Eftir umræður á Alþingi í gær um vantraust á Sigríði Andersen dómsmálaráðherra í kjölfar lögbrots hennar og viðbragða við því - að segjast ósammála Hæstarétti og afneita lögbrotinu - tók hún til við að útmála og jaðarsetja þá sem vantreystu henni. En hún var ekki ein um það, heldur fékk hún fullan stuðning frá Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra sem gróf undan sjálfstæði Alþingis með boðskap sínum og yfirlýstum vonbrigðum með þá samflokksmenn hennar sem studdu ekki að Sigríður væri áfram ráðherra.
Dómsmálaráðherra ásakar þingmenn
„Vonar að þvarginu sé nú lokið,“ sagði í fyrirsögn á viðtali við hana á vef Morgunblaðsins. Sjónarmiði Sigríðar var síðan skellt á forsíðu Morgunblaðsins í dag: „Vonast eftir vinnufriði á þingi“. Skilaboðin eru að þingmennirnir sem vantreysta henni séu í reynd ólátabelgir sem eyðileggja fyrir öðrum á vinnustaðnum Alþingi, og þjóðinni. Þau séu bara fyrir. Í viðhorfinu felst alger firring frá þeim möguleika að hún hafi áunnið sér vantraust með hegðun sinni, svörum og ákvörðunum.
Hún ásakaði þá sem vantreystu henni um lágkúrulegar hvatir, að þingmennirnir sem vantreystu henni ætlaði sér að „koma í veg fyrir vinnufrið“ og „tala niður störf þingsins“.
„Ég vona að þessu þvargi um þetta mál sé nú lokið.“
„Ég vona að þessu þvargi um þetta mál sé nú lokið. Ég vona að menn fái nú einhvern vinnufrið. Auðvitað var markmiðið með þessari vantrauststillögu einna helst, af hálfu þeirra sem lögðu hana fram og þrífast á umfjöllun um vantraust og hafa að mínu mati þrifist á því að tala niður störf þingsins, störf embættismanna og stjórnsýslunnar í heild, að koma í veg fyrir vinnufrið. Mér hefur það fundist einkenna þeirra málflutning,“ sagði hún.
Eftir að dómsmálaráðherrann náði að verja stöðu sína og réttlæta gjörðir sínar byrjaði hún sem sagt að reyna að ganga milli bols og höfuðs á þeim sem vantreysta henni. Það kemur ekki á óvart, því í lok ræðu sinnar þar sem hún rökstuddi hvers vegna ekki ætti að vantreysta henni, lýsti hún yfir: „Það verður í minnum haft hvernig menn greiða hér atkvæði á eftir“. Slík orð eru ógnandi, en hafa margfalt vægi frá manneskju sem er í valdastöðu og hefur áður tekið geðþóttaákvarðanir um útdeilingu á dómarastöðum, brotið stjórnsýslulög með ófaglegum skipunum. Hún boðar þar sem beint eða óbeint að hún geti beitt valdi sínu gegn viðkomandi.
Gagnrýni er „garg og þvarg“
Áður hafði samflokksmaður hennar, Páll Magnússon, kvartað yfir „gargi og þvargi“ þeirra sem gagnrýndu lögbrot Sigríðar og fóru fram á afsögn hennar. Hann sagði síðan í Kastljósinu að búast mætti við mun verri tilfellum frá ráðherrum ríkisstjórnarinnar, heldur en þessari ólöglegu skipan dómara og afneituninni á lögbrotinu, skaðabótaskyldunni, hunsun á viðvörunum sérfræðinga, yfirlýsingum um eigin sérfræðikunnáttu, tilvísun ábyrgðar í aðrar áttir og svo framvegis.
Þeir sem hlustuðu á umræður á Alþingi um vantraust máttu hins vegar heyra að flestir stjórnarliða rökstuddu þá skoðun sína að það væri skaðlegt að Sigríður Andersen væri áfram dómsmálaráðherra, ekki vegna persónu hennar, heldur vegna gjörðanna, afleiðinganna og fordæmisins. Óháð því hver hún væri og úr hvaða flokki hún kæmi, væri mikilvægi þess að persóna hennar héldi stöðu dómsmálaráðherra minna en hagsmunir af því að hún yfirgæfi stöðuna, axlaði svokallaða pólitíska ábyrgð, frekar en afneitaði henni, enda lægi fyrir mikill skaði og vantraust og 72,5% landsmanna vilja að hún víki.
Auðvitað voru undantekningar, þar sem þingmenn eins og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson reyndu að láta vantraustsumræðu um dómsmálaráðherra snúast um að hann treysti ekki ríkisstjórninni í heild, sem kom varla á óvart vegna áherslu hans á að mikilvægi valda hans trompi annað.
Allir hljóta í það minnsta að líta á það sem möguleika að ráðherra segi af sér þegar svona er ástatt um aðstæður og atburði, þó það væri ekki nema til að skapa frið um dómstóla og reyna að skapa gott fordæmi með því að axla ábyrgð.
