Starfsmanni á veitingastaðnum Gló á Laugavegi var sagt upp á þeim forsendum að héðan í frá yrði þess krafist að allir starfsmenn í eldhúsi væru vegan.
Stundin hefur undir höndum uppsagnarbréfið þar sem er tilgreint sérstaklega að uppsögnin tengist fyrirhuguðum breytingum á matseðli. „Veitingastaðurinn á Laugavegi verður veganstaður og er þess krafist að allir starfsmenn í eldhúsi séu sjálfir vegan,“ segir þar.
Sólveig Eiríksdóttir, Solla í Gló, segir að mistök hafi verið gerð þegar uppsagnarbréfið var orðað með þessum hætti. Þá hafi engum öðrum starfsmönnum verið sagt upp á þessum forsendum.
„Við ætlum að gera staðinn vegan, það hefur staðið til lengi. Einu kröfurnar eru að fólk sem vinnur hjá okkur hafi áhuga á þessari matargerð,“ segir Solla í samtali við Stundina.
Hún telur ekki viðeigandi að tjá sig um málefni einstakra starfsmanna en staðfestir að engin skilyrði séu sett um mataræði þeirra.
Athugasemdir