Veist þú hvert starf ljósmóður er?
Eftirfarandi lýsingu á störfum ljósmæðra má finna á heimasíðu Ljósmæðrafélags Íslands:
Ljósmóðir er ábyrgur fagaðili sem í samráði við konur veitir nauðsynlegan stuðning, umönnun og ráðgjöf til kvenna á meðgöngu, í fæðingu og sængurlegu, stundar fæðingarhjálp á eigin ábyrgð og annast nýbura og ungbörn. Þessi umönnun felur í sér fyrirbyggjandi aðgerðir, stuðning við eðlilegt ferli fæðingar, greiningu á frávikum hjá móður og barni, milligöngu um læknishjálp eða aðra viðeigandi meðferð og veitir bráðahjálp.
Ljósmóðir gegnir mikilvægu hlutverki í heilbrigðisfræðslu og ráðgjöf ekki aðeins fyrir konur, heldur einnig fyrir fjölskylduna og þjóðfélagið í heild. Í hlutverki ljósmóður felst fræðsla á meðgöngu, undirbúningur fyrir foreldrahlutverkið, einnig fræðsla um heilbrigði og kynheilbrigði kvenna ásamt umönnun barna.
Ljósmóðir getur starfað hvar sem er, meðal annars í heimahúsum, úti í samfélaginu, á sjúkrahúsum, á stofum eða á heilsugæslustöðvum.
Ljósmæður starfa í flestum tilfellum sjálfstætt eða þá í teymisvinnu með öðrum heilbrigðisstéttum. Ljósmæðrareknar einingar eru starfræktar á nokkrum sjúkrahúsum á landinu. Á Íslandi í dag eru heimafæðingar um tvö prósent af öllum fæðingum. Við heimafæðingar starfa eingöngu ljósmæður. Nú er aftur starfrækt fæðingarheimili á Íslandi eftir margra ára bið og þar starfa eingöngu ljósmæður. Ljósmæður sinna konum á meðgöngu án aðkomu læknis nema ef læknisfræðilegt vandamál kemur upp. Í fæðingum eru það eingöngu ljósmæður sem sinna konum nema ef læknisfræðilegt vandamál kemur upp. Í sængurlegu sinna ljósmæður eingöngu konum og fjölskyldum þeirra nema ef læknisfræðilegt vandamál kemur upp. Þegar heim er komið þá eru það eingöngu ljósmæður sem sinna heimaþjónustu. Þar að auki starfa ljósmæður við krabbameinsskimanir, fræðslu og faglega þróun starfsins ásamt fleiru.
Ég var ekki há í loftinu þegar ég ákvað að ég ætlaði að verða ljósmóðir. Ég veit ekki hvað það var sem kveikti áhuga minn en hann hefur alltaf verið til staðar. Nám mitt í menntaskóla miðaði að því að undirbúa mig undir það að fara seinna meir í hjúkrunarfræði og svo ljósmóðurfræði. Í dag er ég 30 ára og að verða liðin tvö ár frá því ég útskrifaðist sem ljósmóðir. Ég lét drauma mína rætast. Alla tíð hef ég fengið að heyra að það væri nú sniðugra fyrir mig að læra eitthvað annað. Af hverju verðurðu ekki frekar lögfræðingur? Nú eða verkfræðingur? Þá færðu miklu betri laun. Af hverju verðurðu ekki frekar eitthvað allt annað en þig virkilega langar til að verða til þess að fá sómasamleg laun? Það er hrikalega margt bogið við þetta. Af hverju þarf ég að gefa minn draum upp á bátinn til þess að verða metin að verðleikum í starfi? Ég fékk margoft að heyra að ég ætti nú að vita að þetta væri illa launað þegar ég byrjaði í hjúkrunarfræði og að þetta ætti ekkert að koma mér á óvart. Ég hef alltaf verið með mjög sterka réttlætiskennd og mér finnst að við eigum öll að berjast fyrir jafnrétti. Því hef svaraði ég álíka spurningum á eftirfarandi hátt: Ég ætla að gera allt sem ég get til að láta leiðrétta þessi laun og þetta óréttlæti þegar ég verð orðin hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir.
