Ný reglugerð Sigríðar Andersen dómsmálaráðherra sem birtist á vef Stjórnartíðinda þann 14. mars síðastliðinn felur í sér að hert er umtalsvert á skilyrðum þess að stjórnvöld geti tekið umsóknir hælisleitenda til efnismeðferðar vegna heilsufarsástæðna.
Í reglugerðinni er því meðal annars slegið föstu að heilsufar hælisleitenda skuli hafi „takmarkað vægi“ nema ákveðin skilyrði séu uppfyllt, til dæmis að þeir glími við „mikil og alvarleg veikindi, svo sem skyndilegan og lífshættulegan sjúkdóm og meðferð við honum [sé] aðgengileg hér á landi en ekki í viðtökuríki“.
Rauði krossinn gagnrýnir reglugerðina harðlega og bendir á að hertu skilyrðin ná bæði til fullorðinna og barna. „Þannig virðist vera gert ráð fyrir að börn sem eru haldin sjúkdómi sem ekki nær þeim alvarleikaþröskuldi að teljast skyndilegur og lífshættulegur skuli endursend til viðtökuríkis, jafnvel þó að foreldrar barnsins muni þurfa að greiða fyrir meðferð við sjúkdómnum í viðtökuríki, án þess að frekara mat fari fram á einstaklingsbundnum aðstæðum barnsins,“ segir í umsögn Rauða krossins um reglugerð Sigríðar.
Athygli vekur að Sigríður Andersen samþykkti reglugerðina þann 6. mars síðastliðinn, sama dag og hún varðist vantrausti á Alþingi og fékk stuðning frá níu af ellefu þingmönnum Vinstri grænna, flokks sem hefur talað fyrir mannúð í flóttamannamálum.
Þrátt fyrir að Sigríður Andersen hafi áður beitt sér af hörku gegn réttarbótum fyrir hælisleitendur og átt frumkvæði að lagabreytingum sem þrengja að réttindum þeirra lýsti nær allur þingflokkur Vinstri grænna yfir stuðningi við áframhaldandi setu hennar á ráðherrastóli, þar sem hún fer meðal annars með málefni flóttamanna og mannréttinda í ríkisstjórn.
Síðasta haust samþykkti Alþingi breytingar á útlendingalögum sem fólu í sér styttri málsmeðferðartíma í málum er varða börn og barnafjölskyldur. Sjálfstæðisflokkurinn, með Sigríði Andersen í fararbroddi, lagðist gegn frumvarpinu meðan allir aðrir flokkar á Alþingi sameinuðust um breytingarnar.
Í greinargerð sem fylgdi frumvarpinu var sá vilji löggjafans áréttaður sérstaklega að ávallt skyldi taka hælisumsóknir til efnismeðferðar ef hælisleitendur væru í sérstaklega viðkvæmri stöðu, sbr. 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga.
Rauði krossinn bendir á að í kjölfarið mátti greina breytingar á túlkun stjórnvalda á 2. mgr. 36. gr. útlendingalaga. Þannig komst kærunefnd útlendingamála að þeirri niðurstöðu í úrskurðum sem féllu eftir gildistöku breytingarlaganna að ummæli í lögskýringargögnum gæfu með nægilega skýrum hætti til kynna að viðkvæm staða umsækjanda skyldi hafa aukið vægi andspænis sjónarmiðum sem tengjast meðal annars skilvirkni við meðferð umsókna og mikilvægis samvinnu Dyflinnarsamstarfsins.
Ný reglugerð Sigríðar Andersen virðist vera tilraun til að hverfa frá ofangreindri þróun, takmarka möguleika stjónrvalda til túlkunar á sérstökum ástæðum og draga úr vægi þess hvort hælisleitendur eru í viðkvæmri stöðu við mat á því hvort taka skuli umsóknir þeirra til meðferðar.
Í reglugerðinni er jafnframt tekið sérstaklega fram að óheimilt sé með öllu að „líta til athafna umsækjanda eða afleiðinga þeirra athafna sem hafa þann tilgang að setja þrýsting á stjórnvöld við ákvarðanatöku“ og hungurverkföll nefnd sem dæmi.
Rauði krossinn bendir á að í nýju reglugerðinni eru settar fram viðmiðunarreglur um hvað sé átt við með sérstökum ástæðu sem fela í sér strangari kröfur en gerðar eru í lögum um útlendinga. Í reglugerðinni sé t.d. gerð krafa um „alvarlega mismunun í viðtökuríki“ meðan einungis er talað um „mismunun“ í greinargerðinni sem fylgdi útlendingalögunum.
Þá er bent á að hingað til hafi verið lagt einstaklingsbundið mat á heilsu umsækjenda og hvaða áhrif endursending hafi á heilsu þeirra, óháð því hvort heilbrigðiskerfi í viðtökuríki er í stakk búið til að veita viðkomandi fullnægjandi meðferð. Nýja reglugerðin taki hins vegar fram í dæmaskyni að þeir einstaklingar sem geti fallið þarna undir séu umsækjendur sem glíma við „mikil og alvarleg veikindi“, auk þess sem gerð er krafa um „skyndilegan og lífshættulegan sjúkdóm“ og að meðferð við honum sé aðgengileg hér á landi en ekki í viðtökuríki. Þá kemur fram að fyrir utan þær heilsufarsástæður sem taldar eru uppi í dæmaskyni hafi heilsufar umsækjanda takmarkað vægi við mat á því hvort umsókn hans verði tekin til efnislegrar meðferðar hér á landi nema ástæðan sé talin það einstaklingsbundin og sérstök að ekki verði fram hjá henni litið.
„Rauði krossinn telur að með setningu jafn þröngra skilyrða vegna heilsufarsástæðna séu stjórnvöld að stíga skref aftur á við í framkvæmd þar sem líkur eru á að heilstætt mat á aðstæðum einstaklinga í leit að alþjóðlegri vernd verður gefið minna vægi,“ segir í greinargerðinni. „Þá gerir Rauði krossinn sérstaka athugasemd við ákvæði reglugerðarinnar um að meðferð teljist ekki óaðgengileg þótt greiða þurfi fyrir hana. Rétt er að hafa í huga að þeir einstaklingar sem falla undir c-lið 2. mgr. 36. gr. útlendingalaga eru umsækjendur um alþjóðlega vernd sem annað hvort bíða eftir svari eða hafa þegar fengið synjun á umsókn sinni. Möguleikar þeirra til að afla sér tekna eru verulega skertir og ekki hægt að gera þá kröfu að þeir greiði fyrir nauðsynlega heilbrigðisþjónustu.“ Almennt gangi efni reglugerðarinnar gegn almennri túlkun og skýringu á lögum um útlendinga, feli í sér afturför og skerðingu á réttindum umsækjenda um alþjóðlega vernd.
Athugasemdir