Í nokkrum greinum hef ég verið að benda á megin stefnumál sem snúa að landbúnaði hér á landi þar sem núverandi formaður BÍ hefur setið sem fastur tappi á allar breytingar og framfarir og stórskaðað stöðu bænda.
Í þessum pistli er ætlunin að fjalla um örfáar staðreyndir sem snúa að þekkingarmiðlun og rannsóknum í landbúnaði. Breytingar þar skipta ekki meginmáli um afkomusveiflur bænda frá degi til dags. Hins vegar eru þetta ef til vill þeir þættir sem mestu ráð um hvort greinin þróast til lengri tíma eða deyr drottni sínum sem mér virðist vera draumur formannsins og nánustu samverkamanna hans. Þarna hefur hann aðstoðarmann sem er stórhættulegur.
Búnaðarfélag Íslands er stofnað til að efla landbúnaðinn einmitt með þróttmiklu fræðslu- og rannsóknarstarfi í greininni. Allir þekkja þá sögu sem í kjölfarið fylgdi með nær samfelldu framfaratímabili meginhluta síðustu aldar í landbúnaði hérlendis. Á síðasta hluta hennar byrjaði að halla undan fæti þegar ósamræmi milli framleiðslu og markaðar varð hrópandi. Við tók tímabil misviturlegra og misheppnaðra björgunaraðgerða sem gerðu stöðu landbúnaðarins hér á landi veikari en áður. Við miklar breytingar í forystuliði bænda snemma á þessari öld tók við nánast svartnætti, aðgerða- og ráðaleysi þessara stjórnenda. Eins og ég hef bent á er engin ástaða til að halda þeirri vegferð áfram.
Þekkingarmiðlun var snar þáttur í hinum miklu framförum. Byggð var upp öflug leiðbeiningaþjónusta fyrir miðja síðustu öld sem miðlaði nýrri þekkingu, bæði innlendri og erlendri, til bænda. Útgáfustarfsemi á fagefni var líka sterk hjá BÍ. Með breyttum aðstæðum þarf einnig breytt viðhorf á þessum sviðum. Ég hef áður minnst á nefndina frá 1989 sem ég held hafi gefið vegvísi í þessum efnum sem var að engu hafður. Uppúr aldamótunum taka hinir nýju herrar við og stofnuðu RML, sem þegar er orðið feigðarflan í þessum efnum. Við uppbyggingu þar var anað í öll mestu foröðin sem varað var við í áðurnefndri skýrslu. Sem stjórnendur á nýju flaggskipi ráðgjafaþjónustunnar völdu stjórnendur BÍ það fólk sem finna mátti með þrengsta og minnsta fagmenntun í greininni. Þessi afglöp má að vísu skilja út frá sálarástandi æðstu stjórnenda hjá BÍ þegar þar er komið sögu.
Úr því sem komið er get ég ekki bent á aðra nærtækari lausn en leggja RML af í núverandi mynd og losa sig við óhæfa æðstu stjórnendur. Endurskipuleggja starfsemina, mikið af almennu starfsfólki er ákaflega öflugt fag- og starfsfólk sem kæmi til starfa við nýja stofnun sem löguð væri að þörfum landbúnaðarins á nýjum tímum. Formaður stjórnar RML sem um leið er framkvæmdastóri BÍ lýsti sínu viðhorfi við mig með að segja að hann varðaði ekkert um fagleg störf RML né umgengnishætti stjórnenda RML gagnvart starfsmönnum. Þessi viðhorf hljóta að segja mörgum margt.
Þekkingarmiðlun bæði í rituðu máli var einnig sterk lengi hjá BÍ. Það er einnig liðin tíð. Núverandi formaður erfði starfsmann á því sviði sem titlar sig oft sem upplýsinga eitthvað. Hann á einnig merkari feril en nokkur annar við að drepa fagmiðla í landbúnaði og mér hefur lengi virst að hann ætti sér aðeins það markmið að ganga að faglegum landbúnaði hér á landi dauðum. Sindri, ég held að þetta sé eini samstarfsmaðurinn sem þú átt að óttast.
Þegar Bændablaðið var stofnað þá var því ætlað hlutverk við miðlun fagefnis sem var í lausu lofti í framhaldi af sláturtíð Tjörva. Fyrstu ritstjórar Bændablaðsins leystu þau mál með prýði. Þegar núverandi ritstjóri kemur að blaðinu styttist í að ritskoðunarbrögð Tjörva kæmu til sögunnar. Því miður er Bændablaðið að verða algerlega rúið faglegu efni og þróast hraðar og hraðar yfir í að verða tímadrepsblað.
Ástæða er til að nefna tvær algerar undantekningar á sviði fagmiðlunar innan landbúnaðarins, sem ganga þvert á þá þróun sem hér er lýst. Annað er hrossaræktin með öflugt fag- og fagmiðlunarstarf og síaukna fagmennsku. Hitt er veffræðsla LK, sem greinilega sprettur af þörfinni sem greinin hefur rækilega orðið vör við eftir að þurrðin við stofnun RML skellur á. Slíkt starf hefði í eðlilegu umhverfi verið eitt meginhlutverk RML.