„Nú finnst mér tilvalið að velta því upp við núverandi forsætisráðherra þessa lands hvort ekki sé kominn tími á að standa með ljósmæðrum.“
Formleg menntun í ljósmóðurfræði hófst hér á Íslandi 1761 og eru því ljósmæður elsta menntaða kvennastétt landsins. Frá upphafi hefur verið um kvennamenntun að ræða. Þrátt fyrir að vera menntaðar konur gekk ekki vel að tryggja þeim nein laun og má segja að það eigi sér sameiginlegt upphaf ljósmæðrafræðsla hérlendis og kjarabarátta ljósmæðra. Síðar (1826) kom það fram í réttindum og skyldum ljósmæðra að fátækum skyldu þær hjálpa fyrir guðs sakir (og þá engin laun) en þær áttu rétt á sanngjarnri greiðslu hjá þeim sem efnaðri voru.
Ég er ansi hrædd um að þetta viðhorf sé svolítið rist í þjóðarsálina.
Í dag er ljósmóðurnám á Íslandi sex ára háskólanám. Fjögur ár í hjúkrunarfræði og síðan tveggja ára viðbótarnám í ljósmóðurfræði. Það gera 360 ECTS einingar. Grunnlaun nýútskrifaðra ljósmæðra á Landspítalanum eru í kringum 460 þúsund krónur á mánuði miðað við 100 prósent vinnu. Það eru ekki margar stéttir með eins langa menntunarkröfu til þess að fá starfsleyfi. Þrátt fyrir það eru ótal stéttir með töluvert hærri grunnlaun en ljósmæður eftir eingöngu þriggja ára háskólanám. Þá er ég ekki að taka inn í myndina þá sem starfa á almenna markaðnum, þá einna helst til að hlífa eigin tilfinningum því bilið er svo stórt.
Er þetta vegna þess að ljósmæður eru 100 prósent kvennastétt?
Árið 2008 kom til hópuppsagna ljósmæðra vegna lélegra kjara og þær fengu í kjölfarið stuðning margra stjórnmálamanna. Hæst bar á stuðningi frá Katrínu Jakobsdóttur, núverandi forsætisráðherra og Steingrími J. Sigfússyni, núverandi forseta Alþingis. Árið 2015 fóru ljósmæður í verkfall sem engan árangur bar. Við fengum lögbann á okkar verkfall og upp var kveðinn Gerðardómur. Margar ljósmæður fengu ekki einu sinni greidd launin sín fyrir unna vinnu utan verkfalls. Þær eiga enn inni ógreidd laun frá Ríkinu.
Enn og aftur, og þreyttari sem aldrei fyrr á þessari framkomu, standa ljósmæður í kjarabaráttu. Kjaraviðræður eru komnar í hús Ríkissáttasemjara þar sem félagskonur voru langt því frá sáttar með samninginn sem okkur var boðinn. Það er ótrúlega dapurt hvað hann var algjörlega á skjön við það sem heilbrigðisráðherra Svandís Svavarsdóttir hefur nýlega kynnt. Hún hefur lagt áherslu á að gera þurfi betur við kvennastéttir í umönnun. Þetta virðist svo ósköp einfalt þar sem við erum að fara fram á leiðréttingu þar sem launaþróun okkar hefur ekki nærri því haldið í við SALEK rammann sem yfirvöld kjósa að fara eftir. Við erum ekki að biðja um meira en aðrir hafa nú þegar fengið.
Ég velti því fyrir mér hvers vegna ekki sé hægt að gera vel við ljósmæður hvað varðar launagreiðslur. Þurfa í alvöru að koma til uppsagnir svo hlustað sé á okkur? Þarf alltaf að fara í hart í launaviðræðum? Nú finnst mér tilvalið að velta því upp við núverandi forsætisráðherra þessa lands hvort ekki sé kominn tími á að standa með ljósmæðrum aftur nú 10 árum síðar?
Hvernig væri að meta ljósmæður að verðleikum eftir menntun og ábyrgð í starfi?
Athugasemdir