostlegan siðferðisbrest og ætti að segja af sér þingmennsku og skammast sín. Þess í stað er sem Ásmundur kljúfi raunveruleikann í tvennt með stöðuuppfærslu á Facebook þar sem hann flaggar eigin réttsýni í málefnum brotaþola ofbeldis. Eins og ekkert hafi í skorist!
Svo hlýtur Ásmundur hreinlega að vera að gera grín að okkur þegar hann boðar í kvöldfréttum að mögulega megi endurskoða útnefninguna eftir fund sinn með velferðarnefnd á mánudaginn ― daginn sem framboðsfrestur rennur út!
Ef einhver vonaðist eftir ærlegum viðbrögðum stjórnvalda í kjölfar afhjúpunarinnar, þá eru skilaboðin nú skýr: Ásmundur Einar Daðason þarf ekki að svara fyrir gjörðir sínar gagnvart almenningi, og hann fer ekki fet. Vonum bara að hin Norðurlöndin verði stolt af sameiginlegum fulltrúa okkar hjá Sameinuðu þjóðunum ― manninum sem skiptir sér af barnaverndarmáli án þess að hafa nokkurn áhuga á því að vita hvort málsaðili hafi brotið gegn dætrum sínum.
Athugasemdir