Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra mætti á fyrirlestur bloggarans Vanessu Beeley í Safnahúsinu í gær, heilsaði henni með handabandi og tók við fyrsta eintakinu af nýþýddri bók ástralska rithöfundarins Tim Anderson um stríðið í Sýrlandi.
Vanessa Beeley og Tim Anderson eru einna þekktust fyrir umdeildan málflutning – það sem í raun mætti kalla málsvörn – fyrir stjórn Bashar al Assad, en fáni Assad-stjórnarinnar var dreginn upp á fundinum.
„Ég hef í gegnum tíðina mætt á ýmsa fundi með fjölbreyttum sjónarmiðum, óháð því hvort ég er sammála frummælendum eða ekki og ég lít ekki svo á að fundarmenn á þessum fundi fremur en öðrum slíkum, hafi endilega verið sammála sjónarmiðum frummælanda,“ segir Katrín Jakobsdóttir í svari við fyrirspurn Stundarinnar um málið.
„Að þessu sinni bauð félagi minn Ögmundur Jónasson mér á þennan fund. Ég hafði ekki kynnt mér sjónarmið þessara aðila fyrir fundinn sem átti að fjalla um gagnrýni á fréttaflutning af stríðinu í Sýrlandi en ég sat hann raunar ekki til enda. Mín skoðun á Sýrlandsstríðinu er að þar verði að finna pólitíska lausn og málin verði ekki leyst með frekari hernaði.“
Útgáfa bókarinnar The Dirty War on Syria á íslensku var tileinkuð minningu Hauks Hilmarssonar sem féll í hernaðaraðgerðum Tyrkja í Sýrlandi þann 24. febrúar síðastliðinn. Þetta fór verulega fyrir brjóstið á fjölskyldu hans og vinum enda var Haukur anarkisti sem hafði andstyggð á harðstjórn og kúgun.
Beeley hefur birt mynd af sér með Assad á samfélagsmiðlum undir yfirskriftinni „mín stoltasta stund“ og jafnframt skálað fyrir árangri Assad-stjórnarinnar í Aleppo þar sem fjöldi óbreyttra borgara lét lífið í umsátri og sprengjuárásum stjórnarhersins árið 2016. Tim Anderson hefur ekki aðeins borið í bætifláka fyrir Sýrlandsstjórn heldur einnig fyrir stjórnvöld í Norður-Kóreu sem hann telur að sæti ósanngjarnri meðferð í vestrænum fjölmiðlum.
Nýlega fjallaði The Guardian ítarlega um aðkomu Beeley og Anderson að eins konar ófrægingarherferð gegn Hvítu hjálmunum, sveit sjálfboðaliða sem hefur aðstoðað þúsundir óbreyttra borgara, verið tilnefnd til friðarverðlauna Nóbels og átt lykilþátt í að afhjúpa mannréttindabrot Sýrlandsstjórnar, meðal annars efnavopnaárásir gegn óbreyttum borgurum. Beeley og Anderson þrættu fyrir að sýrlenski stjórnarherinn hafi notað slík vopn, þvert á niðurstöður stríðsglæparannsakenda Sameinuðu þjóðanna.
Nettröll og „Rússablæti“
Ögmundur Jónasson, fyrrverandi þingmaður Vinstri grænna, boðaði til fundarins og var fundarstjóri. Samkoman hefur sætt talsverðri gagnrýni. Þórunn Ólafsdóttir, sem hefur tekið þátt í hjálparstarfi í Miðausturlöndum, gerir málið að umtalsefni á Facebook og segir Vanessu gera lítið úr þjáningum óbreyttra borgara sem hafi þurft að kenna á grimmd Assads og stjórnarhersins í Sýrlandi.
