Dagur B. Eggertsson, oddviti Samfylkingarinnar í borginni, hafnar samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn og Miðflokkinn í borgarstjórn. Helsta áherslumál Samfylkingarinnar sé uppbygging Borgarlínu á höfuðborgarsvæðinu en flokkarnir tveir hafa lýst sig andvíga þeirri uppbyggingu. Af þeim sökum geti Samfylkingin ekki starfað með þeim.
Þetta kemur fram í úttekt Stundarinnar, sem kom út í dag, á kosningaloforðum Samfylkingarinnar frá því fyrir fjórum árum, efndum þeirra og kosningaloforðum þeirra nú. Fyrir kosningarnar 2014 lofaði flokkurinn því að efla almenningssamgöngur og þó vissulega hafi tíðni verið aukin hjá Strætó, forgangsakreinar lagðar og næturstrætó tekinn upp þá er trauðla hægt að halda því fram að nokkur bylting hafi orðið varðandi eflingu almenningssamgangna á kjörtímabilinu. Hins vegar hefur verið unnið að þróun Borgarlínu á þessum árum og nú leggur Samfylkingin höfuðáherslu á að samningar um þær framkvæmdir verði kláraðir strax á þessu ári og framkvæmdir hefjist þegar árið 2019 við fyrsta áfanga. Með því mætti leysa þau vandamál sem glímt er við varðandi samgöngur í borginni.
„Ég hef tekið eftir því að þeir frambjóðendur sem hafna Borgarlínu færa ekki fram neinar lausnir“
Uppbygging Borgarlínu er hins vegar ekki á döfinni hjá öllum þeim flokkum sem bjóða fram til borgarstjórnar. Meðal þeirra flokka eru Sjálfstæðisflokkurinn, sem mælist ýmist sem stærsti eða næst stærsti flokkurinn í borginni, og Miðflokkurinn sem spár segja að fá kjörn einn til tvo borgarfulltrúa. Dagur segist ekki geta unnið með þeim flokkum í meirihluta.
„Nei, ég get það ekki. Ég held að það verði að gera þær kröfur til fólks sem vill stjórna borginni á næsta kjörtímabili að það komi með einhverjar raunhæfar lausnir í samgöngumálum. Ef að þær ganga út á að dreifa byggðinni og auka umferð á Miklubraut og Kringlumýrarbraut, þá held ég að hver maður sjái að það gengur ekki. Ég hef tekið eftir því að þeir frambjóðendur sem hafna Borgarlínu færa ekki fram neinar lausnir. Það tekur bara Morgunblaðslínuna, að vera á móti öllu sem lagt er fram af meirihlutanum í Reykjavík, jafnvel þó að það sé unnið í samstarfi við Sjálfstæðisflokkana í nágrannasveitarfélögunum. Ég held að þarna sé bara verið að ganga í gildru einhverra gamaldags stjórnmála, að stunda einhverja skotgrafapólitík.“
Athugasemdir