Mikilvægasta fagmiðlunin í landbúnaði var oftast það sem kom frá rannsóknarstarfsemi hér á landi. Ástæðulaust er að draga fjöður yfir það að ætíð hefur skort fjármagn til rannsóknarstarfs á sviði landbúnaðar hér á landi hvað mest síðustu ár. Það skapast meðal annars af stærð landsins og vegna sértækra rannsóknarverkefna. Þrátt fyrir það skiluðu rannsóknir hér á landi verulegu til framfara í greininni. Hér störfuðu nokkrir vísindamenn sem voru mjög vel þekktir á sínu sviði um allan heim. Með breyttum landbúnaði hljóta áherslur í rannsóknum að breytast. Fyrst breytingar úr magni í gæði í framleiðslunni. Á síðustu árum með áhrifum loftslagsbreytinga yfir á að búa í sátt við landið. Ný rannsóknarsvið eru fjársvelt og það er röng stefna að leggja af eldri verkefnasvið vegna þess að þar koma sífellt upp ný vandamál í ljósi breyttra aðstæðna þó að samdráttur á þeim sviðum sé eðlilegur. Fleiri ástæður þeirrar þróunar verða ræddar frekar á eftir. Við sameiningu starfsemi á Hvanneyri og Keldnaholti fyrir brátt tveim áratugum varð rannsóknarstarfsemin á vissan hátt hornreka gagnvart kennslustarfinu.
„Í dag blasir við að hérlent ungt fólk með menntun til að stýra rannsóknarstarfi og háskólakennslu í mörgum greinum finnst ekki lengur.“
Hið stóra vandamál gagnvart forustu BÍ er að þeir hafa verið meistarar í að semja af sér öll tækifæri gagnvart ríkinu með að flytja framleiðslustuðning yfir í rannsóknarstuðning í greininni. Þar hafa starfsbræður þeirra í nálægum löndum staðið vaktina betur og uppskorið eftir því. Veldur hver á heldur. Um leið þarf að gera sér ljóst að stefnuleysi forystunnar hér á landa er hluti orsaka að þessum vanda eins og ég hef oft fjallað um.
Fjármögnun rannsóknarstarfs verður sífellt þrengri og skipulag á stundum brotakennt. Það sem alvarlegast blasir við nú er endurnýjum á stærstu sviðum íslensks landbúnaðar, jarðrækt og búfjárrækt, hefur gengið til þurrðar. Ástæðurnar eru vafalítið margar en fjármögnun rannsókna vegna framhaldsnáms og námsins sjálfs vafalítið umtalsverður þáttur. Hvatning í þeim efnum hefur ekki komið frá BÍ síðustu árin það er einnig öllum ljóst. Er af það sem eitt sinn var. Þetta vandamál blasir einnig víða við í nágrannalöndunum og hefur verið um árabil. Í okkar fámennisumhverfi magnast slík vandamál upp og verða sárari. Ég færði þetta í tal við stjórnendur landbúnaðar hér á landi fyrir meira en tveim áratugum við of dræmar undirtektir og algert skilningsleysi eftir að stjórnendur síðasta áratugarins komu til valda. Í dag blasir við að hérlent ungt fólk með menntun til að stýra rannsóknarstarfi og háskólakennslu í mörgum greinum finnst ekki lengur. Þetta var áður kallað að fljóta sofandi að feigðarósi. Verði þessum lífsneista ekki sinnt er mögulegt að draumur sumra um að landbúnaður hér á landi deyi drottni sínum rætist.
Ástæða er að minna á að þegar fram komu hugmyndir þáverandi menntamálaráðherra til endurskoðunar og eflingar starfs LBHÍ beitti núverandi formaður BÍ sér heiftarlega gegn þeim hugmyndum og lét Búnaðarþing endanlega slá þær allar af borðinu. Í þeirri umræðu flaggaði formaðurinn hugmyndum um að leysa rekstararvandamál stofnunarinnar með að stofna almannahlutafélag þar sem BÍ kæmi inn sem sterkasti þátttakandinn. Síðan hefur ekkert heyrst til útfærslu hans á þeim hugmyndum. Það verður líklega aðalmál hans á komandi Búnaðarþingi.
Menntun á háskólastigi í landbúnaði hefur ætíð verið hörð barátta og er enn þannig að þar er varla ástæða til að hæða formannsræfilinn. Í upphafi skilaði þetta nám öflugum hópi til leiðbeiningastarfa og á síðustu árum hefur bændastéttin fengið öflugan hóp betur menntaðra bænda en áður sem aldrei getur orðið nema jákvætt. Rannsóknarstarfið býr hins vegar enn við ákaflega þröngan kost, jafnvel sumt þar verið við dauðans dyr. Þetta kallar á að bændur láti sig málið varða en viðhafi ekki starfs- og athafnaleysi formannsins í þessum málum.
Hér hefur verið vikið að nokkrum málum sem snúa að rannsóknum og þekkingarmiðlun í landbúnaði. Þróunin hefur eins og á er bent aðeins verið niður brekkuna. Sinni bændur ekki þessum málum er framtíðarsýnin augljós en lítt eftirsóknarverið.
Sumum kann að finnast ég harðorður. Því miður segi ég aðeins sannleikann. Greinin er orðin það löng að mörgu verður að sleppa sem þörf væri að ræða. Þetta er það svið íslensks landbúnaðar sem ég held ég þekki best. Ég hef helgað alla starfævi mína störfum á þessu sviði. Vonandi einhverju með nokkrum árangri í íslenskum landbúnaði. Forysta BÍ rak mig að vísu úr starfi við lok starfsferils míns með upplognum ásökunum, sem er fag einstakra forstöðumanna innan BÍ. Þetta skýrir að þessi mál brenna heitar á mér en mörg önnur.
Augljóslega er staðan í þessum málum nú aðeins einn naglinn enn í líkkistu núverandi formanns BÍ. Eins og bent er á hefur hann aðeins orðið til mikilla óþurfta á þessu sviði landbúnaðarins eins og flestum öðrum. Þess vegna er meginmál að bændur velji til forystu dugmeiri og sterkari mann á þessu sviði á komandi Búnaðarþingi.
Athugasemdir