„Til að gera langa sögu stutta, þá ætla ég ekki að mæta á þennan fund. Ég þarf ekki að taka mér stöðu gegn sýrlenskum almenningi til þess að trúa því að Vesturlönd beri líka ríka ábyrgð á þjáningum Sýrlendinga, rétt eins og Rússland, Íran, Saudi Arabía og gott fólk, við sjálf. Vopnaflutningarnir, munið þið? Þetta veit flest skynsamt fólk. Það gerir samt stríðsglæpamanninn Assad ekki að öðru en því sem hann er,“ skrifar hún. „Ég þarf ekki nettröll eins og þessa konu eða miðaldra karla með Rússablæti til að segja mér múkk um þetta stríð sem er alltof nálægt mér, alla daga.“
Benjamín Julian, vinur Hauks Hilmarssonar til margra ára, gagnrýnir harðlega að nafn Hauks hafi verið dregið inn í samkomuna. Benjamín, sem sat fyrirlestur Vanessu, segir hana hafa boðið upp á „klukkutíma lofræðu um staðfestu sýrlenska ríkisins og óréttlætið sem Bashar al Assad hafi þurft að líða“ og bætir við: „Það hefði verið furðulegur gjörningur alla daga ársins, enda er Assad á lífi og við hestaheilsu á meðan uppreisnarmenn gegn einræði hans og almennir borgarar verða fyrir tunnubombum. En á degi sem þessum er það ekki furðulegt, heldur bíræfið og grimmt. Haukur Hilmarsson var drepinn á víglínu uppreisnarmanna, fólks sem barðist gegn einræði, fasisma, þjóðernishyggju, karlrembu og heimsku. Hann dó við að verja heimavígi uppreisnarinnar í Kúrdistan. Assad, á hinn bóginn, rembist við að sölsa undir sig restina af landinu sem hann álítur sína persónulegu eign.“
Benjamín segir að allir sem þekktu Hauk „hljóti að hljóta að vita afstöðu hans gagnvart yfirmönnum ríkja, ríkisvaldinu og lögreglunni, stofnununum sem Vanessa Beeley taldi upp eina á eftir annarri og sagði hafa sýnt svo mikla "staðfestu" gegn ásókn uppreisnarmanna. Hún sagði arabíska vorið í Sýrlandi vera lygi og uppreisnarmennina vera terrorista“.
Þá skrifar Benjamín: „Hersveitir YPG eru ekki terroristar og samfélag þeirra í Rojava, sýrlenska Kúrdistan, er ekki eign Assad. Þar hefur orðið lýðræðisbylting við erfiðustu aðstæður allt frá 2012. Ríkjunum umhverfis finnst þeim ögrað, og þau óttast svipaðar uppreisnir minnihlutahópa hjá sér. Tyrklandsforsetinn vill útrýma þessari tilraun sunnanvið landamærin. Í dag sagði hann að þegar hann hefði lokið sér af í Afrin myndi hann ganga frá hinum kúrdísku borgunum. Evrópulönd, sem borga Tyrklandi fyrir að halda flóttamönnum úr álfunni, hafa litið undan. Enginn hjálpar Kúrdum þegar það verður pólitískt óheppilegt. Svoleiðis hefur það verið gegnum aldanna rás, enda er sagt í Kúrdistan að "enginn er vinur nema fjöllin." Öll spjót standa á þeim.
„Fáni Assads hékk á púltinu þegar nafn Hauks Hilmarssonar var dregið inní þennan ömurlega gjörning. Haukur, vinur minn, sem hataði einræði og yfirvald og móralska uppgjöf“
Kannski var á einhverjum degi ársins hægt að hlusta á málstað Assad í þessu stríði. Kannski var á einhverjum degi hægt að hlusta á mál Vanessu Beeley, sem kennir meðal annars George Soros um uppreisna í Sýrlandi, og byrjaði fyrirlesturinn með mynd af fyrirsögninni: "To save Syrians, let Assad win". Fáni Assads hékk á púltinu og þessi glæra var uppá vegg, stórum björtum stöfum, þegar nafn Hauks Hilmarssonar var dregið inní þennan ömurlega gjörning. Haukur, vinur minn, sem hataði einræði og yfirvald og móralska uppgjöf.“
RÚV hafnaði boði um viðtal við Vanessu
Ögmundur Jónasson greindi frá því í upphafi fundarins að hann hefði boðið fréttamanni Ríkisútvarpsins að taka viðtal við Vanessu Beeley. Ingólfur Bjarni Sigfússon, fréttmaður á RÚV hefði svarað: „Ég nenni ekki að hlusta á samsæriskenningar frá fólki sem dreifir rugli og rússneskum lygum eins og þessi kona gerir. Hún er eiginlega bara rússneskt nettrōll. Hefurðu skoðað feril hennar og hverju hún dreifir? Rugl útí eitt!“ Telur Ögmundur að svarið sé til marks um fordóma og þöggun. Sjónvarpsmaðurinn Egill Helgason hefur gagnrýnt Ögmund og hæðst að samkomunni á bloggi sínu.
Uppfært kl. 17:15:
Stefán Þorgrímsson, sem kynnti bók Tim Andersons á fundinum og stóð að útgáfunni, hafði samband við Stundina og gerði athugasemd við fréttina. Taldi hann framsetninguna einhliða. Ósanngjarnt væri að fjalla um veru Katrínar Jakobsdóttur á fyrirlestrinum enda hefði hún ekki verið þar sem forsætisráðherra heldur sem prívatpersóna.
Athugasemdir