Allt frá landnámi fram undir aldamótin 1900 var ráðandi samfélagsgerð bændasamfélagsins sem einkenndist af feðraveldi/húsbóndavaldi, í skjóli hinnar illræmdu vistarskyldu. Öllum var gert að skrá búsetu sína og því fylgt eftir með manntali. Fólki var ekki heimilt að stofna heimili án þess að hafa jarðnæði og búfé til að lifa á.
Vistarskyldan/vistarbandið/ófrelsisákvæðið var í senn atvinnustefna og eftirlits- og ögunartæki gagnvart vinnuhjúum með það að markmiði að hámarka nýtingu vinnuaflsins. Bóndinn réði allri vinnu hjúa sinna og tók til sín allan arð hvort sem vinnuframlagi væri skilað á heimili hans eða utan.
Samfélagsgerð Evrópu lét undan frjálslyndari hugmyndum alþýðubyltinganna sem risu hæst í Parísarbyltingunni 1848 og aldan fór um alla Evrópu. Friðrik 7. konungur Danaveldis brást strax við með því að afsala sér einveldinu og veitti íslenskri alþýðu verslunarfrelsi. Fram til þess tíma ríkti hin alræmda „milliskrift“, þ.e. að vinnulaun voru aldrei greidd í peningum, heldur eingöngu í vörum. Þetta kerfi virkaði þannig í raun að allt verkafólk á Íslandi var í skuldafangelsi hjá kaupmanninum og var hótað lakari kjörum ef það vogaði sér að leita eitthvað annað með úrbót sinna mála.
„Allt verkafólk á Íslandi var í skuldafangelsi hjá kaupmanninum.“
Iðnbyltingin og sjálfstæðisbarátta alþýðunnar var hafin. Verkafólki, sem reif sig undan vistaskyldunni, fjölgaði og það nýtti samtakamátt sinn til að ná fram auknum mannréttindum. Allt til loka nítjándu aldarinnar hafði það verið óþekkt hér á landi að verkafólk setti fram kröfur um kjör sín og takmörk á vinnutíma. Fyrstu verkföllin eru háð 1913 og stóðu í 3 vikur. Þar náðist fram ákvæði um 10 klst. dagvinnu og greiða skyldi álag væri unnið lengur. Samningsréttur verkalýðsfélaganna var samþykktur og þannig er loks komið í veg fyrir að vinnutími og laun væru alfarið háð geðþóttaákvörðunum viðkomandi vinnuveitenda.
Sumarfrí voru á þessum tíma óþekkt fyrirbæri, en árið 1908 náðu verkalýðsfélögin inn ákvæði í kjarasamninga um að þeir sem unnið hefðu eitt ár eða lengur, skyldu fá allt að þriggja daga sumarleyfi en án kaups. Á sama tíma kom inn ákvæði um að minnst helmingur launa skyldi ávallt vera greiddur í peningum. Grundavallarmannréttindi náðust í baráttu verkalýðsfélaganna, eins og til dæmis slysatryggingar árið 1925, lög um alþýðutryggingar 1936 og Tryggingarstofnun var sett á laggirnar. Vinnulöggjöfin náðist fyrst fram árið 1938 og það átti eftir að kosta mörg blóðug verkföll þar til verkafólk náði loks fram lögum um atvinnuleysistryggingar 1955.
Í fréttatímum er sagt frá því að á íslenskum vinnumarkaði sé í vaxandi mæli fólk sem fái einungis greitt fyrir vinnuframlag sitt með mat og húsnæði. Fólk sem eigi ekki í önnur hús að venda og verði alfarið að búa og sætta sig við það sem vinnuveitandinn réttir þeim og reglur um hvíldar- og frítíma séu að engu hafðar. Fólk sé í þeirri stöðu að verða vísað úr sinni vist og sent bjargarlaust úr landi uni það ekki þeim reglum sem stjórnvaldið og vinnuveitandinn setji. Við lesum daglega fréttir um að fólk í neðstu lögum samfélagsins sé í sömu stöðu.
Erum við á upphafsreit vistarskyldunnar?
Athugasemdir