Krafa um að fylgja framkvæmdavaldinu
Svo fór að Sigríður eignaðist sterkan bandamann í forsætisráðherranum, Katrínu Jakobsdóttur, sem lýsti því að hún væri ósammála embættisfærslu Sigríðar en vildi ekki að hún segði af sér vegna lögbrotsins og viðbragða hennar við því. Hún lét sér ekki aðeins nægja að verja Sigríði vantrausti með atkvæði sínu, heldur gerði hún þá kröfu til þingmanna flokksins síns að þeir greiddu atkvæði samkvæmt sömu línu, því annað væri vantraust á ríkisstjórnina í heild. Þetta gerði hún þrátt fyrir yfirlýsta stefnu í upphafskafla stjórnarsáttmálans um að „efla sjálfstæðis Alþingis“, sem verður ekki skilið öðruvísi en að þingmenn eigi að greiða atkvæði eftir eigin sannfæringu, líkt og stjórnarskrárin segir, frekar en að fylgja framkvæmdavaldinu eða ríkisstjórninni öll sem ein.
Í lýðræðisríkjum er ríkisvaldið þrískipt, en þegar krafa Katrínar var komin fram var ljóst að löggjafarvaldið átti að vera samstíga framkvæmdavaldinu í viðbrögðum við því hvernig dómsmálaráðherrann rauf mörk framkvæmdavalds og dómsvaldsins með ólögmætri geðþóttaákvörðun um skipun í dómstól.
Forsætisráðherrann fór þannig að beita sér gegn þeim sem stóðu á prinsippum sínum. Katrín Jakobsdóttir sendi þeim tveimur þingmönnum Vinstri grænna sem hlýddu ekki flokkslínunni á hinu „sjálfstæða“ Alþingi, Rósu Björk Brynjólfsdóttur og Andrés Inga Jónsson, ákúrur í viðtali við RÚV í gærkvöldi: „Það eru mér vonbrigði að þau hafi valið að gera það í ljósi þess að á sínum tíma, þegar við fórum inn í ríkisstjórnarsamstarfið, þá bókaði þingflokkur Vinstri grænna að hann lýsti sig fylgjandi því að fylgja félagslegri niðurstöðu flokksráðsfundar þar sem við ákváðum að fara inn í þetta ríkisstjórnarsamstarf.“ Þingmennirnir tveir studdu hins vegar ekki ríkisstjórnarsamstarfið, en Katrín vill að þeir gangi í takt og greiði atkvæði andstætt sannfæringu sinni, í stað þess að lýsa yfir að hún virði rétt þeirra til afstöðu. Þeir áttu, eins og Katrín, að lýsa stuðningi við ráðherrann sem hegðar sér eins og Sigríður Andersen og segir, eftir að hafa verið dæmd fyrir Hæstarétti: „ Loksins kom vantrauststillagan ... Systurflokkarnir Píratar og Samfylkingin hafa einir látið hafa sig í það að kalla eftir vantrausti á þann ráðherra sem hér stendur, ráðherra sem fylgdi lagabókstafnum í einu og öllu við skipan dómara við hinn nýja dómstól.“ Áður hafði hún sagt dóm Hæstaréttar „áfall“.
Réttlætingar Katrínar á því að styðja ráðherra þrátt fyrir slíka framkomu og forsögu er að vantraust á einn ráðherra hafi í för með sér afleiðingar fyrir alla ríkisstjórnina. Hins vegar gera lög um Stjórnarráð Íslands ráð fyrir því að samþykkja megi vantraust á einstaka ráðherra, óháð stuðningi við ríkisstjórnina í heild: „Samþykki Alþingi tillögu um vantraust á einstakan ráðherra í ríkisstjórn er forsætisráðherra skylt að gera tillögu til forseta um að viðkomandi ráðherra verði leystur frá embætti.“
Ríkisstjórnin getur því vel haldið áfram þótt Sigríður Andersen verði ekki dómsmálaráðherra. Enda segir skýrt í lögum: „Ráðherrar starfa í umboði Alþingis.“ En þótt Katrín hafi undirritað stjórnarsáttmála sem felur í sér sjálfstæði Alþingis, horfir hún fram hjá því.
Jaðarsett fyrir sannfæringuna
Þegar það hefur í för með sér persónulegan eða félagslegan kostnað og jaðarsetningu að gera það sem þykir almennt rétt, en skapar áhættu fyrir valdastöðu flokksins, er komið á fordæmi, regla og ruðningsáhrif í þá átt að ekki aðeins er skaðleg breytni umborin, heldur er þeim hegnt sem beita sér gegn henni.
Þannig hefur hin skaðlega breytni verið samþykkt og ný viðmið sett: Þeir sem andmæla því að dómsmálaráðherra sitji áfram eftir lögbrot, klíkuskap, útúrsnúninga og hálfgildings hótanir, ásamt þeim skaða og vantrausti sem stjórnmál og dómstólar verða fyrir, eru útmálaðir sem lágkúrulegir, atyrtir og jaðarsettir. Sjálfstæðisflokkur, Framsóknarflokkur og Vinstri græn hafa nú búið til rými fyrir hegðun í æðstu röðum, sem verður að teljast í grundvallaratriðum samfélagslega skaðleg. Og nú er ekki einu sinni samkomulag um réttinn til að ræða vantraustið.
Skoðanakúgun leiðir af sér hóphugsun og veikir ákvarðanatöku. Slíkt hefur í för með sér víðtækari og ófyrirsjáanlegan samfélagslegan kostnað eða skaða.
Atburðir eins og þessir setja mörk og viðmið sem hafa áhrif langt út fyrir hann sjálfan. Þingmenn og við öll í samfélaginu höfum skyldu til þess að reyna að viðhalda þeim viðmiðum sem eru heilbrigð fyrir heildarhagsmuni og vinna gegn því að sérhagsmunir einstaklinga yfirtaki og beygi almenn viðmið um hvað er rétt og hvað rangt.
Athugasemdir