„Ég trúi því að hann sé valinn af Guði,“ sagði Guðmundur Örn Ragnarsson, sjónvarpsmaður Omega, í viðtali sínu við Eyþór Arnalds, borgarstjóraefni Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík fyrir borgarstjórnarkosningarnar í maí.
Eyþór Arnalds kom í viðtal á kristilegu sjónvarpsstöðinni Ómega í gær og var viðtalið tekið af Guðmundi Erni Ragnarssyni, sem meðal annars hefur vakið athygli með fríblaði sem hann ritstýrði, þar sem hann lýsti ánægju með rússnesk lög sem „fara gegn femínisma, gegn kynvillu, gegn fóstureyðingum“. Í viðtalinu varaði Guðmundur Örn, sem er fyrrverandi þjóðkirkjuprestur, við áhrifum djöfulsins.
Guðmundur Örn hvatti í viðtalinu fólk til að gefa sér Jesús á vald, og bað fólk, í Jesú nafni, að kjósa Sjálfstæðisflokkinn.
Hann beindi orðum sínum til áhorfenda undir lok viðtalsins.
„Og bara í Jesú nafni skora
ég á þig að kjósa Eyþór“
„Guð leiði þig og enn vil ég hvetja þig til að kjósa Sjálfstæðisflokkinn, það er að segja kjósa Eyþór. Mér finnst þetta snúast um hann. Hann er leiðtogi þessa hóps. Og bara í Jesú nafni skora ég á þig að kjósa Eyþór. Ég trúi því að hann sé valinn af Guði.“
Eyþór segist hafa leitað til Guðs
Í viðtalinu sagði Eyþór að trúfélög veittu dýpri þjónustu en sálfræðingar. „Það er ákveðin sálgæsla hjá trúfélögum. Við sjáum það að fólk fær oft aðra þjónustu hjá trúfélögum heldur en hjá sálfræðingum. Oft dýpri. Þannig að þetta er önnur upplifun. Sálfræðingar geta leyst einhver mál. En ef við tækjum burt trúfélögin úr teppinu, eins og ég segi, þá held ég að það myndi rakna upp.“
„Minn vilji fékk ekki að ráða.“
Þá talar Eyþór um að hann hafi leitað til Guðs og að Guðs vilji hafi ráðið för í framboði hans. „Ég vonaði að einhver annar myndi gefa kost á sér, sem ég myndi treysta fyrir því. Ég vissi að þetta væri mikið verk. Þannig að ég bað Guð að gefa mér styrk að segja nei, því margir voru að biðja mig um að fara í þetta. En á endanum, þá fór það öðruvísi, og sagt er nú að vegir Guðs séu órannsakanlegir, og hann, í rauninni kannski, vildi að þetta færi á hinn veginn. Minn vilji fékk ekki að ráða. Og nú er ég hér.“
Guðmundur Örn var áður prestur í Þjóðkirkjunni, en þótti of bókstafstrúaður. Eftir að hann sagði íbúum á Seltjarnarnesi til syndanna í upphafi tíunda áratugarins, vegna þess að djöfullinn léki þar lausum hala, og að guðleysingjar ættu vísa vist í helvíti, var hann á eigin vegum. Hann er nú forstöðumaður trúfélagsins Samfélag trúaðra, sem 28 manns eru skráðir í.
Athugasemdir