Danski jafnaðarmannaflokkurinn hefur – flestum á óvænt – tekið upp nýja stefnu í málefnum hælisleitenda og flóttafólks. Í stað þeirrar stefnu, sem jafnaðarmenn hafa fylgt um alla Evrópu um jákvæðni og skilning í garð slíkra flótamanna – hvort heldur sem um er að ræða flótta frá styrjöldum og átökum ellegar flótta úr fátækt – hafa danskir jafnaðarmenn söðlað um. Segjast ekki taka við neinum slíkum hælisleitendum við eða innan landamæra sinna heldur vilja, að stofnaðar verði flóttamannabúðir í einhverju Norður-Afríkuríki, sem danska samfélagið geti kostað rekstur á í samvinnu við heimamenn. Þangað eigi að leita allir þeir, sem biðja vilja um hælisvist í Danmörku. Þar leggi þeir umsóknir sínar fram. Þaðan verði þær afgreiddar. Verði um samþykki að ræða fáist vist. Náist ekki samþykki sé leik þar með lokið. Þetta er slík umbreyting að jafnaðarmenn hljóta að leita svara. Hvers vegna? Telja danskir jafnaðarmenn að þetta sé leiðin til þess að laða aftur að fylgi þeirra fátæku og smáu í dönsku samfélagi? Leiðin sé sú að veita atlögu þeim, sem eru enn fátækari og miklu smáðari en sá hópur, sem reynt er að vinna til baka?
Óðum að hverfa
Staðreyndir fylgiskannana og kosninga um allan hinn vestræna heim hafa sýnt, að fólk, sem tilheyrir fátækasta og mest „sárbara“ hluta sérhvers samfélags – og áður voru vísir fylgismenn jafnaðarmanna og sósíalista – eru óðum að hverfa frá slíku fylgislagi. Í staðinn hafa þessir afskiptu og fátæku hópar snúist til fylgis við fasisma og þjóðrembingshyggju og eru meginkjarni stuðningsliðs slíkra afla. Eftir sitja í fylgishópi sósíalista hópar mennta- og háskólafólks í þokkalegum stöðum og með þokkalega afkomu. Slíkir hópar hafa alltaf verið í forystusveitum jafnaðarmanna og ljáð hugsjónum þeirra jarðneskar samtímatengingar og vitræna staðfestu – en nú standa þeir nánast einir eftir. Bakraddirnar – raddir þeirra fátæku og smáðu, sem fylgdu í kjölfarið og ljáðu hina djúpu bassarödd – þær eru þagnaðar. Þær hljóma nú annars staðar.
Hvers vegna?
Hvers vegna? Hvers vegna hafa þessir hópar hinna fátæki og afskiptu þjóðfélagsþegna horfið frá stuðningi við sósíalismann og yfir til stuðnings við þjóðernispópólisma af mismunandi tegundum? Við því liggur ekki fyrir öruggt svar. Það svar verður þó að finnast. Ella á sósíalisminn enga framtíð.
Auður fárra – fátækt margra
Sósíalistar hafa með réttu bent á, að einkennin fyrir samfélagsþróuninni hina síðustu áratugi hafa verið þau, að samfélagsauðævin hafa verið að færast á færri og færri hendur. Ríkasta prósentið eignast ávallt stærri og stærri hluta af þjóðarauðnum á meðan sú auðsuppspretta sniðgengur hin 99 prósentin. Ekki vantar það, að sósíalistar hafi ekki þráfaldlega bent á þetta. Hvar og hvenær? Þá og þegar upp er gert. Þegar reikningar þjóðarbúsins eru teknir saman – af háskólamönnum – og niðurstöður kynntar – af háskólamönnum. En hvernig upplifa hinir snauðu þegnar þessi boðaföll? Verða þeir varir við þessa öfugþróun í sinni daglegu tilveru líkt og þegar vatnsfall fossar framhjá með boðaföllum og farvegurinn liggur um heimalönd hinna fátæku. Nei. Í sinni daglegu tilveru sér fátækt fólk ekki þessa framrás auðævanna fram hjá sér fara og til annara. Þá aðeins þegar hinir fáu auðugu og voldugu nota völd sín til þess að hygla sér og sínum með launagreiðslum, sem engan sinn líka eiga utan þessa fámenna hóps. Það er hið eina brot sjálfs ísjakans, sem fyrir augu ber. Hitt er allt dulið í djúpunum. Kemur fyrst í ljós þegar háskólasamfélagið fer að færa afkomutölur þjóðarbúsins inn í exelskjöl sín – og segir frá. En varla nokkur maður tekur eftir því. Og engir utan þessa tiltölulega fámenna háskólasamfélags leggja við hina minnstu hlustun.
