Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu hefur gert árangurslaust fjárnám í félaginu BOS ehf. sem rekur Argentínu steikhús. Stjórnarformaður félagsins er Björn Ingi Hrafnsson. Greiðsluáskoranir höfðu borist frá lífeyrissjóðum á innan við tveimur mánuðum eftir að hann tók við rekstrinum síðasta haust.
Tilkynnt var í október síðastliðnum að Björn Ingi væri tekinn við rekstri Argentínu steikhúss. Félagið sem áður rak Argentínu, Pottur ehf., var úrskurðað gjaldþrota í mars 2017. Kristján Þór Sigfússon átti félagið, en hann hafði verið annar eigenda Argentínu nánast frá stofnun þess.
„Ég er spenntur fyrir þessu verkefni,“ sagði Björn Ingi í samtali við vef Morgunblaðsins 6. október. „Ég hef alltaf haft mjög miklar mætur á þessum veitingastað og veit að svo er um fleiri. Af því að Argentína byggir á góðum og gildum hefðum steikhúsa verður ekki um neina byltingu að ræða, fremur ýmsar hægfara breytingar. En það er ýmislegt spennandi á döfinni sem gaman verður að setja í gang.“
Árni Harðarson, forsvarsmaður Dalsins ehf., sagði í tilkynningu 20. febrúar að Björn Ingi hefði hótað sér og boðist til að greiða sex milljóna króna skuldir með úttektarheimildum á steikum á Argentínu. Dalurinn keypti Birtíng útgáfufélag í maí í fyrra eftir að kaupum Pressunnar á Birtíngi hafði verið rift vegna bágrar fjárhagsstöðu Pressunnar. Aðstandendur Dalsins hafa kært Björn Inga fyrir fjárdrátt. Hann lýsti því yfir í febrúar að hann hefði kært þá á móti fyrir fjársvik. Fjölmiðlaveldi Björns Inga sleppti því að greiða opinber gjöld um langt skeið, til dæmis skatta af launum starfsfólks og lífeyrissjóðsgjöld. Svo virðist sem sama sé upp á teningnum hjá Argentínu Steikhúsi.
Athugasemdir