Karl Gauti Hjaltason, þingmaður Flokks fólksins, telur að að breytingar á hegningarlögum, sem fela í sér að öll tvímæli eru tekin af því að samþykki sé nauðsynleg forsenda kynmaka, geti haft slæmar afleiðingar.
„Í einu skiptin sem ég fæ illan grun um að saklaus maður hafi verið dæmdur sekur, þá hefur það gerst í nauðgunardómum,“ segir Karl Gauti í samtali við Stundina.
Ákvæði um samþykki sett inn í lög
Alþingi samþykkti í síðustu viku þingmannafrumvarp sem fól í sér breytingu á skilgreiningu nauðgunar á almennum hegningarlögum. Jón Steindór Valdimarsson, þingmaður Viðreisnar, var fyrsti flutningsmaður frumvarpsins og lagði það fram ásamt þingmönnum allra flokka nema Miðflokksins og Flokks fólksins.
Breytingin felur í sér að nú er fortakslaust kveðið á um að samþykki þurfi að liggja fyrir áður en kynmök eru stunduð, að öðrum kosti sé um nauðgun að ræða. Kafli laganna sem breytingin sneri að hljóðar eftir samþykkt frumvarpsins svo: „Hver sem hefur samræði eða önnur kynferðismök við mann án samþykkis hans gerist sekur um nauðgun og skal sæta fangelsi ekki skemur en 1 ár og allt að 16 árum. Samþykki telst liggja fyrir ef það er tjáð af frjálsum vilja. Samþykki telst ekki liggja fyrir ef beitt er ofbeldi, hótunum eða annars konar ólögmætri nauðung. Til ofbeldis telst svipting sjálfræðis með innilokun, lyfjum eða öðrum sambærilegum hætti.“ Fyrir samþykkt frumvarpsins var orðið samþykki hvergi að finna í lögunum.
Sat hjá við afgreiðsluna
Frumvarpið var samþykkt með öllum greiddum atkvæðum utan eins, atkvæðis Karl Gauta, sem sat hjá við afgreiðslu málsins. Karl Gauti hefur starfað við löggæslumál frá árinu 1989. Hann var settur sýslumaður í Vestmannaeyjum á árunum 1998 til 2014 og skólastjóri Lögregluskóla ríkisins á árunum 2014 til 2016.
Aðspurður hvers vegna hann hafi setið hjá við atkvæðagreiðsluna svarar Karl Gauti því til að hann hafieinfaldlega efasemdir um ágæti breytinganna. „Það er einfaldlega vegna þess að ég hafði ekki sannfærst um ágæti þessara breytinga, einfaldlega. Ég vildi því ekki samþykkja þetta. Ég verð að taka það fram að ég er ekki í allsherjar- og menntamálanefnd, sem fjallaði um frumvarpið, þannig að ég var kannski ekki búinn að lesa öll gögn sem málinu fylgdu. En ég var búinn að ræða við nokkra aðila, meðal annars við ríkissaksóknara, og ég var auðvitað búinn að lesa textann. Ég hafði bara miklar efasemdir um þetta mál og þess vegna ákvað ég að sitja hjá.“
Telur breytinguna geta haft slæmar afleiðingar
- En hvað er það við þessa breytingu sem þú hefur svona miklar efasemdir um?
„Ég er í sjálfu sér ekki á móti þessum texta, en ég vil bara að farið sé hægar. Ég er búinn að vinna við þetta öll þessi ár, eins og þú veist, og ég hef lesið mikið af dómum í gegnum tíðina í alls kyns málum. Ég hef líka lesið mikið af nauðgunardómum og í einu skiptin sem ég fæ illan grun um að saklaus maður hafi verið dæmdur sekur, þá hefur það gerst í nauðgunardómum. Það er skrýtið að þetta séu einu skiptin sem ég fæ þennan illa grun. Þess vegna ákvað ég að greiða ekki atkvæði vegna þess að ég var ekki sannfærður um ágæti þessa breytinga.“
-Telur þú sem sagt að þetta ákvæði hafi þá hættu í för með sér að hætta á slíku aukist, að saklausir menn séu dæmdir?
„Ég er ekki að segja það, ég veit í raun ekkert um það. Það eina sem ég veit er að þegar búið er að samþykkja þetta ákvæði þá lifir það sjálfstæðu lífi, dómarar lesa það, og einhverjar hugsanir hjá þeim sem sömdu það eða studdu það gilda ekkert. Það eru dómararnir sem lesa ákvæðið og það eru þeir sem túlka það. Þessi breyting gæti haft slæmar afleiðingar.“
Athugasemdir