Tala – en gera fátt
Hvað hafa sósíalistar gert, annað en að segja frá, til þess að hafa áhrif á þessara framrás auðsins, stöðva hana og breyta farvegi. Ekki neitt! Halda menn að fátækt fólk upplifi tillögu um hækkun á auðlindaskatti sem viðbrögð við þessu? Nei! Það upplifir tillögur um hækkun á auðlindaskatti sem hefðbundnar skattahækkunartillögur vinstri manna. Halda menn að ef bandarískir stjórnmálamenn í röðum demókrata vilja að Trump forseti leggi fram upplýsingar um skattaframtöl sín s.l. fimm ár þá upplifi fátækir Bandaríkjamenn það sem tilraun til þess að stemma stigu við boðaföllum þjóðarauðævanna framhjá þeim fátæku og til hinna ríku? Nei, það gera þeir ekki. Ef jafnaðarmenn vilja að brugðist sé við þessari öfugþróun þá verða þeir að sýna fram á hvernig það eigi að gerast – og gera það svo. Þú getur það ekki bara með skattalegum aðgerðum. Þú gerir það með því að stöðva framrásir hinna ómennsku hagkerfa, sem búin hafa verið til og starfrækt allar götur frá valdatíma Reagans og Thatchers, gegnum hrunið jafnt í USA, Evrópu og Íslandi og valdastétt auðsafnara heldur dyggum trúnaði við þrátt fyrir brunarústirnar - afleiðingarnar, sem orðið hafa á leiðinni. Þú stöðvar ekki bara öfugþróunina. Þú stöðvar líka eignamyndun þeirra og söfnun þeirra á valdastöðum í þeirra eigin hendur. Þjóðarauður er ekki eignamyndun fárra. Þjóðarauður á að vera almenningseign.
Störfin hverfa – í annarra hendur
Hvernig líta fátækir Evrópubúar og fátækir Bandaríkjamenn á sinn vanda? Hann er meðal annars fólginn í afleiðingum viðskiptafrelsisins, sem gert hefur fært að flytja störfin frá þeim og til „útlendinga“. Sem afleiðingar heimsvæðingarinnar, sem orðið hefur til þess að bandarískur bílaiðnaður – íslensk húsgagnaframleiðsla, íslenskar saumastofur, íslenskur klæðaiðnaður hurfu. Sem orðið hefur til þess, að íslenskir byggingariðnaðarmenn hafa orðið að hverfa frá á meðan sams konar vinnuafl hefur verið flutt inn og greitt fyrir með linnulausum undanbrögðum frá launagreiðslum hjá íslenskum verktökum og undirverktökum þeirra. Sem einnig hefur orðið til þess um allan hinn vestræna heim, að fátækt og umkomulaust fólk hefur skefjalaust verið sótt til heimalanda, látið starfa langt undir umsömdum lífskjörum launafólks í gistilöndum, réttlaust eða réttlítið ef veikindi eða slys bera að höndum, ofurselt mansali gróðafíknar „betri borgara“ sem fyrir tilstuðlan þessa fátæka og réttlausa vinnuafls eru óðum að koma sér fyrir meðal hinna fámennu auð- og valdastéttar í samfélögunum.
Þetta er vandinn eins og hann blasir við fátæku og réttlausu fólki á Íslandi og í Evrópu og Bandaríkjunum í dag. Ef sósíalisminn á enginn svör við honum – þá er hans tími á enda runninn.
Athugasemdir