Ingibjörg Þórðardóttir, varaþingkona Vinstri grænna, hefur lagt fram þingsályktunartillögu um að kynjafræði verði kennd sem skyldunámskeið á öllum skólastigum. Þannig verði mennta- og menningarmálaráðherra falið að skipa starfshóp sem undirbúi breytingar á aðalnámskrám leik-, grunn- og framhaldsskóla í þessu skyni og geri jafnframt tillögur um breytingu á kennaranámi sem verði til þess að allir kennarar öðlist lágmarksþekkingu á kynjafræði. Jafnframt verði komið á ítarlegra námi í kynjafræði sem búi kennara undir að kenna kynjafræði sem sérstaka námsgrein á öllum skólastigum.
Fram kemur í greinargerð tillögunnar að mikilvægt sé að vinna gegn úreltum hugmyndum um að eðli og hlutverk karla og kvenna sé ólíkt. „Slíkar hugmyndir setja konur í veikari stöðu í samfélaginu og hafa einnig skaðleg áhrif á líf karla.“
Með kynjafræðikennslu megi vinna gegn úreltum staðalímyndum kynjanna sem hafa áhrif á ráðningar í stjórnunarstörf og dreifingu valds, þar með launakjör, móta viðhorf samfélagsins til kynbundins ofbeldis, styrkja sjálfsmynd og sjálfsöryggi stúlkna og auka tilfinningalegt frelsi drengja til að þeir eigi auðveldara með að leita sér hjálpar. Auk þess geti kynjafræðikennsla stuðlað að því að opna augu nemenda fyrir því að hæfni einstaklings til að hugsa um heimili og ala upp börn er óháð kyni og átt þátt í að útrýma hugmyndum um að sum störf séu karlastörf en önnur kvennastörf.
Athugasemdir